Dómur fallinn, há sektargreiðsla.
28.8.2009 | 12:17
Jæja, þá er dómur fallinn í Icesave málinu. Þjóðin dæmd til að borga 750 milljarða, eða tvær og hálfa milljón á hvern landsmann. Kannski fæst einhver afsláttur af sektinni ef eitthvað fæst upp í tjónið frá tjónvaldi.
Það er ljós punktur í þessu að dómurinn felur í sér að það er hægt að pakka saman dómskerfinu í landinu og spara þar eitthvað upp í þetta. Þessi stóra sekt var allavega dæmd á þjóðina án þess að nokkuð væri farið með málið fyrir dómstólana. Það var bara dómstóll alþingis sem dæmdi. Þetta er flott réttarkerfi, sami aðilinn sem setur reglurnar, ákveður hverjir eru glæpamennirnir og hver glæpurinn er og fellir svo dóm án þess að nokkur hinna dæmdu sé leiddur fyrir dóminn til að verja sig.
Og svo skilst manni að það geti enginn áfrýjað nema sá sem felldi dóminn.
Mikið vildi ég óska að við hefðum jafn gott stjórnarfar og t.d. Nígería. Ég held við ættum að leita okkur ráðgjafar þar ef okkur langar að taka á þessum málum af einhverju viti.
Með þessum dómi eru heildarsektargreiðslur dæmdar á þjóðina af alþingi orðnar um 2.350 milljarðar eða yfir 7,5 milljónir á hvern landsmann.
Er nú ekki kominn tími til að viðurkenna að það hafi verið framdir einhverjir glæpir í þessu bulli öllu saman?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.