Vonandi læra menn af þessu.

Borgarbyggð er dæmi um sveitarfélag sem átti sér mikla stórveldisdrauma. Þeir áttu sparisjóð sem óx og dafnaði um árabil og tók svo mikið vaxtarviðbragð og blés ennþá hraðar út í góðærinu þegar þeir voru svo heppnir að eiga í skúffu sinni hlutabréf í Exista. Það virtist vera góðar aukatekjur fólgnar í þessari bankastarfsemi sveitarfélagsins. Sveitarstjórnarmenn létu fara vel um sig og ákváðu að taka nokkur hundruð milljóna lán til að auka hlutafé í sparisjóðnum svo enn meira mætti græða á honum. Það þurfti að byggja menntaskóla í sveitarfélaginu, enda leikskólar, grunnskólar og háskólar á hverju strái, en enginn menntaskóli. Þar sem ljóst var að meiri gróði var tryggður með því að taka lán fyrir meira stofnfé í sparisjóðnum var ekkert verið að bíða með menntaskólaframkvæmdir. Þær voru drifnar í gang svo hægt yrði að koma sparisjóðshagnaðinum í lóg þegar hann færi að skila sér. Menntaskólinn var byggður með hraði og til að slá tvær flugur í höggi var hann allur koparsleginn að utan, þannig að menntaskólahúsið er í heild sinni stærsta bronsstytta sveitarfélagsins ásamt því að vera skólahús.

En nú eru breyttir tímar og allt skólahald í vörn í sveitarfélaginu. Ríkið ætlar að draga úr útgjöldum til menntaskóla og háskóla og sveitarfélagið er að skera niður leikskóla og grunnskóla. Sparisjóðurinn er farinn á hausinn, lán sem voru tekin til að kaupa meiri gróða hafa bara verið tómt tjón. Lán sem voru tekin til að borga fyrir byggingu menntaskólans á meðan beðið var eftir gróðanum af hinu láninu, hafa snarhækkað, byggingarkostnaður menntaskólans var auðvitað miklu meiri en átti að vera í upphafi. Sveitarfélagið er á hvínandi hausnum. Stærsta fyrirtækið í sveitarfélaginu fór á hausinn og fleiri eiga mjög erfitt. Útlitið í atvinnumálum er dökkt.

Það er ekki svo langt síðan þetta sveitarfélag varð til úr nokkrum minni sveitarfélögum sem þar áður höfðu nýlega orðið til úr fleiri enni minni sveitarfélögum. Allar þessar sameiningar áttu að skila bættri þjónustu, ódýrari og betri stjórnsýslu, lægri sköttum o.s.frv. Sveitarstjórnarmenn virðast ekki hafa borið gæfu til að nýta þessa stækkun sveitarfélagsins til hagræðis og hagkvæmiauka og annars sem lofað var, heldur hafa þeir frekar nýtt tækifærið til að svala einhverjum stórmennskufýsnum sem eru að koma þeim og íbúunum í koll núna.

Ég vil bara minna sveitarstjórnarmenn á að þeirra hlutverk er að tryggja að íbúar sveitarfélaga fái þá þjónustu sem þeim ber skv. sveitarstjórnarlögum. Allt sem er umfram það á ekki, og má í raun ekki skv. lögunum, vera til útgjalda fyrir sveitarfélögin. Það hefur lengi verið algengur ósiður að fara lítt eftir sveitarstjórnarlögum í þessu, heldur snúa út úr þeim og túlka þau eins vítt og hverjum hentar þegar kemur að því að spreða peningum í gæluverkefni og ævintýri. Vonandi fara menn nú læra eitthvað af þessu.


mbl.is Þrír skólar lagðir niður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo innilega sammála, og má heimfæra þetta yfir á mörg önnur sveitarfélög.

(IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 12:31

2 identicon

Mikið er ég sammála þér.  Mér skilst að allir sveitastjórnarmenn sem tóku þessi lán á sínum tíma til (sem voru í erlendri mynt) að auka hlutafé í SPRON sitji en.  Ég hef haft þá skoðun að þeir eigi að víkja, þeir settu sveitafélagið á hausinn og sjá svo fram á að skerða grunnþjónustu hjá íbúum.  Það þarf jafnvel að koma utanaðkomandi aðilar til að stýra þessu sveitafélagi.

Svo er alveg sér kaputuli með SPRON, t.d. að maður sem var hátt settur í SPRON og ber því ábyrgð á því að setja hann á hausinn (ásamt öðrum) er orðin bankastjóri Kaupþings-banka í Borgarbyggð, alveg ótrúlegt.

Hrafnhildur Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 31.10.2009 kl. 16:30

3 Smámynd: Leifur Finnbogason

Mér finnst skrýtið að tala um sveitarstjórnarmenn í þessu samhengi. Notar þú orðið "alþingismenn" þegar þú ræðir um ákvarðanir vinstristjórnarinnar sem þér líkar greinilega svo illa við?

Nei annars, þetta kemur málinu lítið við.

Leifur Finnbogason, 31.10.2009 kl. 19:58

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæl öll sömul sem eruð að kommenta á þetta hjá mér og takk fyrir það.

Leifur, af því þú ert að hafa áhyggjur af því hvað mér er illa við vinstri stjórnina og orðaval í þessu sambandi þá langar mig að skýra aðeins fyrir þér þetta atriði.

Mér er vissulega meinilla við þessa vinstri stjórn. Það er aðallega af tveimur ástæðum. Önnur er sú að annar flokkurinn í stjórninni (Samfylkingin) er alveg jafn flæktur í alla þessa efnahagsvitleysu okkur og útrásarspillingu eins og Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur og að hinn flokkurinn (VG) af einhverjum ástæðum lúffar stöðugt fyrir spillingarflokknum og gerir vart annað en að búa til einhverjar kommúnískar efnahagsuppskriftir til að þóknast Samfylkingunni og hanga inni í þessari vonlausu stjórn.

Hin ástæðan fyrir andúð minni á þessari ríkisóstjórn er svo sú að hún er ekki að leysa nein vandamál, það er bara verið að bæta á sig vandamálum, fresta vandamálum, láta AGS plata sig, útrásarliðið plata sig og almennt að horfa á efnahagsástandið og framtíðina í gegn um einhver biluð bjartsýnisgleraugu. Þess vegna erum við ekki á réttri leið ennþá og þetta getur ekki farið vel á meðan svona er tekið á málum.

Og varðandi orðavalið, "alþingismenn", "sveitarstjórnarmenn", "ríkisstjórn", þá má eflaust hártoga það, en þó er ljóst að ekki þarf að tala mikið um alþingismenn þegar rætt er um ákvarðanir vinstristjórnarinnar, því hún virðist ráða sínum alþingismönnum nokkuð vel en í sveitarstjórnum er varla hægt að tala um hægri eða vinstri sveitarstjórnir því þær eru margar og pólitískt allt í graut sums staðar, en aðrar stundum til hægri og stundum til vinstri. En vitleysisgangurinn samt yfirleitt svipaður.

Jón Pétur Líndal, 31.10.2009 kl. 22:39

5 Smámynd: Muddur

Þetta fíaskó í Borgarbyggð er gott dæmi um þá geðveiki sem var í gangi á þessum tíma. Sparisjóður Mýrasýslu var einhver best rekni sparisjóður landsins á sínum tíma (2006-2007) og það var áhugi hjá stóru bönkunum að eignast hann, sérstaklega Kaupþingi. Mér skilst að mögulegt söluverðmæti bankans hafi verið á bilinu 15-20 milljarðar þegar best lét. Það er heilmikill peningur fyrir lítið sveitarfélag, sem átti þá 100% stofnfjár í bankanum. En ráðandi menn í sveitarfélaginu vildu ekki selja "krúnudjásnið" sitt, en í stað þess þótti mun sniðugra að spreða geigvænlegum fúlgum í hlutabréfakaup í Exista og öðrum áhættusæknum fjárfestingafyrirtækjum. Það þótti meira að segja sniðugt að lána 1.000 milljónir til félags (til hlutabréfakaupa gegn veði í bréfunum sjálfum) sem var m.a. í eigu sonar sparisjóðsstjórans. Auðvitað endaði þetta illa og bæjarfélagið missti sparisjóðinn og sat eftir með sárt ennið og skelfilegan höfuðverk í þokkabót.

Ekki bætir svo úr skák þessi flottræfilsháttur varðandi menntaskólann, en mér skilst að sú framkvæmd hafi varið mörg hundruð prósent fram úr kostnaðaráætlun, sem upphaflega var 200 milljónir. Ég hef jafnvel heyrt að kostnaðurinn hafi farið upp í 2 milljarða, sem er 1000% frávik frá kostnaðaráætlun!!! Geri aðrir betur!

Nú er bæjarsjóðurinn tómur og ýmsar framkvæmdir liggja niðri, stór fyrirtæki með langa sögu, á borð við LoftOrku, eru farin á hausinn og útlitið er því miður svart fyrir þetta bæjarfélag.

Muddur, 1.11.2009 kl. 01:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband