Við erum í svipaðri stöðu og Kína 1978.

Ég var að lesa stórmerkilega skýrslu sem heitir "Why is China growing so fast". Þessi skýrsla var gerð í tilefni af 15 ára afmæli Kínverska efnahagsundursins. Nú eru komin önnur 15 ár og Kínverska efnahagsundrið orðið 30 ára. Því er tilefni til að rifja þessa skýrslu hér upp og skoða hana í samhengi við stöðu Íslands í dag og þá staðreynd að þótt heimskreppan herji á Kína eins og Ísland er hagvöxtur þar samt ennþá á bilinu 8-9%!!

Í þessari skýrslu er kafað í þróun efnahagsmála í Kína til ársins 1994. En tímabilið 1978-1994 markar í þessari skýrslu fyrsta kaflann í þeirri stefnu stjórnvalda í Kína að gera landið öflugt í efnahagslegu tilliti. Þetta tókst stjórnvöldum með þeim árangri að hagvöxtur áranna 1978-1994 var að jafnaði um 9% á ári og eins og flestir vita hefur þessi mikli hagvöxtur verið viðvarandi síðan og heldur aukist ef eitthvað er.

Það sem stjórnvöld ákváðu að gera var skv. skýrslunni aðallega eftirfarandi:
Einkavæðing ríkisfyrirtækja. Um 90% fyrirtækja voru ríkisfyrirtæki 1978.
Að hvetja til einkareksturs.
Að opna landið fyrir erlendum fjárfestingum.
Að hvetja til alþjóðaviðskipta.
Að draga úr höftum og verðstýringu hins opinbera.
Að fjárfesta í iðnvæðingu og menntun.
Hagstæðara skattaumhverfi fyrirtækja.
Skv. skýrslunni heppnaðist þetta á flestum sviðum frábærlega.

En samt er þetta bara talið skýra um helming hins mikla hagvaxtar. Stærsta breytingin og sú sem skýrir hinn helming hagvaxtarins er framleiðniaukning, þ.e. meiri verðmæti eftir hvern starfsmann. Ég verð nú samt að segja fyrir mig að það virðist vera eðlilegt samhengi í því að það að fjárfest sé í menntun og tækivæðingu iðnaðarins skili aukinni framleiðni þannig að það er spurning hvort maður þarf ekki að lesa þess skýrslu með gagnrýnni hugsun í bakgrunni. En reyndar kemur fram síðar í skýrslunni að markaðsvæðing hagkerfisins og hagnaðarvon einstaklinganna er talin hafa leitt til þessarar miklu framleiðniaukningar.

Það vekur einnig mikla athygli mína við lestur þessarar skýrslu að það er hvergi talað um að vöxtur eða efling fjármálakerfis Kína sé ein af ástæðunum fyrir þessari velgengni. Því síður að minnst sé á erlendar lántökur. Og varðandi ýmsar hagstærðir og tölur kemur fram í skýrslunni að Kínverjar notuðu önnur viðmið en vesturlönd þannig að erfitt var að bera tölur saman nema með því að leiðrétta þær á ýmsan hátt fyrst.

Þá kemur fram í skýrslunni að 1978 störfuðu um 80% Kínverja við landbúnað. 1994 var hlutfallið um 50% og enn í dag starfar stór hluti þjóðarinnar við landbúnað. Að mínu mati er það augljóst að það hefur hjálpað Kínverjum í þeirra uppsveiflu að þeir kunnu greinilega bara alvöru vinnu og geta þess vegna enn unnið alvöru störf, en ekki bara pappírsvinnu eins og allt of algengt er í dag meðal vestrænna þjóða.

Skv. skýrslunni var eitt af því sem gerðist við þessar breytingar í Kína það að einkareksturinn aflaði mikils erlends gjaldeyris. Samt höfðu Kínverjar sinn eigin gjaldmiðil og hafa enn. Hann er alveg vita verðlaus og er það tæki sem hefur gert samkeppnisstöðu Kína svo góða að allar þeirra framleiðsluvörur seljast sem heitar lummur um allan heim. Og gjaldmiðillinn er svo verðlaus að Bandaríkjastjórn hefur margsinnis reynt að semja við Kínastjórn um að hún skrái gengi síns gjaldmiðils mun hærra en gert hefur verið til að koma í veg fyrir að iðnframleiðsla í USA leggist alveg af.

En aftur að skýrslunni. Skv. henni jókst útflutningur á iðnaðarvörum frá Kína um 19% árlega frá 1978-1994 og vitað er að enn er veruleg aukning á þessu sviði. Þetta er þegar dýpra er kafað kannski aðalhvatinn að framleiðniaukningunni. Á meðan svona vel selst er alltaf hægt að framleiða meira og gera betur, sérstaklega þegar það fer saman við að verksmiðjueigendur græða á því.

Í skýrslunni er líka fjallað um stjórnmálaástandið í Kína fyrir og eftir 1978 og nokkur fleiri atriði þessu öllu tengd sem tekur þó ekki að tala um hér nema ef vera skyldi að í Kína var búin að vera kommúnísk krónísk kreppa áratugum saman áður en þessar umbætur hófust 1978.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er m.a. sú að aðferð Kínverja til að ýta undir hagvöxt og umbreytingu landsins séu til fyrirmyndar, einstaklega vel heppnað kerfi sem sumir aðrir ættu að taka sér til fyrirmyndar að ýmsu eða öllu leyti.

Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi þess að nú eru Íslendingar í svipaðri stöðu og Kína 1978.
Hér er kommúnistastjórn við völd eins og var í Kína 1978.
Skollin á krónísk kreppa sem stjórnvöld ýta undir með öllum sínum ráðum og aðgerðum eins og var gert í Kína til 1978.
Fyrirtæki eru flest orðin í ríkiseigu eins og var í Kína 1978.
Búið að setja á gjaldeyrishöft eins og var í Kína til 1978.
Erlend fjárfesting nánast útilokuð eins og var í Kína til 1978.
Flest Íslendingar farnir að stunda landbúnað og tóvinnu í einhverjum mæli eins og var í Kína 1978.
Enginn getur lengur skilið hagstærðir á Íslandi, rétt eins og í Kína 1978.
Einkarekstur á Íslandi er óðum að hverfa, stefnir í að vera eins og í Kína 1978.

Þegar horft er á þessa stöðu sýnist mér að við ættum að taka Kína til fyrirmyndar og byggja hér upp að þeirra fyrirmynd.

Og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ætti að geta tekið undir þetta sjónarmið því þessi skýrsla sem ég er að vísa hér til er unnin af Zuliu Hu sem er með hagfræðigráðu frá Harward og Moshin S. Khan sem er menntaður í Columbia University í New York og London School of Economics.

Rúsínan í pylsuendanum er svo sú að þetta er skýrsla sem þessir menn gerðu fyrir International Monetry Fund sem er einmitt það apparat sem við köllum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Það er skrýtið að þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn er við völd á Íslandi þá skuli allt haft hér þveröfugt við það sem þeir sjálfir mæla einmitt með að ríki í okkar stöðu geri.

Hér er tenging á skýrsluna þar sem hún er á vef IMF fyrir þá sem vilja lesa hana í heild sinni.
http://www.imf.org/EXTERNAL/PUBS/FT/ISSUES8/INDEX.HTM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband