60 verkefnalausir togarar tilbúnir til Íslandsveiða ESB frá Vigo á Spáni.

Ég er núna staddur í Vigo á Spáni sem er stærsta verstöð þess lands. Í dag labbaði ég niður á höfn til að skoða hvernig Spánverjar eru útbúnir til fiskveiða. Hafnarsvæðið er að stórum hluta nýlega upp byggt, búið að gera mikla umferðargötu fyrir framan gömlu fiskvinnsluhúsin og byggja upp mikla fiskihöfn á fyllingum fyrir neðan gamla hafnarsvæðið. Þarna eru frystihús og fiskvinnsluhús í tugatali á hafnarsvæðinu og á þeim hluta þess sem ég fór um voru a.m.k. 58 skuttogarar sem lágu bundir við bryggju á þessum góðviðrisdegi auk fjölda smærri skipa og báta. Það var samt heilmikið líf við höfnina. Smærri bátar á leið út og að koma inn með afla. Einnig var eitthvað smáhveli í höfninni að elta makríl sem synti þar um í litlum torfum.

Í beinu framhaldi af fiskihöfninni er langt svæði þéttskipað skipasmíðastöðvum. Það er víst heilmikil stálframleiðsla á Spáni og þeir hafa vit á að smíða eitthvað úr því sjálfir eins og t.d. skip. Annað en við Íslendingar sem græðum alveg nóg á að flytja álið út óunnið. Það er takmarkaður aðgangur um skipasmíðasvæðið í öryggisskyni þannig að ég fór ekki þangað inn en það var allavega verið að smíða stór skip í tugatali þarna.

Það er strax ljóst af þessari stuttu heimsókn á höfnina í Vigo að það er mikill hagur af því fyrir Spán að Ísland gangi í ESB svo Spánverjar geti nýtt ónotaðan skipaflota sinn betur. Þeir hafa greinilega afkastagetu á við allan íslenska togaraflotann í ónotuðum skipum sem bíða aðgangs að nýjum fiskimiðum. Og miðað við atvinnuleysið hér á Spáni sem er víst það mesta í Evrópu, ætti ekki að verða erfitt að fá menn í áhafnir á þessa togara.
Svo er allt til alls hér á hafnarsvæðinu til að smíða ný skip og laga gömul ef þarf, enda hagsýni að nýta heimafengið stálið í skipsskrokka þegar færi gefst á því.

Maður hefur oft heyrt ýmsar tröllasögur um togaraflota Spánverja sem geti ryksugað upp allan fisk af Íslandsmiðum fái þeir aðgang að fiskimiðum okkar. Nú þarf ég ekki lengur að hlusta á þetta sem tröllasögur, búinn að fara niður á höfn og telja sjálfur og taka myndir af öllu saman. Og allur þessi floti bara í fyrstu höfn sem ég skoða hér. Það eru nokkrar hafnir í viðbót hér í Galiciu og örugglega fleiri togarar þar.

Nú þarf fólk á Íslandi bara að styðja sína ríkisstjórn í að koma okkur í ESB, svo við þurfum ekki sjálf að senda menn á sjó í framtíðinni og standa í slori og slabbi við að verka fisk. Látum Spánverja um þetta, þeir geta það alveg.
Við getum örugglega fengið endalaus lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til að lifa af í skiptum fyrir ESB aðild. Þessi lán ættu allavega að duga okkur eitthvað fram yfir inngöngu. Með því að samþykkja ESB aðild getum við alveg losnað við slor og ýldulykt í framtíðinni og endurreist góðæri í nokkur ár í viðbót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður, fræðandi og skemmtilega háðskur pistill, Jón Pétur!

Jón Valur Jensson, 14.9.2009 kl. 21:02

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Maður hefur oft heyrt ýmsar tröllasögur um togaraflota Spánverja sem geti ryksugað upp allan fisk af Íslandsmiðum fái þeir aðgang að fiskimiðum okkar

Já eru þetta ekki bara tröllasögur. Jón mvinur min Tröll segir það.

Gísli Ingvarsson, 18.9.2009 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband