Hneykslun vegna KSÍ stripphneykslisins er hneyksli.
10.11.2009 | 01:06
Ég er hálf hneykslaður á því hvað fólk er upprifið yfir þessu KSÍ máli, þar sem nokkrar milljónir slysuðust óvart út af kreditkortum á einhverjum strippstað í útlöndum, eftir því sem fréttir herma. Mér skilst að meira að segja hafi náðst að endurheimta peningana að mestu eða öllu leyti þannig að eftir stendur bara skömmustulegur náungi og fullt af hneyksluðum gagnrýnendum sem ekki mega vamm sitt vita né annarra samlanda sinna.
Það sem hneykslar mig sérstaklega í þessu efni er að menn skuli ekki vera jafn hneykslaðir út af þeim lánum sem ríkisstjórnin er að taka og öðrum skuldbindingum sem hún er að ábyrgjast út af m.a. fjölmörgum sambærilegum málum. Eða hvað skyldu nú margar krónur hafa farið í fyllerí og slark og skylda hluti eða verri og vera hluti af því tapi og þeirri bólu sem menntamálaráðherra og aðrir ríkisstjórnar með limir ætlast til að þjóðin borgi á næstu áratugum. Ég get alveg fullyrt að ríkisstjórnin ætlar að láta þjóðina punga út meira en 3-4. milljónir út af því fylleríi og slarki sem hún ætlar að greiða fyrir. Og þarna tekst örugglega ekki að endurheimta svo mikið af peningum að slarkið fáist að fullu greitt og ekkert verði eftir nema skömmustulegheitin. Ég minni á að í svallveislum á góðæristíma útrásarinnar sem nú á að láta þjóðina greiða fyrir beint eða óbeint voru keyptir heimsfrægir tónlistarmenn eins og Tom Jones og Elton John, maturinn var kryddaður með ekta gulli, eðalvagnar voru fluttir yfir Atlantshafið til að snatta innanbæjar í Reykjavík eina kvöldstund, flugvélar voru fylltar með fyrirmönnum til að liðka fyrir velvilja þeirra við þjóðarránið og þeim flogið út í heim í spilavíti og á lúxushótel eða kappakstursmót og snekkjusiglingar, auk þess sem það var daglegt brauð hjá hópi manni að fljúga hver í kapp við annan á sem flestum einkaþotum vestur og austur um Atlantshaf. Ég er ekki frá því að Gróa á Leiti hafi sagt að Elvis heitinn Presley og Bob Marley hafi verið keyptir úr himnavist sinni eina kvöldstund til að halda veglega tónleika á hátindi útrásarinnar fyrir valda viðskiptavini og ýmsa eðalhöfðingja á sama tíma og samdar voru auglýsingar fyrir útrásarbanka sem sýna áttu fram á að bankarnir ættu skammt eftir í að opna útibú á fjarlægustu stjörnum sólkerfisins og myndu gera það um leið og samgöngur þangað yrðu reglulegar.
Kæru samlandar og bloggarar, reynið nú frekar að hneykslast svolítið á þessu víðáttumikla sukki sem ríkisstjórnin ætlar að láta okkur borga fyrir án þess að gera neitt í að ná neinu til baka. Það er mun þarfara en að leggja einn mann í einelti út af gömlu smámáli sem búið er að kippa í lag og bitnar ekki á neinum nema þeim eina sem hlut átti að máli. Það er ekki stórmannlegt að taka sig saman hver um annan þveran til að níðast á einum þó eflaust sé hægt að hafa hann undir ef allir leggjast á eitt. Mér finnst þetta bara hneykslanlegt því að á meðan sitja hinir stóru gangsterar heima sem ríkið ætlar að borga sukkreikninga fyrir og hlægja að íslensku smásálunum sem fá útrás á KSÍ manninum.
Athugasemdir
Sammála.
(IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.