Þingmenn uppteknir af sjálfum sér, ætla bráðum á andnjósnanámskeið.
20.1.2011 | 18:25
Það er nú meira bullið þetta njósnaofsóknaæði sem greip þingmenn í dag. Þeir virðst alveg hafa gleymt að þeir vinna störf sín í beinni útsendingu að stórum hluta. Þannig að ekki þarf að njósna um þingfundi til að vita hverjir sofa á þeim. Flest annað kemur fram í þingskjölum nema kannski matseðill mötuneytisins og hverjir skreppa út að reykja í hádeginu.
Þá er nú ekki mikið eftir til að njósna um þannig að ég veit ekki af hverju einhver ætti að vera að skilja tölvu eftir til að njósna á Alþingi. Og þó svo væri að einhver teldi eitthvað bitastætt vera til að njósna um á Alþingi hvað gerði það þá til þó njósnað væri um þau mál? Á að vera eitthvað leynimakk á Alþingi? Hvað eiga Alþingismenn að fela þar innandyra? Hingað til hefur verið talið gott og gilt að hitta þingmenn í skemmtilegum partíum og veislum til að vera upplýstur um gamanmál og önnur mál sem ekki fara í þingskjöl. Það liggur í augum uppi að hafi þessi tölva virst vera eitthvað njósnatæki, þá er þetta sennilega bara skemmtilegur hrekkur, það þarf ekki að hafa svona mikla fyrirhöfn til að nálgast einskisverðar upplýsingar.
Ég skil þess vegna ekki þetta uppistand á þinginu. Þingmenn eru ekkert sérstaklega góðir í feluleikjum, það kemst alltaf upp um þá og þarf engar sérstakar njósnatölvur til. Og ekki fundu þingmenn njósnatækið sjálfir og enginn hefur séð þann sem kom því fyrir. Kannski er upphlaupið í dag vegna þess að þessi njósnastarfsemi sem fór svo rækilega fram hjá þingmönnum sjálfum kemur upp um viðvarandi athyglisbrest þeirra gagnvart öllu í kring um sig, almenningi, njósnum, efnahagsmálum o.s.frv. Þetta mál og umfjöllun þingsins um það í dag staðfestir að þingmenn eru einungis uppteknir af sjálfum sér og sínum prívathagsmunum. Öðru taka þeir ekki eftir. Niðurstaðan af þessu verður líklega sú að þeir gera bráðum hlé á þingstörfum til að fara á andnjósnanámskeið til KGB eða CIA.
Birgitta flutti ljóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.