Skringileg auglýsing í Fréttablaðinu í dag.

Ég sá skringilega auglýsingu á bls. 43 í Fréttablaðinu áðan. Las hana tvisvar og ákvað svo að birta hana hér. En hef endursagt hana eins og ég skildi hana við þennan tvöfalda lestur minn á henni.

Varst þú svo vitlaus að kaupa hlutabréf í Glitni eftir að hann fór á hausinn?

Eftir að tilkynnt hafði verið um björgunartilraun Ríkssjóðs Íslands með kaupum á 75% alls hlutafjár í Glitni banka hf. mánudaginn 29. september 2008, þá leyfðu stjórnvöld (FME) í framhaldinu, eða frá og með þriðjudeginum 30. september, að opnað væri fyrir viðskipti með hlutabréf bankans í Kauphöll Íslands, svo bláeygðir bjánar gætu keypt það sem eftir væri af hlut útrásarvíkinga í bankanum og þannig dregið úr tapi þeirra. Stjórnvöld létu þess jafnframt getið í platloforði reyndra stjórnmálamanna sem ég hef oft kosið áður þó þeir plati mig alltaf að bankanum væri ætlað að lifa til framtíðar og þannig myndi ríkið græða vel á að henda þessum peningum í bankann. Ekkert væri gróðavænlegra.

Í ljósi alls þessa og annarra platloforða ráðamanna þjóðarinnar, voru fjölmargir einstaklingar og lögaðilar nógu vitlausir til að kaupa hlutabréf í Glitni af ræningjum bankans á tímabilinu 30. september til lokunar FME á viðskipti með bréf í félaginu 6. október. Og hefðum við gjarnan haldið áfram að kaupa hluti í þessum gjaldþrota banka hefði FME ekki lokað fyrir viðskiptin. Á þessum dögum áttu sér stað 878 viðskipti með hlutabréf fyrir um 3,9 milljarða. Allt er þetta tapað fé eins og búast mátti við og eiga svona vitlausir viðskiptahættir sér ekki fordæmi í vestrænu siðmenntuðu samfélagi, en kannski tilheyrðu stjórnvöld heldur ekki þeim flokknum hér á landi, enda ekki við því að búast í landi þar sem finnast 878 aðilar sem halda að þeir muni græða á að kaupa hlutafé í gjaldþrota banka manna sem segjast vera búir að ræna bankann.

Hópur fólks sem var svo vitlaus að kaupa þessi hlutabréf og heldur að stjórnvöld hafi rænt það verulegum upphæðum og jafnvel öllu sínu sparifé, hefur bundist samtökum um að ná peningunum til baka, þó það sé tilgangslaust því það kann ekki með peninga að fara, og ætlar að gera kröfur á gjaldþrota ríkissjóð Íslands og íslenska skattgreiðendur, með atbeina mannréttindadómstóls Evrópu ef með þarf. Til að málareksturinn hafi þann styrk og þunga sem til þarf þurfum við allir 878 vitleysingarnir að gefa okkur fram og leggjast á eitt í þessu máli. Hinir vitleysingarnir eru því beðnir um að gefa sig fram á netfangið vitlaus@vitleysingar.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband