Fyrirgefning Álfheiðar.
2.10.2009 | 18:01
Nú hafa baráttuglaðir mótmælendur eignast ráðherra úr sínum röðum. Álfheiður ráðherra var í miklum ham í vetur áður en hún varð ráðherra og þegar hún fylkti liði með mótmælendum og heimtaði að útrásarvíkingar færu í steininn og eignir þeirra yrðu frystar og að þeir skiluðu illa fengnu fé til bankanna aftur. En nú hefur Álfheiður fengið sinn ráðherrastól og getur gleymt þessu og fyrirgefið þeim allt það sem hún barðist fyrir í fyrravetur. Nú vill hún bara fá vinnufrið fyrir mótmælendum svo hún geti skorið helbrigðiskerfið niður hægri vinstri, eins og sagt er. Hún segist treysta sér vel í það verk og þannig ætlar hún að láta sjúklinga og starfsfólk helbrigðiskerfisins borga vel inn á þessa fyrirgefningu sína. Þeim má blæða hratt út sem í það kerfi leita ef það er það sem þarf peninganna vegna.
Álfheiður er að fara að endurhanna helbrigðiskerfið í anda hinna norrænu velferðarkerfanna, ef marka má stefnu ríkisstjórnarinnar eins og forystumenn hennar hafa marglýst henni. Í þessu endurhannaða íslenska heilbrigðiskerfi að norræni fyrirmynd hefur Álfheiður ekki efni á að fyrirgefa fólki þó það verði veikt, eða þó að þeir sem eiga að lækna það þurfi laun, hún hefur ákveðið að fyrirgefa útrásarvíkingum svo rausnarlega að hún hefur ekki efni á meiri fyrirgefningu. Hún ætlar bara að standa sig í að skera allt svo hressilega niður að hún hafi efni á að fyrirgefa útrásarvíkingum þeirra flopp.
Fyrirgefðu Álfheiður, en ég get ekki fyrirgefið þér þessa fyrirgefningu þína gagnvart útrásarvíkingunum svokölluðu. Og fyrirgefðu Álfheiður en ég get ekki fyrirgefið þér viðsnúninginn frá því í vetur og hvernig þú hefur koðnað niður fyrir algjöra meðalmennsku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.