Skrítin þessi blogg um Icesave og skarpskyggni þjóðarinnar almennt.
22.8.2009 | 10:57
Ég er að furða mig á hvað fólk endist til að blogga um Icesave og koma með tillögur og ábendingar og áhyggjur og ótta um að ekki sé hægt að borga þetta eða það sé verið að semja vitlaust, menntamenn í námi erlendis komi ekki aftur heim, fagmenntað fólk muni flýja land, skuldugt fólk muni flýja land, fólk sem kann tungumál muni flýja land og hér muni bráðum enginn lengur búa nema gamalmenni og aumingjar og þeir sem naga nú beinin af einkavæðingunni, lífeyrissjóðunum, heimilunum og hinu opinbera.
Auðvitað er þetta það sem gerist, sama hvað við bloggum og sama hvort við eigum yfirleitt að borga þetta eða ekki.
Það hefur enn ekkert breyst frá því einkavæðingin hófst með kvótakerfinu og húsbréfakerfi Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem tvennt var gert, helsta auðlind þjóðarinnar var einkavædd og stefnan mörkuð um allsherjar einkagræðgisvæðingu og gefið æfingaleyfi á allsherjarbrask og gervigróða. Um svipað leyti stóð þáverandi félagsmálaráðherra sem er núverandi forsætisráðherra fyrir því að færa örlög húsnæðseigenda á fáar hendur þegar hún kom á húsnæðislánakerfi þar sem bankarnir fengu sjálfdæmi um að klípa af fasteignalánum það sem þá langaði til að hirða á hverjum tíma. Síðan hafa þeir alltaf staðið með pálmann í höndunum, þökk sé frumkvæði og eftirfylgni Jóhönnu. Afföll, breytilegir vextir, dráttarvextir, vaxtavextir, okurvextir, gengismunur, gengistrygging, verðbætur, þóknanir, gjöld, kúlulán, verðtrygging, verðbólguforsendur, bónusgreiðslur, gullmatur, markaðsmisnotkun, skuldatryggingarálag, vitlaus efnahagsstjórn og upplogin óraunhæf áætlanagerð hafa síðan verið daglegt brauð sem nú hefur endanlega sogað þjóðina inn í bankasvartholið, rétt eins og stóllinn sem sogaðist að segulómtækinu í gær og situr þar nú kolfastur.
Enn hefur ekkert breyst því þjóðin vill engu breyta. Sama Jóhanna og ýtti þessu úr vör á sínum tíma ásamt fleirum er nú forsætisráðherra.
Og rétt eins og með stólinn og segulómtækið í gær, þar sem slökkva þarf á tækinu til að losa stólinn, þarf að slökkva á þessari óstjórn hér sem þjóðin kýs alltaf yfir sig möglunarlaust, þó uppskriftin sé stundum hrærð í örlítið breytilegum hlutföllum. Öðruvísi er ekki möguleiki að laga eitt né neitt.
Það er tilgangslaust að kjósa alltaf sama liðið og sama kerfið með sömu óráðsgjafana og sömu vinina og sömu sponsorana og sama forsetann og sama liðið aftur í Seðlabankann og ráða sömu spekingana og lögræðingana og hagræðingana og víxla bara stólum í öllu saman. Þetta er ennþá sami grauturinn sem við erum að éta.
Þó að gamla einkavæðingin sé hrunin og allt draslið fallið á ríkið aftur er enn verið að einkavæða. Nú er það orkugeirinn, blákalt og án þess nokkur kunni að skammast sín, enda virðist þetta ætla að renna nokkuð létt í gegn.
Ef þetta gengur fyrir sig eins og það sem á undan er gengið ættu menn að sitja sveittir við að semja um tjónið af þessu um svipað leyti og byrjað verður að feisa það að ekki verður til fyrir fyrstu afborgun af Icesave.
Þó að fjármálakerfið sé hrunið vilja ráðamenn halda verðbólgunni. Hún er keyrð upp núna með skattahækkunum og vaxtahækkunum og öðrum tiltækum aðgerðum.
Fyrir hrun var talað um að mikið erlent fjármagn í umferð, stundum kallað þensla, héldi verðbólgunni uppi. Núna er sagt að það þurfi að taka gríðarstór erlend lán á okurvöxtum til að að ná verðbólgunni niður. Þetta er mjög trúverðugt ekki satt. Í flestum löndum hins vestræna heims eru stýrivextir á bilinu 0-2% því hærri vextir munu annars dýpka kreppuna í þeim löndum, hér gildir aldeilis annað. Hagræðingarnir hér segja að stýrivextir verði að vera 10 sinnum hærri, annars verði kreppan hér miklu verri.
Ég legg til að Íslendingar hætti að haga sér eins og geitungar, að flögra alltaf í kring um sömu drottingarnar. Geitungabú eru leiðindaplága sem við virðumst hafa gert að okkar fyrirmynd í þjónkun okkar við nokkur fyrirtæki, flokka og persónur. Við flögrum í kring um þetta lið eins og geitungar helga líf sitt drottningunni og búinu. Það er ekki furða þó ekkert breytist til batnaðar.
Ef einhvern langar raunverulega til að breyta einhverju er smá möguleiki að gera það í kosningum. En til þess þarf fólk þá líklega að vera miklu meira kvalið og barið og verr hlunnfarið svo það vakni almennilega og skoði möguleikana til að kjósa eitthvað annað en sama liðið og hefur logið að þjóðinni öldum saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.