Hvernig má ljúka heimskreppunni og íslensku kreppunni?
3.10.2009 | 20:18
Það er mjög auðvelt að svara þessari spurningu og það eru allavega tvö svör í boði en fyrst koma hér nokkrar sögulegar staðreyndir til útskýringar á þessu.
Í heimskreppunni miklu sem hófst 1929 gekk hvorki né rak að koma hlutunum aftur í gang af alvöru fyrr en Adolf Hitler fór í stríð 1939. Og í Bandaríkjunum var það ekki fyrr en 5 mánuðum eftir árás Japana á Pearl Harbour í desember 1941 sem kreppunni lauk þar í landi. Enda héldu Bandaríkjamenn sér utan við styrjöldina þangað til eftir árásina á Pearl Harbour. Í lok apríl 1942 var Dow Jones vísitalan ennþá ekki nema um 96 stig, hafði fyrir kreppu farið hæst í rúm 380 stig um mitt ár 1929. En frá lokum apríl 1942, 5 mánuðum eftir að Bandaríkjamenn hófu þáttöku í heimsstyrjöldinni hækkaði vísitalan nánast viðstöðulaust í rúm 20 ár fram til 1965 og má því með sanni segja að í apríl 1942 hafi kreppunni lokið í Bandaríkjunum.
Það er mjög einfalt að útskýra hvernig heimsstyrjöld Hitlers kom þjóðum heims út úr kreppunni miklu. Skýringin er sú að skyndilega fengu allir vinnu. Ekki var öll vinnan mjög áhugaverð, síður en svo, að senda karlana út um allar jarðir til að skjóta óvinina eða að senda konurnar í verksmiðjur að búa til sprengur og stríðstól er ekki áhugaverð vinna. En það var borgað fyrir þetta og það kom hagkerfunum í gang. Þó fjármálakerfið hefði hrunið og efnahagslífið allt farið til fjandans, rétt eins og núna, þá var enginn vandi að búa til peninga í stríðsrekstur og þegar allir voru skyndilega komnir í vinnu og með peninga milli handanna og farnir að eyða peningum þá blómstraði efnahagslífið og hagkerfi heimsins. Og það fylgdi svo í kaupbæti að styrjöldin var á heimsvísu og langdregin þannig að eyðileggingin var mikil og eftir stríð tók við margra ára efnahagsbati sem að mestu leyti byggðist á að það voru prentaðir peningar til að endurbyggja þau lönd sem tóku þátt í stríðinu og voru meira og minna í rúst eftir stríð.
Í þessu öllu saman skiptu bankar í sjálfu sér engu máli, efnhagslífið komst ekki í lag vegna þess að peningum væri dælt endalaust í að endurreisa þá. Þeir hins vegar nutu góðs af stríðinu eins og aðrir þegar þeir peningar sem voru settir í umferð vegna stríðsins fóru að safnast inn í bankana aftur og fjármálafyrirtækin fóru þá að styrkjast á ný.
Þetta sögulega yfirlit segir okkur það að það eru tvær leiðir út úr kreppu.
Annars vegar að fara í stríð til að búa til störf, hins vegar að búa til störf með öðrum hætti en stríðsrekstri.
Það er ekki leið út úr kreppu að hækka skatta og spara allt sem hugsast getur, það eykur bara á kreppu. Það er heldur ekki leið út úr kreppu að sólunda peningum í að endurreisa fjármálafyrirtæki.
Besta leiðin út úr kreppu er að tryggja öllum næga peninga með því að þeir hafi vinnu og það miklar tekjur að þeir séu aflögufærir til að bruðla í óþarfa auk þeirra lífsnauðsynja sem þarf til að þrauka áfram. Og nú er bara spurningin hvort þjóðarleiðtogar átta sig á þessu og leysa kreppuna á skynsamlegan hátt eða hvort þetta leysist aftur með styrjöld eða hvort menn eiga eftir að dýpka kreppuna með vitlausum (röngum) aðgerðum eins og að dæla peningum í óendanlegt svarthol fjármálakerfisins eins og mér sýnist að okkar íslensku stjórnmálamenn vilji gera.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.