Eru 5 ár ekki nógur tími til að þvæla málum eða fyrna sakir?
29.10.2009 | 12:57
Ég óttast að þessi rannsókn taki svo langan tíma að út úr henni komi aldrei neitt sem máli skiptir. Sennilega verða flestar sakir fyrndar þegar mál fara fyrir dómstóla. Allavega hafa menn nægan tíma til að finna leiðir til að þvæla málum svo að flestu verði vísað frá dómi án efnislegrar meðferðar. Þannig fór m.a. í Baugsmálunum svokölluðu, en á heimasíðu Hæstaréttar er auðvelt að skoða þróun þeirra mála fyrir dómstólum. Ég skora á menn að fara þangað inn og lesa sér til sjálfir svo menn átti sig á hvernig þetta gengur fyrir sig.
Það er sífellt hamrað á að menn séu saklausir þar til sekt er sönnuð í réttarríki eins og Íslandi. En staðreyndin er sú að margir eru líka jafn saklausir þó sekt sé sönnuð, því ef menn geta þvælt málunum nógu lengi með lagakrækjum og lögfræðingageri eru sakirnar fyrndar þegar loks tekst að sanna þær fyrir dómi eða ákærum er vísað frá þannig að þær fái aldrei efnislega meðferð. Við slíkar aðstæður eru engar refsingar dæmdar, hvorki sektir, upptaka illa fengins fjár, fangavist eða svo mikið sem smá blettur í sakavottorð.
Þar með verður nú þetta réttarríki að teljast ansi þunnt á köflum, þegar hægt er að komast hjá sakfellingum með útúrsnúningum, töfum og öðrum klækjum. Maður skyldi ætla að dómskerfið ætti frekar að dæma eftir efnislegum rökum en því hvernig menn geta þvælt málin og snúið út úr þeim.
Hinir ákærðu munu flestir skála að leikslokum við öldugjálfur á suðrænum ströndum en ekki éta súpu og brauð á Kvíabryggju spái ég. Það er frekar að það verði hinn frjálsi almenningur sem hefur ekki efni á meiru en súpu og brauði næstu áratugina.
![]() |
Rannsókn á bankahruni í 5 ár? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.