Ástþór og Styrmir sammála.
19.11.2009 | 20:11
Það var afar fróðlegt að hlusta á Styrmi Gunnarsson í Kastljósinu áðan. Hans pólitíska sannfæring er sú að það þurfi að færa valdið til fólksins og draga úr leynd í þjóðfélaginu, eða öllu heldur að hafa allt uppi á borðum.
Þetta eru akkúrat áherslur Ástþórs Magnússonar og Lýðræðishreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar. Þá var þjóðin auðvitað of merkileg með sig til að hlusta á Ástþór en nú er spurning hvort þetta þykir gáfulegra þegar það er Styrmir Gunnarsson sem hefur þessa skoðun. Eða hvort hann fellur bara í ónáð hjá Íslendingum fyrir að hafa þá sannfæringu að þessara breytinga sé þörf.
En fyrir okkur í Lýðræðishreyfingunni er þetta ánægjulegur liðsauki við okkar málstað sem hingað til hefur ekki átt upp á pallborðið hjá nema rétt um 1000 Íslendingum.
Það var raunar fleira sem Styrmir var okkur sammála um. Hann fullyrðir að Íslendingar eigi ekki að borga Icesave sé farið eftir regluverki ESB sem við höfum löngu samþykkt að fara eftir. Þetta var nú annað sem við lögðum áherslu á í kosningabaráttunni. En niðurstaðan varð sú að þjóðin valdi sér leiðtoga sem vilja ekki fara eftir reglum ESB sem við höfum undirgengist. ESB vill reyndar ekki fara eftir þessum reglum heldur. Þessir aðilar eru allir sammála um að brjóta regluverkið svo kúga megi Íslendinga til að borga það sem þeim ber ekki að borga.
Og þá var fróðleg umræða Þóru og Styrmis um hvernig hann var í tengslum við fjölda áhrifamanna í þjóðfélaginu til að Mbl. gæti skrifað um þjóðmálin og ritstjórar blaðsins myndað sér skoðanir á þeim. Þóru þykja það greinilega undarleg vinnubrögð Styrmis að vera í miklu sambandi við þá sem hann er að fjalla um. En ef Styrmir og Mbl. voru eini fjölmiðillinn sem vann svona þá skýrir það auðvitað af hverju hinir fjölmiðlarnir meta oft léttvægt það sem er í gangi í hverju sinni. Hvernig er hægt að flytja fréttir ef það er almenn stefna fjölmiðla að vera ekki í sambandi við fólk í þjóðfélaginu? Þessi óvænta afhjúpun Þóru á verklagi fjölmiðlanna skýrir líklega að verulegu leyti af hverju útrásarvíkingar hafa alla tíð skautað létt með sín "einkamál" framhjá flestum fjölmiðlum. Enda virðast ýmsir fjölmiðlar hafa meiri áhuga á að dekra við sína vini á ýmsum sviðum en að kafa í þjóðfélagsmálin á gagnrýninn hátt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.