Þjóðrembubarbarismi.

Mér brá dáldið í kvöld að hlusta á fréttir RÚV af því hvernig túlkaskortur og þekkingarleysi útlendinga á íslenskri tungu verður til þess að fólk veit ekkert undir hvað það er að skrifa hjá sýslumönnum. Það er ótrúlegt að yfirvöld skuli níðast á innflytjendum með því að svíkjast um að koma þeim í skilning um hvað þeir eru að undirgangast með undirskrift sinni. Og að yfirvöld skuli í skilnaðarmálum setja það í hendur annars málsaðilans að upplýsa hinn aðilann um hvaða skjöl er verið að undirrita er ótrúlegur aumingjaskapur yfirvalda, í þessu tilviki víst sýslumanna.

Sjá fréttina hér.

Það er svo sem ekki nýtt að heyra fáránlegar sögur af því hvernig yfirvöld haga sér í þessu landi, hvort heldur er við frumbyggja landsins eða innflytjendur. En þetta er þó sérstaklega gróft þykir mér.

Ein aðalástæðan virðist vera einhver þjóðrembingur, það er alltaf verið að halda hér í handónýtt tungumál sem enginn skilur, en yfirvöld og þeir sem aðhyllast þessa tungumálastefnu, ætlast til að allir sem hingað flytja, skilji þetta tungumál eins og innfæddir. Þetta er gjörsamlega kolvitlaus hugsun. Hér á að taka upp ensku fyrr en seinna og setja íslenskuna á safn. Persónulega tel ég að fyrirhuguð tungumálastofnun Vigdísar Finnbogadóttur eigi að verða safn til heiður íslenskri tungu, til að varðveita hana þegar hún verður aflögð endanlega sem samskiptamiðill landsmanna.

Enskan er það sem koma skal. Meira að segja Spánverjar eru loksins farnir að kenna ensku og skilja nú að það er nauðsynlegt fyrir framsýnar þjóðir að kunna ensku. Sama er með flest alla aðra jarðarbúa.

Íslendingar ráða ekkert við það að halda úti sérstöku tungumáli. Það er á allan hátt dýrt og vitlaust. Það er ekkert gagn að því að hafa sérstakt tungumál, bara vandamál og vesen. Og þessi frétt á RÚV í kvöld sannar það á mjög kuldalegan hátt að íslenskan er bara skraut á þjóðrembingshroka okkar. Við þurfum að vakna snarlega og huga að því að stíga niður af þessum tungumálastalli okkar sem svo mörgum finnst merkilegur, en er bara stallurinn undir heimskingjana sem vilja hreykja sér hæst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Íslenska er langt frá að vera ónýtt tungumál sem fáir kunna. Hitt er annað mála að margir sem ættu að kunna hana eru of latir og hjarðhyggnir til að læra hana vel og beita henni af viti og smekkvísi. Íslensku máli hefur ítrekað verið bjargað af útlendingum og það er ástæða til. Það er rétt að hún er flókin. Það er af því hún er gömul að gerð. En það þýðir líka að hún er sveigjanleg og blæbrigðarík, sem aftur þýðir að með henni er unnt að tjá og túlka ýmislegt það sem einfaldari tungur ráða síður við. Hún er líka heimild. Einmitt þess vegna hafa döskumælandi menn eins og Rask og enskumælandi menn eins og Tolkin lagt ást á íslensku, hún kennir þeim betur rætur þeirra eigin mála. Nemendur í forn- og miðensku læra einmitt gjarna íslensku til þess arna. Fólk sem ekki nennir að læra eigið mál verður ekki betra í erlendum málum. Það er reginbull. Enska er gríðarlega orðrík tunga. Heldur þú að latir íslendingar nái betri tökum á henni en latir englendingar eða bandaríkjamenn? Íslenska er ekki vandinn, heldur letingjarnir og hjarðhegðunargemsarnir sem nenna ekki að læra hana.

Niels Hermannsson (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 10:20

2 identicon

Ég er sammála þér um að það er aumingjaskapur að sýslumenn tími ekki/nenni ekki að útvega almennilega túlkaþjónustu fyrir skjólstæðinga sína og alveg forkastanlegt að láta sér detta það í hug að láta málsaðila túlka fyrir mótaðila sinn.

En það sem þú segir um íslenskuna er hreinræktað bull og vitleysa. Íslenskuna tölum við og leggjum rækt við ekki af einhverri þjóðrembu heldur vegna þess að hún er móðurmál okkar. Enginn heldur henni við ef ekki við Íslendingar. Vissulega getur enginn skyldað okkur til að tala íslensku ef við sjáum ekki ástæðu til þess og vissulega getum við gert okkur skiljanleg á ensku eða á hvaða öðru tungumáli sem við sjáum ástæðu til að tileinka okkur en við verðum þá að gera okkur grein fyrir því hvað við missum í staðinn þegar íslenskan, og í kjölfarið íslensk saga og þjóðerni að verulegu leyti (sem ég tel alls ekki öðrum þjóðernum æðra né síðra), endar á ruslahaug sögunnar og verður aðeins viðfangsefni rykfallinna skræðuskoðara og sérvitringa, svipað og tokkaríska og kornvelska.

Þjóðremba er enginn vinur íslenskunnar né Íslendinga sjálfra. Þjóðremban gerir Íslendinga að athlægi í besta falli, í versta falli að úrhrökum. Framlag þjóðrembunnar er það eitt að gera samlanda sína skömmustulega vegna þjóðernisins. Verði íslenskan að einhverju sérstöku tákni um þjóðrembu og útbólgið þjóðarstolt þá fyrst verður henni raunveruleg hætta búin.

Andrés Björgvin Böðvarsson (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 11:46

3 identicon

Sæll. Þú ert augljóslega maður fáfróður um andlegt, menningarlegt og sögulegt gildi tungumála. Það sem skiptir máli er að allir í heiminum tali eitt mál. Og það gera Íslendingar, nær allir Íslendingar tala ensku. Þannig að vandamálið er ekki hér, heldur hjá Tælandi, Fillipseyjum og svo framvegis. Flestir útlendingar hérlendis, langt yfir 90% talar annað hvort enga, eða mjög litla ensku. Venjuleg kona frá Tælandi skilur ekki orð á ensku, og venjuleg kona frá Póllandi bara örlítið, og þyrfti túlk engu að síður. Þannig að það eru þessi lönd sem þurfa að fara að kenna sínu fólki ensku, en ekki við að glata okkar máli, sem er mikilvæg sameign alls mannkynsins, og við erum verndarar hennar og gæslumenn fyrir alla hina. Tungumál eru ómetanleg verðmæti. Með þeim hverfa hugarheimar og söguleg þekking. En það tapar enginn á því að vera tvítyngdur og það ættu allir í heiminum að vera. En hver sá sem ekki varðveitir eigin tungu er fáfróður. Algengasta leiðin í sögunni að gera menn að þrælum var að taka frá þeim tungumál þeirra. Víða í Breska heimsveldinu var fólk myrt fyrir að tala eigið mál, þar á meðal frændur vorir Írar.......Reyndu að hugsa þetta dýpra og skilja. Maður sem kann tvö mál kann líka bæði betur. Það er vísindalega sannað að börn sem eru tvítyngd eru greindari en önnur börn, ákveðnir hlutar hugsunarinnar, sérstaklega abstract hugsun, þróast fyrr hjá þeim. Eintyngdu mannkyni myndi því fara aftur þróunnarlega séð. Greindasta fólk heimsins samkvæmt öllum prófum eru svokallaðir "Evrópskir gyðingar", eða Ashkenazi gyðingar, en þeir mælast mun greindari en allir aðrir þjóðflokkar, og nærri helmingur allra nóbelsverðlaunahafa og annarra stærstu afreksmanna mannkyns tilheyrir þessum þjóðflokki. Það hefur verið reynt að rannsaka afhverju, og ein ástæðan er talin að gyðingar hafa öldum saman nánast alltaf verið tví- eða þrítyngdir, þeir töluðu sína jiddísku þó þeir byggju í Rússlandi eða Frakklandi eða á Spáni, og þeir fróðustu hebresku líka. Þess vegna þróaðist hugsun þeirra öðruvísi, um svo langt skeið, að það hefur líklega breytt meira að segja dna þeirra. Hver sem er græðir þó á því að taka upp þennan lífsstíl. Í dag kenna meðvitaðir foreldrar um allan heim börnunum sínum tvö mál frá upphafi, svo þau græði á því þetta forskot og þennan þroska í abstrakt hugsun og fleiru. Þetta er orðið mjög vinsælt hjá ríkum Bandaríkjamönnum sérstaklega, líka þeim sem tala bara eitt mál sín á milli, og tilheyra sama menningarheim. Þetta er gert svo börnin verði greindari, og líka svo þau eigi auðveldara með að læra tungumál æ síðan. Tvítyngd börn, sem fara rétt gegnum þá þróunn og verða fyllilega tvítyngd á bæði málin (sem er mikilvægast alls) verða mun oftar en ekki að minnsta kosti fertyngd (og mjög mörg allt upp í sjötyngd) því tungumálahæfni þeirra er mun meiri en allra annarra manna, sama hvort það er meðfætt eða ekki. Barn sem undir eðlilegum kringumstæðum ætti erfitt með að læra tvö tungumál mun ekki eiga það ef það elst upp á þennan hátt, og ef ferlinu er fylgt rétt eftir.

Þess vegna er einmitt það að sem flest börn séu tvítyngd mikilvægasti liðurinn í að allir læri að tala góða ensku.

Eitt tungumál þýðir eitt sjónarhorn á tilveruna, eitt eða örfá orð um alla hluti, og þar sem hugsun mótast af tungumáli, einstrengislegri hugsun. Það er ekki tilviljun að tvítyngd börn eru nánast alltaf víðsýnni, diplómatískari og betri borgarar alheimsins en eintyngd börn, og er það aukakostur burt séð frá því að þau eru greindari á mörgum sviðum, og þroskast vitsmunalega fyrr en önnur börn.

Þekking (IP-tala skráð) 17.1.2011 kl. 02:47

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir allir og takk fyrir langar og ítarlegar athugasemdir. Ég verð að viðurkenna að ég er frekar fáfróður um tungumál, enda uppalinn við íslenska tungu og takmarkanir á þekkingu minni sem af henni leiða.

Mín afstaða til íslenskrar tungu mótast nú aðallega af þankagangi um eðlilega þróun hlutanna og um leið sögulegri skoðun. Íslensk tunga er fræðilega séð mjög nýlegt mál, aðeins um 150 ár síðan fyrst var gefin út kennslubók í þessu máli. Við landnám á Íslandi voru töluð miklu færri tungumál í Skandinavíu og norður Evrópu en nú er gert. Í raun hafa tungumál á þessu svæði þróast eins og bóla, þeim hefur fjölgað og þau hafa sundurgreinst æ meira með árunum. Þetta er tungumálabóla sem er að springa. Á miðöldum var gengið langt í þá átt að taka á þessu, þá lærðu allir menntamenn latínu og gátu notað hana í stórum hluta hins þekkta heims. Svo lognaðist latínan út af sem sameiginlegt tungumál og á síðari tímum hefur enskan verið að ryðja sér til rúms, sem betur fer segi ég, því það er nauðsynlegt að fækka tungumálum og auðvelda með því samskipti fólks.

Ég veit það að fræðimenn um heim allan hafa af því áhyggjur að þúsundir tungumála séu að deyja út. Af hverju þarf að hafa áhyggjur af því? Það var minnst á það í athugasemd að fólk hafi verið hneppt í þrældóm með því að taka af því tungumálið m.a. Í dag er þessu þveröfugt farið, nú festast menn í hálfgerðu þrælahaldi á meðan þeir kunna bara móðurmálið.

Mér finnst almenn afstaða til tungmála mótast allt of mikið af því að þetta verði bara að vera eins og það hefur verið lengi áður, af því bara. Að fólk mikli fyrir sér erfiðið við að taka upp nýtt tungumál og leggja af það gamla. Hræðsla við breytingar. Það getur vel verið að gyðingar hafi náð að skerpa á greind sinni með því að vera þrítyngdir en í framtíðinni vona ég að Íslendingar og aðrir jarðarbúar geti nýtt sér tölvur og síma til ánægjulegra samskipta með einu tungumáli þvers og kruss um heiminn og skerpt á greind sinni með því að kynnast ólíku fólki og menningarheimum. Það er örugglega hægt að láta heilann vinna með fleiri aðferðum en að læra fleiri tungumál.

Mér sýnist líka á athugasemdum að menn viðurkenni í raun þörfina fyrir góða enskukunnáttu? Og er það þá ekki bara spurning hvenær skrefið er stigið til fulls með öllu því hagræði sem af því hlýst að skipta bara alveg um tungumál?

Ég sé enga ástæðu til að bíða í áratugi eða aldir með þeð sem augljóslega er framundan, að fresta því óumflýjanlega í hið óendanlega í stað þess að taka strax á málinu með réttum hætti. Sem að mínu mati er að skipta um tungumál hið fyrsta.

Núna er viss áhugi á því á stjórnlagaþingi að festa íslenskuna í stjórnarskrá sem þjóðtungu og sumir furða sig á að hún skuli ekki hafa verið þjóðtunga í stjórnarskrá frá upphafi. Þetta lýsir ótrúlegri vanþekkingu og skammsýni. Í fyrsta lagi var íslenskan varla til sem formlegt tungumál þegar landið fékk fyrst stjórnarskrá, í landinu var töluð danska og leyfar af norrænu sem hafði þróast hér í það sem nú er orðið kallað íslenska. Það er því gróf vanþekking að furða sig á að íslenska skuli ekki frá upphafi hafa verið stjórnarskrárbundin þjóðtunga, málið var einfaldlega ekki til.

Og að ætla að festa þetta tungumál í stjórnarskrá núna er ótrúlegt skammsýni, því augljóst er að þetta tungumál þvælist bara fyrir okkur, líka fyrir útlendingum sem við viljum fá til landsins. Við viðurkennum í raun að við getum ekki lifað í þessu landi nema tala önnur tungumál, og til hvers þá að lögbinda sem þjóðtungu tungumál sem við getum ekki notast við? Þetta er eins og að hafa tvo siði í landinu til forna, eina opinbera trú og aðra sem má iðka í laumi. Ég held það sé óþarfi að fara í það system núna, vil frekar ganga hreint til verks og legg til að í stjórnarskrá verði mörkuð stefna um að taka upp ensku sem þjóðtungu innan 20 ára.

Jón Pétur Líndal, 17.1.2011 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband