Hvað skyldi nú koma út úr þessu hjá Össuri?
22.11.2009 | 13:00
Það var nú gott að Össur fór í þessa heimsókn. Hann veit þá væntanlega núna að Spánn er stærsta fiskveiðiþjóð Evrópu og að Vigo er stærsta fiskihöfn Evrópu. Samt eiga Spánverjar lítið land að sjó, ef frá er talið Miðjarðarhafið og smá blettur að Biscayaflóa.
Það hvað Spánverjar eru öflug fiskveiðiþjóð byggist alfarið á því að þeir hafa stundað fiskveiðar í annarra landa sjó og utan landhelgi. Helstu mið þeirra hafa verið langt úti á Reykjaneshrygg, austur af Boston í Bandaríkjunum, vestur af Írlandi, vestur af Sahara, undan ströndum Suður Afríku og undan ströndum Argentínu og við sjöundu heimsálfuna, suðurskautslandið.
Eftir að Íslendingar unnu þorskastríðin við Englendinga og þjóðir heims færðu út fiskveiðilögsögu í 200 mílur, hvert á fætur öðru, þrengdi mjög að fiskveiðum Spánverja, og kenna þeir Íslendingum um, því Íslendingar voru nú fyrstir og framsýnastir í þessum efnum.
Síðan hefur legið við bryggjur í Vigo og víðar fjöldi togara sem fá ekki næg verkefni og bíða nú m.a. færis á að íslenska landhelgin opnist fyrir þeim á nýjan leik. Eflaust er það það sem Össur ætlar að gera, að opna fyrir spænska flotann. Í september s.l. lágu þannig um 60 togarar við bryggju í Vigo, aðgerðalausir, og biðu þess að Össur opni fyrir þeim.
Ég var sjálfur á ferð í Vigo í september og kynnti mér einmitt þessi sömu mál og Össur. Það verður gaman að sjá hvaða mynd hann dregur upp eftir þessa heimsókn. Vonandi hefur hann heimsótt sjóminjasafnið í Vigo sem er vel útfært og þar er sagt vel og greinilega frá fiskveiðisögu Spánverja.
Þá hefur hann vonandi kynnt sér þau vandamál sem sjávarútvegsyfirvöld á Spáni eru að fást við að eigin sögn, eins og (uncontrolled landings) stjórnlausar landanir fram hjá vigt og eftirlit með veiðum sem er í algjörri mýflugumynd.
Það var líka gaman að sjá í greininni að Össur heimsótti þarna fyrirmenn sem eru svo óöruggir um sig í sínu heimalandi að þeir hafa ævinlega með sér 2 vopnaða lífverði, eins og mér er kunnugt um að á við um a.m.k. einn af þeim sem Össur hitti þarna, svo þeirra eigin starfsmenn, viðskiptafélagar og viðskiptavinir stytti ekki lífdaga þeirra af einhverjum ástæðum. Kannski það verði þannig að spænskir fiskveiðiforstjórar taki bara fiskimiðin hér með vopnavaldi. Félegur félagsskapur sem Össur valdi sér í þessari ferð!
Það er spurning hvort Össur sér tækifæri í að innleiða þetta fiskveiðikerfi Spánverja á Íslandi þegar hann er búinn að koma okkur í ESB. Og það er spurning hvaða hann ætlar að fá hjá Spánverjum í stað aðgangs að landhelgi okkar? Varla verða það gagnkvæmar fiskveiðiheimildir hjá þjóð sem á ekki land að neinum fiskimiðum sem máli skipta.
Össur í höfuðborg spænsks sjávarútvegs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Jón Pétur. Vaðandi neðstu málsgreinina. Það er ekkert eitt "fiskveiðikerfi" fyrir öll ríki ESB. Það er vissulega fisveiðistefna CFP, eða nýtingarstefna varðandi stofna sem eru sameiginlegir, en eftir inngöngu getum við haft hvort heldur við óskum kvótakerfi, dagakerfi eða bara blöndu af því besta. Enda snertir það svo dæmi sé tekið útgerð í Hirtshals og Skagen ekkert hvaða fyrirkomulega er í Vigo á Spáni.
Þá veistu að "svokallaður" úthafsfloti Spánverja byggist á Joint Venture verkefnum með fyrirtækjum aðallega í Suður Afríku og Suður Ameríku. Eignatengslin eru með ýmsu móti og oft ríkistengt. Þessi svokallaði "spánski floti" hefur í dag engan rétt til veiða inn ESB lögsögu, ekki frekar frekar en innan lögsögu Spánar. Þvi er verulega langsótt að þessi "floti" fái eitthvað frekar að veiða innan ESB lögsögunnar eftir að við höfum gengið þar inn. Þá veit ég ekki til þess að spánskir ráðamenn hafi verið að reyna að útvega þessum suðurhafsflota aflaheimildir hér í norðurhöfum.
Atli Hermannsson., 22.11.2009 kl. 15:15
Sæll Atli og takk fyrir athugasemdina.
Það er auðvitað hægt að velta vöngum fram og aftur yfir framtíðar fiskveiðum í íslenskri landhelgi. Og það kann vel að vera rétt að það snerti t.d. útgerð í Hirtshals og Skagen ekkert hvaða fyrirkomulag er í Vigo á Spáni. En einmitt það og það sem á eftir fer í þinni athugasemd vekur þá enn betur upp spurningar um hvað Össur er að gera í Vigo á Spáni til að kynna sér sjávarútvegsmál þar ef það snertir okkur ekkert núna eða í framtíðinni hvaða fyrirkomulag er þar? Og ef það er venja núorðið á Spáni að flotinn byggist á Joint Venture verkefnum sem greinilega duga skammt því hann liggur mikið til verkefnalaus, eru þá ekki góðar líkur á að menn vilja leita verkefna fyrir þennan flota í íslenskri lögsögu, jafnvel þó það hafi ekki tekist að komast inn í annarra þjóða lögsögur? Það er ekkert sem segir að við munum endilega geta varið okkar lögsögu nú þó aðrar þjóðir í ESB hleypi ekki Spánverjum að. Verkefnaleysi flotans og saga Spánverja á Íslandsmiðum eru næg ástæða fyrir þá til að leita hingað aftur. Og Spánverjar eru auðvitað ekki eins vitlausir og við Íslendingar nú í kreppunni varðandi fiskinn. Það er marg búið að segja við okkur, "Follow the money" til að finna sökudólga og peninga og endurheimta peninga og sjá hvað gerðist í hruninu. Við förum enn ekki eftir þessu. En Spánverjar vita að "Follow the fish" er einföld og örugg leið til að afla flotanum verkefna og styrkja atvinnulíf í fiskveiðihéruðum Spánar. Þess vegna eru Íslandsmið líka afar áhugaverð fyrir þá, þar er enn mikill fiskur, öfugt við t.d. Norðursjó. Svo auðvitað veltir maður fyrir sér þeirri staðreynd að forystumenn Spánverja í fiskveiðimálum hafa marg oft sagt umbúðalaust frá áhuga sínum á Íslandsmiðum og aðild Íslands að ESB vegna fiskimiðanna.
Jón Pétur Líndal, 23.11.2009 kl. 01:34
Sæll Jón Pétur. Hafir þú verið á sjávarútvegssýningunni í Vigo þá hefur þú væntanlega tekið eftir að þar var næstum ekkert þar fyrir smábátaflotann, þrátt fyrir að að nær allur heimaflotinn séu smábátar og það sem við köllum strandveiðiskip. Það er verið að höfða til úthafsflotans sem eins og ég segi er í sterkum samskiptum og samvinnu við stjórnvöld og fyrirtæki þeim tengdum beggja vegna Suður Atlantshafsins. Þetta er búið að vera svona í marga áratugi.
Það er því algerlega ástæðulaust að óttast þennan flota. Þá myndu fæst þessi skip henta við okkar aðstæður. Og af hverju ættu þeir að koma með skip hingað sem ekki henta, þegar þeir geta bara keypt 49% í Granda ef þeir hefðu áhuga. Ég las einhvers staðar að við Íslendingar ættum einn fjórða af öllum hefðbundnum togurum í heiminum sem hannaðir eru fyrir botntroll. Hins vegar eiga margar þjóðir öfluga flota uppsjávarskipa og þá geta Spánverjar státað af stórum flota túnfiskskipa. Þeir eru einnig mjög öflugir í “Joint Venture” verkefnum með fjölmörgum ríkjum í Afríku og Suður Ameríku eins og ég hef áður sagt. Það er þessi meinti úthafsfloti þeirra sem menn óttast alveg óskaplega að komi hingað. Ég held að ég geti fullyrt að Samherji eigi stærsta einstaka flotann sem gerður er út frá spánskri höfn; en frá Kanaríeyjum gerir Samheri út stóran flota uppsjávarveiðiskipa á makríl og sardínu undan ströndum Afríku. Þá eru Sjólaskip að koma sér aftur upp flota sambærilegum Samherja flotanum. Nú um daginn var viðtal í Speglinum við Björgvin Ólafsson, eiganda að Sæblómi sem gerir út nokkur skip frá Maroco og sagði hann enga meinbugi á því að ganga í ESB og ekkert að óttast hvað hann gæti séð.
Nær allur botnfiskur innan lögsagna ESB ríkja er veiddur af minni bátum og því sem kallað er strandveiðifloti eða dagróðrabátar. Sem dæmi þá er megnið af öllum bolfiski og öðrum botnfiski Spánverja innan þeirra eigin landhelgi c/a 300 þúsund tonn veiddur á bátum innan við 200 tonn að stærð. Það er vegna ógurlegs fjölda af minni bátum að það eru um 60 þúsund fiskimenn á Spáni. Þessir bátar fara væntanlega ekki að sigla hingað enda ekki með veiðireynslu og því ekki með kvóta. Ef svo ólíklega vildi til að einhver ákveði að koma og gera út á leigukvóta yrði viðkomandi bátur að uppfylla lög og reglugerðir Siglingamálastofnunar og þá gilda íslenskir samningar og reglur um rekstur fyrirtækja hér á landi svo fátt eitt sé nefnt. En í dag er opið fyrir þennan möguleika á EES samningnum og hefur enginn mér vitanlega notfært sér það. Þá fer ekki heldur mikið fyrir erlendum fyrirtækjum í fiskvinnslu hér á landi þó þær dyr hafi staðið galopnar frá 1994. Hins vegar hafa íslensk fyrirtæki eins og Samherji og Vísir í Grindavík komið sér upp útgerðum og fiskvinnslustöðvum á nokkrum stöðum erlendis með góðum árangri. Ef einhverjir ættu að óttast eitthvað, er það innrás okkar í Evrópu.
Þá liggur fyrir að erlendir aðilar mega eiga 49% í íslenskum útgerðum í gegnum sjóði og hlutdeildarfélög en enginn hefur séð ástæðu til þess á öllum þeim árum sem þeim hefur staðið það til boða. Þvert á móti er auðlindin eins og hún leggur sig að fara í hendurnar á einhverjum sem enginn veit hverjir eru í gegnum breytt eignarhald á bönkunum ... en öllum virðist standa á sama og enginn spyr einu sinni hverjir þetta eru.
En ef svo ólíklega vildi til að samið yrði við ESB um nokkur tonn í einhverri tegund geta menn ekki á heilum sér tekið... en við fengjum væntanlega eitthvað í staðinn...er það ekki?
Atli Hermannsson., 23.11.2009 kl. 18:45
Sæll aftur Atli og takk fyrir spjallið.
Ég er nokkuð viss um að ég var á sjávarútvegssýningunni í Vigo og tók ágætlega eftir því sem var þar. Þar var nú raunar talsvert fyrir alls konar báta stóra og smáa, bæði til úthafsveiða og dagróðra. Og það var líka talsvert þar að sjá fyrir fiskeldi og skelfiskeldi og netagerð. Líka skemmtiferðaskip, strandgæslu og skemmtibáta ef út í það er farið. Þarna var líka talsvert um pökkunarvélar af ýmsu tagi sem hentað geta fyrir alls konar afurðir og siglingatæki af öllu tagi eins og gengur á svona sýningum. Já, ég er alveg viss um að ég var þarna.
Og varðandi spánska flotann þá held ég hann henti bara alveg álíka vel til veiða við Ísland nú eins og fyrir 40 árum síðan. Og hann hentar alveg jafn vel til veiða hér eins og við suðurskautslandið og Argentínu. En vissulega er uppistaðan í fiskveiðum í suðurhöfum kolkrabbi og skyldar tegundir sem lítið er af hér. En það er miklu fé veitt til að grípa tækifæri sem gefast fyrir spánska flotann þannig að þeim verður í lófa lagið að skipta um veiðarfæri og einhvern búnað ef þess þarf.
Og ekki má gleyma þeirri einföldu staðreynd að þeim var hent út af Íslandsmiðum þegar landhelgin var færð út. Áhugi þeirra hefur ekkert minnkað þó þeir hafi ekki fengið að veiða hér lengi. Þeir eru einfaldlega mjög óánægðir með að fá ekkert að veiða við Ísland og langar mikið að koma aftur.
Og varðandi það að þeir geti keypt 49% í Granda, þá hef ég engar áhyggjur af því, ég hef meiri áhyggjur af að þeir kaupi frekar 51% í Granda eða öðrum slíkum fyrirtækjum, nú þegar verið er að afhenda erlendum kröfuhöfum bankana sem eiga kannski í raun sjávarútvegsfyrirtækin flest.
Ég er alveg sammála þér um það að Samherji og Sjóli og Sæblóm þurfa ekkert að óttast inngöngu í ESB. Það er ekki það sem ég hef áhyggjur af. Minn áhugi beinist að því að sjávarútvegurinn verði áfram hluti af íslensku atvinnulífi og að tekjurnar af honum komi íslensku þjóðarbúi til góða. Ég á ekki von á að Kanaríeyjaveiðar Samherja eða veiðar Sæblóma undan ströndum Afríku skili miklu í þjóðarbúið hér. Og það er einmitt þannig sem líklegast er að fari með okkar eigin mið þegar aðrir taka við stjórninni. En fyrirtækin ganga auðvitað kaupum og sölum, eigendur þeirra þurfa ekki að hafa áhyggjur nema þeir missi kvótana. Það er nú bara 50/50 líkur á að halda þeim í besta falli. Alveg jafn miklar líkur á að við inngöngu í ESB verði tekið hér upp allt annað fiskveiðkerfi.
Varðandi eignarhald á útgerðinni þá er það vissulega svo á pappírnum að Íslendingar eiga fyrirtækin, en samt hafa þau mörg verið skuldsett með erlendum lántökum, eigendur þeirra hafa í raun innleyst eignir sínar í þeim og notað í ýmislegt gróðabrall eins og öllum er vel kunnugt. Þannig hafa menn í raun selt fyrirtækin úr landi þó þeir hafi ekki mátt þinglýsa afsölum fyrir meirihlutaeign útlendinga.
En meira um fiskbæinn Vigo. Þó smábátarnir séu margir þá koma ekki frá þeim nema um 10% af þeim afla sem seldur er á fiskmörkuðum bæjarins. Úthafsflotinn ber uppi veiðarnar. Og þessi bær er sagður stærsta fiskihöfn í Evrópu og sennilega öllum heiminum. En reyndar vita menn lítið um aflabrögð smábátanna. Fiskveiðiyfirvöld á norður Spáni viðurkenna að í raun sé ekkert fylgst með veiðimönnum og aflabrögðum. Menn gefa bara upp það sem þeim hentar hverju sinni og þar við situr.
Allur fiskveiðifloti Spánar telur um 15000 skip og báta, samanborið við um 800 á Íslandi, og í landinu eru um 100 þús. manns sem lifa af fiskveiðum skv. opinberum tölum. Það sem áður þótti mesti styrkur Spánverja í fiskveiðum var þessi stóri floti. Nú er hann orðinn veikleiki því ekki er nægur fiskur til að reka svona stóran flota. Íslendingar komu því til leiðar, það er staðreynd að mati Spánverja. Og stjórnmálamenn á Spáni eru að reyna að ná sér í atkvæði fyrir hverjar kosningar með því að reyna að halda úti þessum mikla flota og mörgu störfum. En þetta ber sig ekki nógu vel. Þess vegna munu Spánverjarnir koma um leið og glufa opnast hvað sem Össur heldur og gerir. Og heildarflotinn telur um 20 sinnum fleiri skip en sá íslenski. Og það eru stóru skipin sem veiða á úthöfunum sem afla um 90% af því sem að landi kemur. Allur er því varinn góður.
Jón (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 20:14
"Og ekki má gleyma þeirri einföldu staðreynd að þeim var hent út af Íslandsmiðum þegar landhelgin var færð út. Áhugi þeirra hefur ekkert minnkað þó þeir hafi ekki fengið að veiða hér lengi. Þeir eru einfaldlega mjög óánægðir með að fá ekkert að veiða við Ísland og langar mikið að koma aftur."
Jón Pétur. Það er margt ágætt hjá þér þó mér gangi frekar erfiðlega að átta mig á samhenginu. Og ef maður er ekki með söguna nokkuð rétta getur verið fjandanum erfiðara að átta sig á heildarmyndinni - hvað þá draga ályktanir og spá fyrir um hvað muni gerast. Því máttu benda mér á hvaða heimildir þú hefur fyrir því að Spánverjar hafi verið að veiða hér við land fyrir daga landhelginnar?
Atli Hermannsson., 24.11.2009 kl. 00:23
Sæll Atli, enn og aftur. Það er gaman að einhver skuli nenna að rökræða um þessi mál við mig. Maður hefur bara gott af að þurfa að standa fyrir máli sínu.
Það er nú búin að reynast mér þrautin þung að finna einhverjar heimildir fyrir því að Spánverjar hafi verið að veiða hér við land fyrir daga landhelginnar. Raunar finn ég í fljótu bragði engar heimildir fyrir því að útlendingar hafi veitt hér við land aðrar en þær að við upphaf þorskastríðanna flestra eða allra hafi Bretar veitt hér mest og Vestur Þjóðverjar næst mest án þess að nokkuð sé getið um afla eða fjölda skipa. Þá eru að vísu nokkrar heimildir fyrir því að Baskar (sem eru frá héraði á norður Spáni) hafi stundað hér hvalveiðar allt frá því um 1610. Þeim upplýsingum virðist þó helst til haga haldið vegna þess að Íslendingar drápu hóp hvalveiðimanna hér eitt árið. En það hve lítið finnst af upplýsingum um veiðar erlendra skipa hér við land fyrr á árum er ótrúlegt og gefur manni næstum því ástæðu til að ætla að útfærsla landhelginnar á sínum tíma hafi verið óþarfa frumhlaup því hér hafi eiginlega engir útlendingar verið að veiða. Ég verð því að viðurkenna að spurning þín um heimildir um veiðar Spánverja hér við land fyrir daga landhelginnar kom mér í óvænta klípu.
Það eina skriflega sem ég hef séð mér til halds í þessu var það sem ég las í sjóminjasafninu í Vigo um þorskveiðar Spánverja í norðanverðu Atlantshafi, m.a. við Ísland. Því miður var ekkert af þeim upplýsingum í bæklingaformi þannig að ekki gat ég nú tekið þetta með mér máli mínu til sönnunar. Þannig að ég verð að viðurkenna að þarna stend ég illa að vígi. Eflaust má nú finna þessar upplýsingar einhvers staðar, þó þær komi ekki fram fljótt og fyrirhafnarlítið þegar eftir þeim er leitað.
En hins vegar þarf ekki annað en fara inn á heimasíður Spænskra útgerðarfyrirtækja til að sjá að þau stunda nú veiðar allt í kring um Ísland, vonandi utan landhelgi þó. T.d. Pescanova sem sýnir á mynd hvar á heimshöfunum fyrirtækið sækir afla sinn, m.a. umhverfis Ísland. Pescanova er fyrirtækjasamteypa með höfuðstöðvar í næstu borg við Vigo. Þeir gera alls út um 120 skip að eigin sögn og eru þar með líklega mun stærri samsteypa en Samherji ásamt sínum dóttur- og hlutdeildarfélögum, allavega í skipum talið.
Þá kom víða fram þegar ég var að leita upplýsinga um þetta að Spánverjar voru duglegir við þorskveiðar við Nýfundnaland allt til þess tíma að þorskurinn þar kláraðist, í bókstaflegri merkingu. Þar varð algjört hrun og veiðibann um margra ára skeið.
Þá kom í ljós þegar ég skoðaði tölur frá FAO, matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, að heildarafli Spánverja var um 1.350 - 1.444 þús. tonn á árunum 1968-1975 þegar þeir fiskuðu sem mest. Á þessum árum var þorskaflinn um 550-600 þús. tonn eða tæpur helmingur af heildarafla. Og á þessum árum var nánast allur fiskur sem Spánski flotinn veiddi, veiddur í norðanverðu Atlantshafi og aðliggjandi hafsvæðum. En síðan þetta var hefur margt breyst. Íslendingar og aðrar þjóðir hafa fært út fiskveiðilögsögu sína og nú 2007 var heildarafli Spánverja í Atlantshafi aðeins um 641 þús. tonn og þorskur þar af um 116 þús. tonn.
En til að bæta þetta upp eftir megni eru þeir farnir að veiða í Kyrrahafi, um 35-50 þús. tonn á ári, Indlandshafi 125-211 þús. tonn á ári og svo eru þeir duglegir við það fyrirkomulag sem kallast joint venture eins og þú réttilega bentir á og eru t.d. sagðir eiga um 20% útgerðarfélaga á Bretlandseyjum með þessari aðferð.
Þá verð ég til að minna betur á áhuga Spánverja á fiskinum við Ísland að benda hér á frétt um frétt í spánska blaðinu El Pais frá í sumar þar sem íslensku fiskimiðin eru sögð fjársjóður fyrir spánska flotann og lögð á það mikil áhersla að Spánverjar fái að díla um þessi mál svo hagsmunum Spánverja verði ekki stefnt í hættu. Það geta varla verið hagsmunir þeirra að fá ekki að fara á Íslandsmið. Hér er tenging á greinina.
http://eyjan.is/blog/2009/07/28/spanverjar-telja-islensk-fiskimid-fjarsjod-munu-tryggja-sinn-veidirett-segir-esb-radherra/
Svo maður dragi saman það sem fram er komið með óyggjandi hætti en sleppi því sem enn skortir sönnur á þá er það helst þetta.
Spánski fiskveiðiflotinn tók þátt í að klára þorskinn við Nýfundnaland.
Þessi floti er nú þegar við veiðar allt í kring um Ísland Þennan flota skortir meiri fisk.
Ráðamenn á Spáni kalla íslensku fiskimiðin fjársjóð sem þeir vilja díla um til að tryggja hagsmuni Spánar.
Í þessu ljósi veltir maður fyrir sér af hverju þú telur að við þurfum ekkert að óttast þennan spánska fiskiskipaflota.
Jón Pétur Líndal, 25.11.2009 kl. 01:54
"Spánski fiskveiðiflotinn tók þátt í að klára þorskinn við Nýfundnaland."
Sæll Jón Pétur. Þú ert kannski hissa á að ég skuli nenna að rökræða við þig, en mín er ánægjan... og þá ert þú einn örfárra sem ég man eftir úr kosningasjónvarpinu.
Ég hef einstaka sinnum tekið snúning á mönnum hér á blogginu varðandi fiskveiðimál og venjulega lítið orðið ágengt. Því það er svo ríkt í okkur að vera búnir að koma okkur upp skoðunum og halda í þær hvað sem hver segir.
En nú vitum við báðir að Spánverjar voru aldrei að veiða hér við land þó þeir hafi verið sterkir á ákveðnum svæðum eins og við Noregsstrendur, í Barentshafinu og við Nýfundnaland. En þeir voru aldrei hér við land. Hvernig þessi útbreiddi misskilningur er tilkominn er mér hulin ráðgáta. þetta er ekki það eina sem ég hef orðið var við, sérstaklega hjá andstæðingum ESB sem fæstir taka rökum. Ég hef stundum lagst í það "vonlausa" verkefni að leiðrétta suma þeirra, en stuttu seinna endurtaka flestir þeirra gömlu þvæluna aftur án þess að depla auga
Ég sé þig alveg fyrir mér Googlandi sveittur og finna ekkert nema einhverjar hvalasögur frá 17 öld hehe
Og fyrst þetta er komið á hreint langar mig að gera athugasemd við annan útbreiddan misskilning varðandi veiðar Spánverja við Nýfundnaland. Vissulega voru þeir fyrirferðamiklir þar á löngu árabili ásamt fleiri þjóðum. En það er mikill misskilningur að tengja hrun þorskstofnsins við Nýfundnaland við ofveiði útlendinga eins og Spánverja. Af þeirri einföldu ástæðu að landhelgin við Nýfundnaland var færð út í 200 mílur árið 1977. Hrun þorskstofnsins verður ekki fyrr en fimmtán árum síðar – eða tveim þorsk-kynslóðum.
Svo geta menn greint á um líffræðilega orsök hrunsins sem er allt önnur ella. En t.d. Jón Kristjáns fiskifræðingur og Kristinn frá Bakkafirði eru sammála þeim sem segja að stofninn hafi verið sveltur til dauða. Þeir benda á að allar götur frá 1975 var 25% aflaregla þar líkt og hjá okkur. Stofninn stækkaði mikið og hafði aldrei mælst stærri en tveim árum fyrir hrunið, samkvæmt aldurs aflagreiningu. Veiðin hrundi úr 475 þúsund tonnum árið 1986 með 25% aflareglu í ekkert 1992. Við hrunið kom í ljós að meðalþyngd sjö ára þorsks hafði lækkað um heil 70% ...í tæpt eitt og hálft kíló...
Jón Pétur, undirritaður var veiðarfærasölumaður í yfir 20 ár. Ég hafði það sem sagt að atvinnu að tala við útgerðarmenn og skipstjóra allt í kringum landið. Mér gafst því einstakt tækifæri til að kynna mér allar hliðar fiskveiðikerfisins. Á þessu tímabili heimsótti ég einnig tugi sjávarúteggssýninga í samtals fjórum heimálfum fyrir utan mýgrút af heimsóknum til þeirra erlendu aðila sem við höfðum mest viðskipti við. Ég vona að ég hljómi ekki mjög hrokafullur þegar ég segi að ég hafi þokkalega góða yfirsýn yfir þennan málaflokk.
En segðu mér, ertu bróðir Unnsteins?
Kv. Atli Hermanns
Atli Hermannsson., 26.11.2009 kl. 12:20
Sæll Atli. Það er bara gaman að þú skulir nenna þessu spjalli hér, og vissulega er ég hálf hissa á því. En það er nú allt í góðu lagi með það samt, mín vegna.
Þessi skrif okkar hafa fyrir mína parta orðið til þess að ég hef kafað aðeins dýpra í málin sem er bara gott ef maður hefur tíma til þess. Vitneskjan verður bara meiri við það.
Ég veit nú ekki hvort ég á að vera ánægður eða óánægður með að þú skulir muna eftir mér úr kosningasjónvarpinu, en það kemur kannski betur í ljós.
Ég veit nú heldur ekki fyrir víst að Spánverjar hafi ekki verið að veiða hér við land áður fyrr, og er þá aðallega að tala um frá seinni heimsstyrjöld og til þessa tíma sem nú er. En það er allavega rétt að maður googlar þá vitneskju ekki upp, hvort sem maður svitnar við það eða ekki.
Eitthvað rekur mig nú minni til þess úr þessum google leiðangri mínum um daginn að hafa séð talað um samninga við bæði Portúgal og Spán um þorskveiðar allt að 40 togara við Nýfundnaland eftir að landhelgin var færð þar út í 200 mílur, þannig að ég get nú ekki alveg fallist á að þeir hafi gefið þorskinum þar frí eftir að landhelgin var færð út. Hins vegar kann vel að vera að aðrar ástæður hafi ráðið miklu meiru um hrun stofnsins en veiðiálag. Þá sá ég nú líka annað sem ég vil ekki að Íslendingar lendi í, en það er að Spánverjar hafa haft ákv. forgang fram yfir heimamenn á miðum við Nýfundnaland. Án þess ég viti það fyrir víst þá helgast það nú trúlega af því að Nýfundnaland er nú bara hérað í Kanada nú orðið. Og þessar veiðar líklega umsamdar út frá öðrum hagsmunum en þeirra sem næst miðunum búa. Og þetta rifjar einmitt upp heimsókn viðskiptasendinefndar frá Prince Edward eyju hingað til lands í fyrra. En þar kvörtuðu margir sendinefndarmenn undan því að eftir að Nýfundnaland gekkst Kanada á hönd hafi það orðið að lítils metnum útkjálka, lífskjör versnað að mun og að þetta hafi verið verstu mistök sem gerð hafi verið þar frá því land byggðist. Því miður eru aðstæður þarna óþægilega líkar því sem á við um Ísland í samhengi við ESB, nema að Ísland er ennþá meiri útkjálki, bæði landfræðilega, atvinnulega og hvað varðar tungumálið.
Það er gott að þú hefur unnið í tengslum við sjávarútveg og lagt þig fram um að ná yfirsýn yfir atvinnuveginn. Ég kann ágætlega að meta það og tek góðum rökum frá slíkum mönnum, enda er ég víst órafjarri því að vera alvitur sjálfur, ólíkt svo mörgum stjórnmálamönnum í dag. En samt, þrátt fyrir að þú hafir sýnt mér fram á að sumt sem hefur verið sett fram sem mikilvægar staðreyndir, sé ekki rétt, eða allavega ekki jafn umfangsmikið og sumir halda fram, þá hefur nánari skoðun á sjósókn Spánverja jafnframt varpað sterkara ljósi á aðra þætti, og aðgangshörku þeirra á ýmsum fiskimiðum, þannig að ég er svo sem engu hrifnari nú en áður af að Spánverjar fái að véla um fiskveiðar Íslendinga í framtíðinni.
Ég veit ekki til að ég eigi neinn Unnstein fyrir bróður. Við erum fjórir bræðurnir, og nöfnin byrja öll á J.
Jón Pétur Líndal, 27.11.2009 kl. 21:47
Datt bara í hug að spyrja, en Unnsteinn Líndal er einn öflugasti og þekktasti línuskipstjóri landsins og hefur verið það síðastliðin 15 ár eða svo... Landar sitt á hvað á Þingeyri, Djúpavogi og Grindavík... en sennilega aldrei í Borgarnesi.
Atli Hermannsson., 28.11.2009 kl. 12:56
Nei, ég er viss um að hann landar aldrei í Borgarnesi. Þar landar ekki nokkur maður með viti. Meira að segja Spánverjar munu aldrei láta sér detta í hug að landa á þeim stað þó útsjónarsamir séu.
Jón Pétur Líndal, 28.11.2009 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.