Hvers eiga Íslendingar að gjalda?
21.11.2009 | 09:18
Ég hitti talsvert af fólki á hverjum degi. Í vinnunni og á förnum vegi. Ég á kunningja úti um allt land og nokkra erlendis. Það tala allir um þessa ónýtu landsforystu sem við höfum, forsetann og ríkisstjórina.
Annaðhvort þegir þessi forysta eins og t.d. forsetinn gerir, eða mælir tóma vitleysu eins og Steingrímur og Jóhanna. Verst er þó að flest sem gert er gerir illt verra, er eins og olía á eld. Enda virðist megin stefna landsforystunnar vera sú að reyna að draga peninga frá vinnandi fólki, úr alvöru verðmætasköpun, til að afhenda þá bröskurum sem hafa rækilega sannað að þeir kunna ekkert með þá að fara og skiptir þá engu máli hvort þeir eru innlendir eða erlendir. Þetta á að gera með skattahækkunum og niðurskurði og með því að ríkið fari að bæta útlendum bröskurum tapið af misheppnuðu Icesave gróðabralli með íslensku bönkunum. Á meðan er ekkert gert til að ná einseyringi eða meiru af genginu sem rændi þjóðina, það er ekki einu sinni búið að samræma lög svo að það sé hægt að stefna mönnum ef einhverjum dytti það nú í hug.
Þessi ríkisstjórn er sannkölluð ránsstjórn. Þegar búið er að ræna Íslandi, eins og hægt er að fullyrða í bókstaflegri merkingu, því tapið af útrásinni er um þrefalt verðmæti Íslands eins og það leggur sig skv. fasteignamati, þá stendur ríkisstjórn yfirleitt álengdar og horfir á ræningjana smjatta á leyfum og naga beinin og leita að fleiru til að ræna. Hvernig getur ein ríkisstjórn verið svona slöpp? Og af hverju heyrist ekki lengur tíst frá forsetanum. Ef hann hefur misst málið og heyrnina þá verður auðvitað að skipta honum út. Við verðum að hafa forseta með lífsmarki, jafnvel þó hann sé bölvaður auli og aldrei í takti við þjóðina.
Á meðan góðærið stóð sem hæst söng í Ólafi Ragnari, Steingrími J. og Jóhönnu eins og sveitasímalínum og góðu ráðin, skrúðmælgin og hátíðlegheitin drupu af hverju strái. Það voru samt ekki eintómar stuðningsyfirlýsingar við bankana og útrásina af hálfu Steingríms allavega. Þá virtist hann gera sér grein fyrir að glansmyndin endurspeglaði ekki innihaldið.
En nú er þetta fólk allt saman álíka traust og gagnlegt og gamlir grautfúnir girðingastaurar. Það horfa allir á þau og hugsa um hvernig hægt er að losna við þessi lýti í pólitíska landslaginu og laga hlutina. Enginn sker sig úr núna. Nú er Steingrímur stekkur.
Það eina sem kemur að gagni núna er að þeim hefur ekki ennþá tekist að losa okkur við krónuna þó unnið sé að því hörðum höndum og dýrum dómum. Fyrir vikið er ennþá hægt að reka alvöru atvinnuvegi og afla þjóðinni tekna. Sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta skila góðum tekjum núna. Stóriðjan er meira álitamál í efnahagslegu tilliti, enda mikil skuldsetning á bak við fá störf þar. Fjármálastarfsemi og annað brask og iðjuleysi er hins vegar ekki gróðavænlegt lengur. En þessa landsforystu langar mikið að eyðileggja það sem enn stendur uppi í þjóðfélaginu. Það er eins og þeirra helsta markmið sé að taka upp þráðinn þar sem útrásarliðið stoppaði og eyðileggja það sem ennþá gengur vel.
Hvers eiga Íslendingar að gjalda að hafa svona lið í æðstu stöðum?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.