Nýtt Íslandsmet - verslum í Bónus - setjum heimsmet.
25.8.2009 | 00:45
Það voru 20 ár í vor síðan Jón Ásgeir byrjaði viðskiptaferil sinn þegar fyrsta Bónusbúðin var opnuð. Síðan hefur viðskiptablokk hans blásið út eins og blaðra í bókstaflegri merkingu. Viðskiptaveldið er bara loft eða í mesta lagi froða. Lýstar kröfur í þrotabú Baugs eru 316,6 milljarðar. Eignir eru kannski einhverjar, varla þó miklar. Það jafngildir því að uppsafnað tap frá fyrsta degi hafi að jafnaði verið rúmar 40 milljónir á dag, alla daga allra 20 áranna.
Samt bara á þessari viðskiptablokk sem er kölluð Baugur. Maðurinn er svo snjall að það eru fleiri viðskiptablokkir í gangi á hans snærum. Þessi upphæð er svona eins og á þessum hluta af hans bisniess hafi tekist að tapa eða ná af einhverjum verðmætum sem svarar einu litlu einbýlishúsi á dag í 20 ár eða um 7.300 einbýlishúsum alls. Það voru 4-5 náungar settir í varðhald nýlega fyrir að svíkja út úr Íbúðalánasjóði 40 milljónir vegna tveggja íbúða með svipuðum hætti. En sá sem er búinn að krækja í 7.300 einbýlishús og lætur nú aðra borga fyrir er enn að en fær kannski ókeypis málningu á eitt húsanna í "bónus" fyrir snilldina.
En ég vil vera sanngjarn og jákvæður eins og hægt er. Þetta er ekki alslæmt. Með þessu gjaldþroti stefnir í nýtt glæsilegt Íslandsmet í tapi fyrirtækja utan fjármálageirans, en þar var Jón Ásgeir í sveit Íslands í glæsilegu heimsmeti íslensku bankahrunssveitarinnar. Með þessu nýja Íslandsmeti ætti Jón Ásgeir aftur að verða einn dáðasti sonur þjóðarinnar, búinn að setja bæði Íslandsmet og heimsmet á heimsmeistaramótinu í tapi og hengja á sig margar medalíur fyrir viðskiptamálefni sín á leið sinni að þessum einstæða árangri. Undanfarið hefur mörgum íþróttaáhugamönnum þótt mikið koma til heimsmeta Usain Bolts í 100 og 200 metra spretthlaupum. En það er ljóst að Bolt getur ekki hlaupið mikið hraðar en hann er búinn að gera. Ég hef hins vegar fulla trú á að okkar maður, Jón Ásgeir, geti bætt sín met verulega ef við styðjum hann áfram eins og hingað til.
Ég vil því hvetja almenning til að versla sem aldrei fyrr í Bónus til að afla okkar manni fjár til að fara af stað með nýtt viðskiptaplan sem gæti leitt til enn stærra tapmets en þegar er orðið. Stefnum á heimsmet í einstaklingstapi. Látum ekki kreppuna stoppa okkur, verum ekki nísk í Bónus, styðjum okkar mann til að hann nái sem lengst á sínum einstæða ferli.
Ég vil líka hvetja ríkisstjórnina og bankastjórnir og sveitarstjórnir og orkustjórnir til að styðja okkar mann. Seljum honum fyrirtæki og auðlindir fyrir lítið á góðum kjörum og styðjum hann til dáða. Gleymum því þó hann hafi einhvern tíma troðið einhverjum um tær. Allir afreksmenn þurfa á stuðningi að halda. Samfylkingin hefur um árabil sýnt Jóni Ásgeiri stuðning í verki og hefur mína þökk fyrir en nú þarf meira til. Gerum betur.
Við gerum okkar, gerum okkar, gerum okkar besta
og aðeins betur ef það er það sem þarf.
Þessi söngur hefur aldrei átt betur við en núna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.