Það þarf að bjarga eignum lífeyrissjóðanna erlendis.

Nú erum við þar stödd í heimskreppunni að fyrsta stóráfallið er að baki. Það er verið að koma á ró á fjármálamörkuðum með innspýtingu fjár úr ríkissjóðum flestra landa. Sem stendur hefur þetta áhrif, en þó eru augljós merki þess að staðan er viðkvæm. Dubai er í sviðsljósinu út af skuldum sem ekki er hægt að greiða á gjalddaga. Sá skuldapakki er að vísu ekki stór, álíka stór og heildarskuldir Íslands í fyrra. En þetta dugir þó til að sýna heiminum að ekki er allt komið í lag ennþá. Það sem hefur komið í ljós í tengslum við þetta fyrirhugaða greiðslufall í Dubai, er að efnahagur Sameinuðu arabísku furstadæmanna er miklu sterkari en allra landanna í ESB, mælt í erlendum skuldum sem hlutfalli af landsframleiðslu. Einnig eru "vel stæð lönd" utan ESB sem eru miklu veikari fjárhagslega en Dubai og Sameinuðu arabísku furstadæmin, t.d. Noregur og Sviss. Erlendar skuldir Noregs eru t.d. nærri þrefalt meiri en Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Lönd eins og Bretland, Holland, Austurríki og Luxemburg standa frammi fyrir hrikalegri skuldastöðu. Það er daglega rætt um það í erlendum fréttum hvort efnahagur Bretlands muni hrynja á næstunni, Þjóðverjar eru í bankatiltekt til að búa sig undir mikið tap á næsta ári og ríkissjóðir heimsins hafa aukið skuldir sínar um 50% á stuttum tíma í alls kyns björgunaraðgerðum. Atvinnuleysi eykst í skuldugum ríkjum sem öðrum, neysla dregst saman um allan heim. T.d. fór jólaverslunin nú rólega af stað í Bandaríkjunum. Sumir spá allt að 30% samdrætti í jólaverslun í nokkrum löndum, sem jafngildir hruni í þeim geira. Olíuverð er himinhátt, en þarf að hækka meira svo sum olíuríki geti greitt skuldir sínar. En hækki olíuverð meira ýtir það undir samdrátt í þeim ríkjum sem þurfa að kaupa olíuna dýrum dómum. Hvaða leið sem farin er með olíuverðið, lægra, óbreytt eða hærra breytir engu nema því hvar olíuverðið ýtir undir kreppuástand. En þar sem efnahagskerfin eru hnattræn kemur þetta alltaf í sama stað niður. Olía er orðin að efnahagslegum vítahring heimsins.

Ég held því að nú sé rétti tíminn, og ekki seinna vænna, að bjarga því sem eftir er af eignum íslensku lífeyrissjóðanna erlendis, með því að selja þær, og flytja peningana aftur til Íslands.

Að bíða eftir því að næsta holskefla heimskreppunnar komi án þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður, er auðvitað bara ávísun á fullkomið tap Íslands. Í dag kann að þykja glannalegt að selja erlendar eignir og flytja peningana inn í Ísland aftur, en hér munu þeir þó koma eigendum sínum að einhverju gagni. En ef þeir verða látnir bíða þess að tapast að fullu í erlendum fjárfestingum þá koma þeir aldrei að neinu gagni lífeyrisgreiðendum og -þegum á Íslandi. Þeir tapast þá bara að fullu.
Það er betra að bjarga því sem bjargað verður en að bíða eftir að allt tapist að fullu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband