Andfélagslegur félagsmálaráðherra.
27.8.2009 | 20:46
Blessaður maðurinn hann Árni Páll skilur greinilega ekkert í því sem er á seiði hjá skuldurum þessa lands. Hann hefur greinilega kynnt sér hvað allskonar dópsalar og undirheimamenn eiga sameiginlegt með íslensku bönkunum. En það er einmitt að þegar þú borgar þessum aðilum af skuldum eða inn á þær, þá hækka þær, en lækka ekki og að þessir aðilar allir reyna að plokka sína kúnna endalaust. Og honum virðist líka þetta kerfi vel, því hann vill láta fólk borga eins og það getur. Hann er til í að fella niður skuldir ef þær eru alveg örugglega tapaðar hvort sem er, en annars skipta upphaflegar áætlanir og greiðsluáætlanir og greiðslugeta engu, bara að fólk sé látið borga það sem það getur. Málið er sem sagt að plokka af fólki allt sem hægt er, ég býst við að svo sé meiningin að hækka skatta líka þannig að auðvitað skiptir engu hvort greiðslubyrði lækkar eða ekki, það verða búnar til leiðir til að hirða hverja einustu krónu.
Hann fattar ekki, annaðhvort vegna heimsku eða þvermóðsku, að það sem fólk vill og á skilið er að viðskipti með peninga lúti sanngjörnum reglum og skilmálum eins og önnur viðskipti. Til þess þarf t.d. að lækka vexti þangað til þeir eru sanngjarnir. Ég held að það sé nú ekki ósanngjarnt að þeir sem fengu 1600 milljarða gefins með neyðarlögum s.l. vetur opni aðeins augun fyrir því að fleiri kunni að vera í þörf fyrir gjafir. Ég er nú samt ekki að fara fram á annað en að skuldurum verði gefnir sanngjarnir lánasamningar og að ráðherrum verði gefnar sanngjarnar gáfur til að sjá sanngjarnar lausnir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.