Project Ice rice group.
27.8.2009 | 21:28
Nú þegar loksins er að ljúka öllu bullinu um Ice save samninginn með þeirri vitlausu ákvörðun að skrifa undir hann þá veltir maður fyrir sér hvað sé næsta skref í framtíð þjóðarinnar þegar búið er að ráðstafa öllum framtíðarpeningum í þennan samning.
Mér dettur í hug áætlun sem við getum kallað Ice rice group.
Ice stendur auðvitað fyrir Ísland, rice getur staðið fyrir hrísgrjón, eða ris eða ræsi og jafnvel fleiri orð eða hugtök. Og þá stendur group auðvitað fyrir það hvað hægt er að túlka rice á marga vegu í þessu prógrammi.
Ice rice group projectið er sem sagt hugmynd um að hefja stórfellda hrísgrjónarækt á Íslandi. Hrísgrjón eru hollur og góður og vinsæll matur sem er á borðum í flestum löndum heims. Þess vegna er líka enginn vandi að markaðssetja þessa vöru hvar sem er í heiminum ef vel tekst með ræktun. Við höfum nóg vatn og jarðveg og jarðhita til að ylja hrísgrjónaplöntunum ef við viljum prófa þetta.
Ice ris group projectið er líka ákv. hugmyndafræði um að efla gamlar atvinnugreinar og finna nýjar sem geta búið til gjaldeyri eða sparað gjaldeyri. T.d. Íslensk einokun í stað Danskrar einokunnar eins og Jón Bjarnason vill. Það mætti sem sagt hugleiða framtíð sementsframleiðslu á Íslandi. Líka mætti aftur skoða áburðarframleiðslu á Íslandi. Þegar áburðarverksmiðjan var einkavædd var hún einfaldlega lögð niður þegar búið var að selja lagerinn sem fylgdi með í einkavæðingunni. Svo eru það skipasmíðar, þær eru kannski orðnar hagstæðar sem heimaframleiðsla núna og svona má eflaust lengi telja. Svo er auðvitað fullt af fólki og félögum með hugmyndir sem eflaust má gera margt gott úr og þarf að virkja núna þegar nóg er af fólki til nýrra starfa.
Ice rising group projectið er líka í anda þjóðfrelsisbaráttunnar og myndbands Kaupþings sem hvort tveggja blæs fólki byr í seglin, bjartsýni og baráttuhug, vonandi undir forystu framsýnna manna sem hugsa um hvað þeir geta gert fyrir þá sem kusu þá til valda í stað þess að hugsa bara um hvað þeir geta grætt á að fíflin sem búa hér skuli enn einu sinni hafa kosið þá.
Ice ræs group projectið er svo að lokum líka yfirlýsing um það að ef við ekki finnum leiðir til að bjarga okkur sjálf þá fer þjóðin öll að lokum í ræsið, í þeim skilningi allavega að hér endar þá allt í nútíma þrælahaldi erlendra stórfyrirtækja og snekkjueigenda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.