Um gengi gjaldmiðla.
29.9.2009 | 18:54
Það er nú fróðlegt að velta fyrir sér gengi gjaldmiðla.
Um þessar mundir er Bandaríkjadalur svo veikur gagnvart Evru að bandarísk fyrirtæki hafa varla efni á að kaupa tæki og tól frá Evrópu, jafnvel þó þá bæði vanti tækin og dauðlangi í þau. Hins vegar er hægt að gera ódýr viðskipti í hina áttina, þ.e. flytja út frá Bandaríkjunum til Evrópu, eða ferðast ódýrt um Bandaríkin ef þú býrð á Evrusvæðinu.
Íslenska krónan er svo veik gagnvart flestum gjaldmiðlum að það er aftur hægt eftir margra ára hlé að flytja út frá Íslandi eitthvað fleira en fisk. Um leið er krónan svo veik að Íslendingar á ferðalögum erlendis eru aðeins byrjaðir að spá í hvað þeir eru að fá fyrir gjaldeyrinn sem þeir spreða á báðar hendur. Sumir eru jafnvel farnir að versla aðeins minna af óþarfa en áður. Útlendingar sem hingað koma gera hins vegar kjarakaup í öllu sem þeir gera, liggur við að þeir fari með meira peninga úr landi í ferðalok en þegar þeir koma.
Og gengi Evru gagnvart Sterlingspundi er svo breytilegt í London að á einum og sama degi í þessari borg hleypur það frá því að vera 1 evra á móti 1 pundi og yfir í 2 evrur fyrir pundið.
Þrátt fyrir þennan mikla mun á gengi punds gagnvart evru hefur gengi pundsins lækkað svo mikið gagnvart evrunni að það þykir mörgum á evrusvæðinu orðið ódýrt að ferðast til Englands og gera það sem aldrei fyrr þó maturinn sé enn jafn óætur þar og áður. Matargæðin haldast alveg stöðug í Englandi óháð óstöðugleika gjaldmiðla.
Hver er svo niðurstaðan af þessu. Hún er einföld, evran er nú svo sterk að það er framundan aukið atvinnuleysi á evrusvæðinu en atvinnulíf landanna utan evrusvæðisins mun á sama tíma styrkjast eitthvað. Og þau lönd sem enn hafa sjálfstæðan gjaldmiðil hafa auðvitað meira svigrúm til að stjórna sinni efnahagsþróun en hin löndin sem eru bundin í myntbandalagi.
Og svo sýnir þetta ágætlega að það eru ekki til neinir stöðugir gjaldmiðlar. Að halda því fram að það sé til "stöðugur" gjaldmiðill er bara aulaleg lygi. Gengi allra gjaldmiðla sveiflast eins og flagg í vindi gagnvart öðrum gjaldmiðlum. En við gætum auðvitað kastað okkar gjaldmiðli og tekið upp annan ef við viljum frekar sveifla genginu einhvern veginn öðruvísi en það gerir í dag. En gengi okkar gjaldmiðils hættir ekkert að sveiflast samt sem áður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.