Spáir Íslandsbanki hraðri styrkingu krónunnar?
30.9.2009 | 08:04
Umræðan um að Íslandsbanki ætli að bjóða skuldurum að breyta lánum í óverðtryggð lán með 7,5% óverðtryggðum vöxtum er áhugaverð. Ástæðan fyrir þessu kjaraboði er skemmtileg, þeir segja að þetta þjóni hagsmunum bankans.
Og þá hugsar maður eins og allir hinir tala, "já, þeir eru búnir að skilja að eins og ástandið er í landinu þá geta menn bara ekki borgað meira en þetta og ætla bara að vera svona sanngjarnir, húrra fyrir Íslandsbanka."
En kannski er önnur ástæða fyrir þessu kjaraboði, kannski er bara verið að spá verðhjöðnun og styrkingu krónunnar í Íslandsbanka. Út frá svoleiðis spá væri hagstætt fyrir bankann að taka verðtryggingu af lánunum áður en verðlag fer að hjaðna og koma þeim á fasta vexti og breyta erlendum lánum í íslenskar krónur áður en gengið fer að styrkjast aftur.
Ég hef ekki meira traust á bönkunum en svo að ég freistast til að velta því fyrir mér hvað býr að baki, það væri alveg nýtt ef verið er að bjóða upp á breytingar á lánum að fyrra bragði af eintómri góðsemi við viðskiptavinina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.