Það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina.

Eftirfarandi sem ég fann í gamalli lesbók Morgunblaðsins sýnir glögglega að það er erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina.  Samt má segja að stundum heppnist að spá ákveðinni þróun tiltekinna hluta í tiltekna átt, en ómögulegt að spá með verulegri nákvæmni langt fram í tímann.  Þá er greinilegt að mönnum hættir til að vera óhóflega bjartsýnir í spám þegar spáð er um framtíð þeirrar tækni og hluta sem þegar eru til og svo virðist mönnum alls ekki heppnast að spá neitt um það sem ekki er til þegar spáin er gerð.

Með þetta í huga þá spái ég því að Íslendingum takist aldrei að greiða þær skuldir sem ríkið er að hlaða á sig núna, hvort sem þær eru vegna Icesave eða einhvers annars skuldabréfs sem skrifað hefur verið undir.  Og ég spái því að það muni reynast betra að viðurkenna staðreyndir í þessum málum strax en að bíða með það fram að fyrstu afborgunum að viðurkenna að þetta gengur ekki upp.

 En hér á eftir er gamla bjartsýnisspáin.  Ég rauðletraði það sem ég tel að hafi ekki gengið eftir, grænletraði það sem virðist hafa gengið eftir og minnist ekkert á það sem ekki var spáð fyrir um eins og sjónvarp, internet, heimsstyrjaldir og hörmungar, kreppur og fjármál, ferðir út í geiminn misskiptingu o.s.frv. 

 

Tekið úr LESBÓK MORGUNBLAÐSINS í janúar 1943.Hvað 20. öldin átti að færa mannkyninuSpádómar um síðustu aldamót. Eitt af stórblöðum Ameríku spurði marga vísindamenn um síðustu aldamót (1900-1901) hverjar yrðu helstu breytingar á kjörum manna og daglegu lífi á 20. öldinni. Birti blaðið síðan yfirlit yfir spádóma þessa. Útdráttur úr þeim var svohljóðandi:Vísindamennirnir spáðu mörgum og miklum breytingum.

Árið 2000 á mannfjöldinn í Bandaríkjunum að vera orðinn 500 miljónir og af því heilsufræðinni og læknavísindunum hefir þá farið svo fram, verður meðal mannsaldurinn þá 50 ár, í stað þess sem nú er 35 ár, og meðalhæð karlmanns verður þá 1—2 þuml. meiri en nú. Meiri hluti mannkynsins mun þá tala ensku; næst verður þá rússneska. Þá munu reykháfar ekki verða á húsum, heldur munu öll hús hituð með miðstöðvarhitun. Ekki þarf annað en snúa krana, þá streymir hitinn inn. Heimilin fá tilbúinn matinn frá stórum matgerðarhúsum, eins ogmenn fá nú brauð frá baksturshúsum. — Þessi matreiðsluhús kaupa matvælin í stórkaupum, og tilbúningurinn verður svo ódýr, fyrir aðstoð rafmagns ogýmissa vjela, að maturinn verður þannig langtum ódýrari, en væri hann búinn til á heimilunum. Maturinn er sendur í loftreyrum (loftpípum) eða sjálfhreyfivögnum á heimilin, og borðbúnaðurinn er síðan sóttur og hreinsaður með vjelum. Það þykir ókleifur kostnaður, að hafa eldhús heima hjá sjer. Kol verða ekki höfð til suðu eða hitunar. Kolanámur verða nálega tæmdar, og það sem til verður af kolum verður afar dýrt. Rafkraftur, sem fenginn verður með vatnsafli, verður langtum ódýrari. Allar ár og lækir, sem hafa nægan halla, munu ganga í þjónustu mannanna. Með ströndum fram verða safnvjelar, sem safna flóðöldunum, og verða þær á þann hátt notaðar til að hreyfa hjól. Á járnbrautum má þá fara 200 kílómetra á klukkustundinni (yfir 26 mílur). Þá má fara á sólarhring þvert yfir Ameríku frá New York til San Francisco. Eimvagnarnir verða eins og tóbaksvindlar í laginu, til þess að loftið veiti þeim sem minsta mótstöðu. Hestar verða ekki hafðir til aksturs, en í stað þeirra koma sjálfhreyfivagnar. Á þeim verða bæði fluttir menn og vörur. —Jafnt plógurinn sem líkvagninn verður knúður með sjálfhreyflum. Úthafsskipin verða knúð áfram af rafskrúfum, sem vinna bæði í sjónum og loftinu. Skipinliggja á einskonar hreyfilegum hlunnum, eða meiðum, á sjónum, sem valda því, að núningsfyrirstaðan verður mjög lítil. Þá má fara milli Englands og Ameríku á tveimur dögum. Loftskipin verða þá algeng og verða þau mjög hættuleg, eftil ófriðar kemur landa í milli. Þau byrgja sig í reyk, ef þörf þykir, svo að þau verða ósýnileg og koma að öllum óvörum, og geta þá steypt stórhríð afsprengikúlum yfir heri og borgir. Telefónar og telegrafar verða um allan heim og þráðlausir. Þá getur sá sem staddur er á miðju Atlantshafinu talað við konu sína heima hjá sjer, hvar sem er í Evrópu eða Ameríku. Villidýr munu þá verða útdauð og ekki finnast annarsstaðar en í dýragörðum. Búfjenaður verður alinn á vísindalegan hátt og allur fjenaður verður þá kollóttur, því menn munu sjá svo um, að skepnurnar framleiði ekki neitt að óþörfu. Garðávextir verða ræktaðir með rafmagni og verða afar stórir. Menn hætta að „takainn" læknislyf á þann hátt, sem nú er gert. Menn eiga ekki að láta í magann annað en matinn,eða það sem eingöngu er til að styrkja magann. Ef önnur hininnri líffæri eru veik, verður lyfinu veitt gegnum skinnið og vöðvana með rafstraumum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband