Íslensk stjórnvöld að tapa tækifæri til friðsamlegra lausna.
31.1.2011 | 20:55
Það kann að virðast sem breytingarnar í Túnis og Egyptalandi séu í okkar augum einungis uppreisn og róstur í fjarlægum löndum sem komi Íslendingum lítið við.
En nú ber svo við að undirrótin að þessum upphlaupum er pólitísk spilling og græðgi sem hefur kostað almenning atvinnu og örbirgð. Fólk er búið að tapa öllu og berst við að þrauka dag frá degi. Nú hafa svo margir í Egyptalandi og Túnis tapað svo miklu að upp úr hefur soðið. Æ oftar er minnt á að fátt hemur þann sem hefur engu meiru að tapa og að nú fjölgar slíkum hratt á Íslandi. Hættan á ofbeldi vegna úrræðaleysis stjórnvalda er því miður hratt vaxandi hér núna.
Þessar byltingar í norður Afríku eru okkur því þörf áminning um hvert stefnir á Íslandi. Hér stefnir nefnilega allt í sömu átt og í þessum löndum. Almenningur er reiður, það sýður og kraumar í fólki. Endalaus spillingar og þjófnaðarbylgja sem gengur yfir landið fyrir tilstuðlan stjórnmálamanna og fjármálastofnana getur ekki leitt til annars en norður afrískra aðgerða á Íslandi áður en langt um líður.
Það er þó enn tækifæri fyrir stjórnvöld að komast hjá þessu. Þjóðin hefur í 2 ár gefið stjórnvöldum tækifæri til að mæta eðlilegum kröfum almennings og til að láta þá bera hrunið sem stofnuðu til þess. Fólk er enn hófstillt í mótmælum og hagar sér eins og stjórnvöld fara fram á. Mótmælir að mestu þannig að það trufli engan! Vandinn er hins vegar sá að stjórnvöld eru ekki að nýta þessa þægð mótmælenda til að leysa hlutina. Það er eins og stjórnvöld bíði beinlínis eftir ófriði. Að farið verði að berja stjórnmálamenn eða taka þannig á þeim að þeir flýi land. Ég átta mig ekki á því hvort stjórnmálamenn landsins eru svo heimskir að þeir skilji þetta ekki eða hvort þeir eru svo spilltir að þeir ætli að sjá hvað þeir komast langt og hlaupa svo burt frá öllu saman þegar upp úr sýður.
En ef einhverjir heiðarlegir og skynsamir stjórnmálmenn eru enn til í landinu skora ég á þá að fara nú að leysa úr málunum af viti og koma viti fyrir hina, svo ekki hljótist illt af aumingjaskapnum sem sýndur hefur verið hingað til. Það væri leitt ef einhver illa hlunnfarinn frumbyggi þessa lands yrði sá ógæfumaður fyrir atbeina stjórnvalda að þurfa að fara að beita valdi til að vísa stjórnvöldum veginn í gerðum sínum eins og nú gerist á hverjum degi í norður Afríku.
Í guðanna bænum sýnið nú smá þroska landsfeður góðir og takið á vandanum áður en upp úr sýður. Það þarf að stöðva hér rányrkju bankanna og ríkisins á almenningi og leiðrétta það sem hefur verið oftekið, það vantar störf, það þarf að endurheimta það sem var stolið hér fyrir hrun. Það þarf að taka úr umferð glæpamennina sem stóðu fyrir þeim þjófnaði sem olli hruninu. Það þarf að taka í notkun þessa gegnsæju stjórnsýslu sem alltaf er verið að tala um. Það þarf að stoppa spillinguna sem alls staðar grasserar. Það þarf að breyta þjóðfélaginu svo fólk þurfi ekki að sæta endalausum árásum á fjárhag sinn og verjast svindli stórfyrirtækja alla daga. Það er varla orðið hægt að þrífast í þessu þjóðfélaqi nema hafa í vinnu lögfræðingaskara til að verjast alls kyns yfirgangi. Þetta er ekki heilbrigt og getur ekki gengið endalaust. Það þarf að vinna nýja stjórnarskrá sem tryggir að fólk sé frjálst hér en ekki nútíma þrælar alþjóðahyggju og stórglæpamanna. Vinnið nú vinnuna ykkar og lagið til. Það hafið fengið 2 ár sem hafa verið illa nýtt hingað til. Takið nú til hendinni áður en fólk tekur upp afrísku leiðina til umbóta.
Herinn mun ekki beita valdi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.