Notum kínversku aðferðina á þetta.
30.8.2011 | 00:20
Það er gaman að Kínverji skuli hafa svo mikinn áhuga á óbyggðum Íslands að hann vilji kaupa 300 ferkílómetra af þeim fyrir heilan milljarð. Mér finnst reyndar milljarður ekki mikið fyrir allt þetta land. Hann er nú að kaupa það með húð og hári og þó milljarður sé mikið fyrir land norður í landi þá þætti það ekki mikið fyrir nokkrar byggingarlóðir á höfuðborgarsvæðinu. Samt eru engar náttúruauðlindir á höfuðborgarsvæðinu sem réttlæta hátt verð, þær eru hins vegar í óbyggðunum fyrir norðan.
En hvað um það, verð á landi er afstætt, sumum finnst þetta hátt verð þó mér þyki það ekki. Jón Ásgeir setti fræga IKEA innréttingu í íbúð í gömlu húsi í New York sem hann keypti fyrir miklu hærra verð en allt þetta land fæst fyrir. Björgólfur Thor á einkaþotu sem hann notar lítið og kostar meira en allt þetta land. Í þessum samanburði er hægt að verðleggja allt Ísland á sem svarar nokkrar þotur og íbúðir fyrir þessa kalla sem hafa á örfáum árum mergsogið Ísland svo að það er nú álíka burðugt og Steve Jobs á myndum sem birst hafa af honum á netinu undanfarið.
Ég ætlaði nú ekki að velta mér upp úr þessu öllu enn og aftur. Þegar ég fór að skrifa þetta hafði mér dottið í hug að athuga hvað land í óbyggðum Kína kostar, rétt að gamni mínu til að bera það saman við verð á íslenskum óbyggðum. Ég verð nú að viðurkenna að ég skildi ekki þennan áhuga Kínverjans á að kaupa þessar óbyggðir, jafnvel þó þar séu náttúruauðlindir sem geta gefið þetta verð margfalt til baka þegar réttir menn eiga í hlut.
Þegar ég fór að skoða málið kom þetta auðvitað fljótt í ljós. Land í Kína er einfaldlega ekki til sölu. Ríkið og bændur sem nýta land eiga landið og það má ekki selja það öðrum. Sá möguleiki er bara ekki í boði. Svona samninga eins og Huang Nubo er að gera á Íslandi er einfaldlega ekki hægt að gera í Kína. Þar geta menn keypt byggingar og alls konar mannvirki á misjöfnu markaðsverði eins og gengur, en land er einfaldlega ekki selt þar. Það tilheyrir þjóðinni. Það er auðvitað stór spurning af hverju Kínverjar sem við dáum og lítum upp til vilja kaupa okkar land en ekki selja okkur sitt land. Það er líka ósanngjarnt að kínverskur vinur minn skuli ekki geta fundið handa mér land til að kaupa í Kína. En svona er þetta bara. Ég sendi þessum vini mínum tölvupóst áðan og er að biðja hann um að kanna þetta nánar og hvort ekki sé hægt að fá undanþágu frá þessum kínversku reglum. Nú bíð ég spenntur eftir svari.
Hvað sem út úr eftirgrennslan minni kemur um undanþágu frá Kínverskum reglum um landakaup þá hef ég allavega lært að í Kína eru reglurnar varðandi viðskipti með land einfaldar í prinsippinu. Ríkið á landið. Það er hægt að gera samninga til 30-40 ára um nýtingarrétt á landi. Það er ekki hægt að kaupa land.
Og nú dettur mér í hug hvort þetta sé ekki ágæt lausn til að allir geti verið ánægðir og vel við unað varðandi Grímsstaði á Fjöllum. Er ekki málið bara að nota kínverku aðferðina á þetta. Leigja bara landið í 40 ár til Huang Nubo. Hann getur þá notað það á meðan hann lifir. Landið fer ekki úr landi og núverandi landeigendur ættu að geta fengið góðan pening, 25 milljónir á ári er ekki há leiga fyrir 300 ferkílómetra en góður peningur fyrir landeigendur. Þannig ættu allir að fá sitt án nokkurrar áhættu.
Hér er linkur á kínversku lögin sem fjalla um eignarhald á landi fyrir þá sem vilja grúska í þessu.
Gæti aukið áhrif Kínverja í N-Atlantshafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:31 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað eigum við ekki að selja landið okkar, það er bara fáránlegt og að mínu mati ekki boðlegt. Ég skil bara ekki hvernig nokkrum manni detti það í hug. Ef Íslenska ríkið samþykkir þetta þá má spyrja hvers vegna var þá ekki gengið að tilboðum Bandaríkjamannana þó það þyrfti að fylgja ríkisborgararéttur.
Þetta er alveg með eindæmum og mjög skrítið að einmitt á þessum tímapunkti að erlendir aðilar síni Íslandi svona mikinn áhuga þó engin hafi komið hingað með svona tilboð áður,en þá var reyndar ekki vinstri stjórn við völd, og eins mikil vöntun á peningum. Mér er einnig spurn geta núverandi eigendur lagt fram afsal eða aðra pappíra sem þeir geta sannað að það hafi einhvern tíma verið greitt fyrir þetta land. Sá getur aldrei selt sem ekki hefur greitt fyrir hvort sem það er land eða eitthvað annað. Þetta er alveg jafn brjálað og að einhverjum mundi detta það í hug að selja ákveðin landsvæði í sjó.
Sandy, 30.8.2011 kl. 04:56
Er þetta ekki bara spurning um hagsmuni? Fyrir andvirði Grímsstaða á Fjöllum má kaupa milljón góðar nærbuxur. Það eru ársbirgðir af nærbuxum fyrir alla Íslendinga ef hver íbúi kemst af með 3 brækur á ári. Fyrir svona mikla hagsmuni get ég alveg skilið að sumir séu til í að selja Ísland í smápörtum.
Jón Pétur Líndal, 30.8.2011 kl. 11:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.