Höfum við efni á að tala íslensku?

Já, maður spyr sig þessarar spurningar þegar það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að á næstunni þarf að eyða 427 milljónum í þýðingar fyrir Össur Skarhéðinsson út af ESB. Það á víst að þýða um 50000 blaðsíður af texta. Sennilega reynir aldrei á að Össur eða nokkur annar maður lesi allar þessar síður en samt þarf víst að gera þetta og þær kosta sitt.

En þetta er ekki eini fórnarkostnaður okkar við að tala íslensku. Það að halda úti þessu tungumáli er eitt það dýrasta og erfiðasta sem þjóðin stendur í. Samt er þetta ekki mikið umtalað eða rætt, þetta er bara eins og hver annar fortíðardraugur sem fylgir okkur og enginn virðist vilja breyta þessu.

Þessu tungumáli fylgir endalaus kostnaður. Það er verið að íslenska hugbúnað fyrir síma og tölvur, sjónvarpsefni, kennslubækur, handbækur, aðrar bækur og þess háttar hluti með ærnum kostnaði.

Það er líka verið að eyða stórfé í tungumálakennslu í skólum svo við getum öll talað eitthvert mál sem umheimurinn skilur. Það er nefnilega þannig að það skilur ekki nokkur heilvita maður í heiminum utan Íslands, íslensku, nema hann sé brottfluttur Íslendingur. Að þessu leyti höfum við talsverða sérstöðu. Flestir deila móðurmáli sínu með milljónum annarra einstaklinga og oft með fleiri en einni þjóð. Þannig að víða um heim geta menn verið eins og á heimavelli hvað tungumálaskilning og almenn samskipti varðar.

Í viðskiptum við önnur lönd fylgir mikill kostnaður því að það skilur okkur enginn, allt þarf að túlka og þýða og menn fá á sig stimpilinn "skrýtin þjóð" fyrir að halda áfram að tala þetta mál sem enginn skilur.

Í pólitíkinni er þó kannski mest áberandi hvað þetta tungumál okkar er mikil fötlun. Sumir stjórnmálamenn okkar geta ekkert tjáð sig þar sem það skiptir mestu máli því þeir tala bara íslenskuna sem enginn skilur. Okkur tekst illa að halda fram okkar sjónarmiðum á erlendum vettvangi því það er vandfundið hér fólk sem getur tjáð sig vel á erlenda tungu og nennir að standa í þessu.

Á Íslandi er ekki bara misskipting eftir efnhag, það er ekki bara annars vegar efnað fólk hér og hins vegar fátækt fólk. Það er líka fólk hér sem er bundið í fjötra tungumálsins annars vegar og svo hinir sem eiga auðvelt með að læra önnur tungumál. Þeir eru frjálsir menn, því þeir geta átt samskipti út fyrir landsteinana. Þeir þurfa ekki að hanga aftan í fararstjóra þegar þeir koma út úr flugvél á erlendum flugvelli. Þeir geta flutt úr landi og sótt vinnu í öðrum löndum þegar aðstæður heima fyrir krefjast þess. Þeir hafa miklu fleiri tækifæri á öllum sviðum en hinir sem eru bundnir í fjötra tungumálsins. En þessa fjötra er erfitt að slíta, fólki reynist mislétt að læra tungumál.

Við þurfum að taka upp nýtt móðurmál. Það er hægt að þýða menningararfinn yfir á nýtt móðurmál svo menn geti viðhaldið honum. Það er engin ástæða til að 300 þús manna þjóð haldi út sérstöku tungumáli til þess. Við þurfum að taka upp eitthvert mál sem nýtist okkur vel, t.d. ensku, spænsku, rússnesku eða mandarín svo nokkur álitleg tungumál séu nefnd.

Með þessu má spara ómældar fjárhæðir í allskyns útgjöldum, auka samkeppnishæfni landsins, fjölga tækifærum fyrir íbúana, gera Ísland alþjóðlegra. Í þessu felast miklu meiri möguleikar en nokkru sinni í ESB aðild, að ekki sé nú talað um ef við förum þangað inn hálf málllaus eins og við í raun erum á þeim vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband