Ólafur búinn að setja í 2007 gírinn aftur, hann er vitlausari en mig grunaði.

Það er pirrandi að lesa nú um bullið í Ólafi Ragnari þar sem hann er nú staddur í Davos í Sviss á fundi helstu fjármálaafla heimsins.

Nú heldur hann því fram að Ísland sé komið á beinu brautina og bjartir tímar framundan. Hann er barnalegur og einfaldur ef hann trúir þessu bulli. En svikull og undirförull ef hann heldur þessu fram vitandi það að hér er allt á hraðri niðurleið ennþá og að bankarnir stefna í annað þrot innan fárra ára þrátt fyrir að pönkast á almenningi sem aldrei fyrr. Ólafur virðist ekki sjá eða skilja að hér er flest á niðurleið ennþá og áratuga þrautaganga framundan við að rétta úr kútnum, ef það hefst þá nokkurn tíma. Þetta kallar hann bjarta framtíð.

Ólafur virðist lítið fylgjast með á ráðstefnunni. Hann talar alla vega ekkert um það sem aðrir taka eftir að stjórnmálamenn og bankamenn á ráðstefnunni skiptast í andstæðar fylkingar. Bankamenn þykjast hafa lagað til í sínum ranni á meðan stjórnmálmenn eru enn ævareiðir yfir því að vera endalaust að borga fyrir þá án þess að sjá nokkrar breytingar til batnaðar í fjármálakerfinu.  Þá liggur fyrir í skýrslu sem aðstandendur ráðstefnunnar hafa látið gera að á árinu 2011 er mikil hætta á hækkandi eldsneytisverði, pólitískum óróa og mistökum, vandamálum vegna gróðurhúsaáhrifa, misskiptingu auðs, nýrri fjármálakreppu o.s.frv.

Á sama tíma eru fjármálaöflin að hóta því að verðfella skuldir Bandríkjanna og Japans (hækka þær sem sagt) með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fari stjórnvöld ekki í það að laga fjárlagahallann. Það er sem sagt alveg ljóst að stjórnmálamenn ráða engu í dag. Þeir eru bara strengjabrúður sem fjármálaöflin hafa keypt sér. Enda er það svo að Bandaríkjadalur er gjaldmiðill í einkaeigu fjármálaaflanna. Það er ekki Bandaríkjastjórn sem stýrir þeim gjaldmiðli né prentar hann. Það er hlálegt að flest ríki heimsins skuli vera búin að einkavæða gjaldmiðla sína, gefa vexti frjálsa og leyfa fjármálamarkaðinum að búa til eins mikla peninga og hann vill og getur. Samt kvartar fjármálamarkaðurinn og er með hótanir sé ekki gert meira. Nú á að pressa öll ríki heimsins til að auka skatta og kreista meira fé út úr þegnunum til að færa fjármálaöflunum í gegn um afborganir og vexti af skuldum sem er búnar til úr engu. Á sama tíma er með heimsmarkaðsbraski með matvörur og aðrar lífsnauðsynar verið að soga fé í auknum mæli frá almenningi allra landa.

Nú er mikil ólga í norður Afríku. Bandaríkjamenn óttast nú að missa sinn helsta bandamann í þeim heimshluta, Egypta, í hendur stjórnar sem verði Bandaríkjunum andsnúin. Það er kaldhæðnislegt að þessi bylting eða órói í Egyptalandi er drifinn áfram í gegn um bandaríska tækni, Twitter og Facebook!

Á Íslandi hefur ekkert breyst frá hruni annað en að almenningur er atvinnulaus og skattpíndur. Bankarnir hamast á fólki og fyrirtækjum sem aldrei fyrr. Stórglæpamenn ganga lausir og stunda sína starfsemi áfram í ágætum friði og græða á tá og fingri með því að búa til félög sem gera ekki neitt! Sérstakur saksóknari er að vísu farinn að tala við suma þeirra en ennþá hafa þær viðræður engu skilað sem skiptir máli. Þó ég hafi stundum pönkast á sérstökum saksóknara hér á blogginu ætla ég ekki alveg að afskrifa að hann muni að lokum koma að gagni. En mikið óskaplega er þreytandi að bíða og bíða og bíða eftir að eitthvað komi út úr þessari vinnu hans.

Ríkisstjórnin klúðraði lagasetningunni fyrir stjórnlagaþingið þannig að það er búið spil í bili. Það var hlálegt að Hæstiréttur skyldi ógilda það eftir að fjórflokknum hafði tekist svo vel upp við að koma sínu fólki inn á þetta þing. Það voru ekki margir kosnir þar inn sem voru líklegir til að vinna fyrir almenning í landinu. Frekar virtust menn líklegir til að standa vörð um sína flokka enda margir kjörnir fulltrúar með vel litað og sterkt bakland í fjórflokknum. Að því leytinu gerði það kannski ekki svo mikið til þó Hæstiréttur flautaði þetta þing af. Það hefði sjálfsagt aldrei lagt til neinar breytingar sem máli skiptu hvort eð er miðað við bakgrunn margra fulltrúanna.

Á Íslandi er því allt í rugli og vitleysu í stjórnmálunum, fjármálakerfið stefnir í annað hrun og enn meira tjón en orðið er. Fjármálakerfi heimsins er þar að auki ein risastór svikamylla sem stefnir á að valta yfir heimsbyggðina alla og soga til sín allt fé í heiminum eins og svarthol. Þetta fjármálakerfi er nútíma þrælahald þar sem 99,8% jarðarbúa eiga að þræla fyrir 0,2% jarðarbúa. Að forseti Íslands skuli vera svona kokhraustur núna sýnir bara að hann er ferlega vitlaus. Ég viðurkenni að hann hitti á að gera rétt þegar hann vísaði Icesave til þjóðaratkvæðagreiðslu. En það var greinilega bara tilviljun að hann hitti þar á að gera rétt einu sinni. Allar hinar vitleysurnar á forsetaferlinum sanna það að þetta var bara "once in a lifetime happening" hjá honum.

Nú er Ólafur kominn aftur í 2007 gír og virðist halda að Ísland sé frábært fordæmi fyrir heimsbyggðina og eys úr sér þessu bulli þarna í Davos. Það er út af svona mönnum sem heimurinn er í þeirri stöðu sem hann er núna. Bullukollum og strengjabrúðum sem láta stöðugt plata sig og hafa að fíflum. Þegar menn eru kosnir til að gegna virðulegu embætti fyrir þjóð sína eiga þeir ekki að leyfa sér svona vitleysisgang og bull.


mbl.is Efnahagsbatinn fram úr væntingum manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband