Um gjaldeyrisforða - Bullið í Vilhjálmi Þorsteinssyni.

Vilhjálmur Þorsteinsson útskýrði ágætlega í bloggfærslu til hvers hér þarf að hafa gjaldeyrisforða og bað um hagfræðilegar skýringar á öðrum sjónarmiðum og bauð hálft í hvoru Nóbelsverðlaun fyrir þær.

Ég ætla nú að ræða þetta aðeins dýpra en hann Vilhjálmur gerði. Málið er það að þörfin á gjaldeyrisforða hangir bara saman við skuldsetningu. Í skuldlausu landi er engin þörf á gjaldeyrisforða því þar yrði gengisfelling krónunnar alltaf af hinu góða. En gengisfall eykur á skuldir, lækkar lánstraust og setur þá skuldugu í vanda því þeir eiga erfiðara en áður með að greiða skuldirnar.

Eins og ég sagði þá vex þörfin fyrir gjaldeyrisforða í samhengi við skuldir. Þegar skuldsetning íslenska fjármálakerfisins jókst gríðarlega eftir einkavæðingu bankanna margfaldaði Seðlabankinn gjaldeyrisforðann til að verja krónuna, alveg í samræmi við kenningu Vilhjálms. Við hrunið í fyrra var gjaldeyrisforðinn orðinn um 300 milljarðar minnir mig (hef ekki flett því upp), hafði nokkrum árum áður verið nokkrir tugir milljarða. Þessi aukning var einungis nauðsynleg vegna þess hvað skuldsetning jókst mikið, hún kom ekki til af neinu öðru.

Það er því algjört bull að gjaldeyrisforðinn þurfi að vera stór af því að gjaldmiðillinn er lítill. Gjaldeyrisforðinn þarf bara að vera stór hér af því að skuldir eru stórastar í heimi. Stórar skuldir þýða líka að skuldareigendur geta haft mikinn hag af að veðja á móti krónunni og því eykst pressan á gjaldmiðilinn við mikla skuldsetningu.

En bullið í Vilhjálmi er sem sagt það að hann áttar sig ekki á að það er skuldsetning en ekki gjaldmiðillinn sem er raunverulega verið að verja með gjaldeyrisvaraforða.

Í landi sem ekki er skuldsett virkar gengisfall gjaldmiðils einfaldlega þannig að það eykur útflutningstekjur og samkeppnishæfni á öllum sviðum og dregur úr innflutningi og hvetur til aukinnar framleiðslu innanlands á öllu því sem viðkomandi þjóð getur framleitt og þarf á að halda. Þetta skapar jákvæðan viðskiptajöfnuð og tryggir almenna velsæld í viðkomandi landi.

Þess vegna þarf hér að huga að aðalatriðinu sem er skuldsetning. Við eigum að einbeita okkur með öllum tiltækum ráðum að því að losna undan skuldum, ekki bæta á okkur skuldum. Það er eitt það mikilvægasta sem við getum gert af viti í okkar efnahagsmálum.

Og Vilhjálmur, ég býst nú við að þú komir þessum útskýringum mínum á framfæri við Nóbelsnefndina eins og þú ýjaðir að í þínu bloggi. Ég hlýt að fá einhver verðlaun frá þeim ef ég er virkilega fyrsti Íslendingurinn sem skilur þessa einföldu hluti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband