#6791 - Verða almannatryggingar bannaðar á stjórnlagaþingi?
16.11.2010 | 23:17
Flestir Íslendingar eru sammála um að almannatryggingar séu nauðsynlegar og sjálfsagðar. Það hefur aldrei hvarflað að mér annað en að við munum hafa almannatryggingar og samhjálparkerfi til að mæta ýmsum áföllum og erfiðleikum sem fólk verður fyrir á lífsleiðinni. Það meira að segja hvarflar ekki að mér að ríkisstjórn Íslands, sem mér finnst þó afburða slöpp, vilji ekki almannatryggingar. Á þeim bæ veit ég að menn vilja í raun vel en tekst bara engan veginn sem skyldi að höndla ástandið sem nú er í þjóðfélaginu.
Ég hef mikið verið að lesa mér til um stefnumál ýmissa frambjóðenda til stjórnlagaþings og skrif þeirra núna í aðdraganda kosninganna. Það vakti nokkra athygli grein eftir Brynjólf Svein Ívarsson sem ég sá í greinasafni hans á DV vefnum. Þar tilgreinir hann 5 frambjóðendur sem kjósendur eigi ekki að kjósa. Einn þessara manna er góður kunningi minn og þar sem ég kannaðist ekki við þá mannlýsingu sem Brynjólfur dró upp af honum í grein sinni, þá varð ég enn forvitnari en áður og fór að skoða meira hvaða maður þessi Brynjólfur frambjóðandi er.
Það kom náttúrulega fljótt í ljós þegar ég virkjaði tvö helstu njósnanet heimsins, Google og Facebook, að maðurinn er prímus mótor í Frjálshyggjufélaginu, sem virðist vera einhver hægri öfgaflokkur, og siglir greinilega undir sjóræningjafána til þessara stjórnlagaþingskosninga. Hann hefur í skrifum sínum lýst yfir vilja sínum til að standa gegn hlutum eins og almannatryggingum af öllu tagi á stjórnlagaþingi. Sjá hér
Hann segir svo í niðurlagi skrifa sinna:
"Þessi grein var skrifuð með þeim tilgangi að brýna fyrir frjálshyggjumönnum að þeir verði að gæta þess að verða ekki undanskyldir ef kemur til stjórnlagaþings. Þó að höfundur sé efins um að frjálshyggjumenn geti haft úrslita áhrif á slíku þingi þá hafa þeir eitt vopn hvort sem þeir yrðu hluti stjórnlagaþings eður ei. Því með samþykktarleysi eða þátttökuleysi á stjórnlagarþingi þá væri hægt að svipta nýrri stjórnarskrá hinum eftirsótta stimpli um þverpólitíska samstöðu."
Það er greinilegt að maðurinn er búinn að læra mikla pólitíska undirförli en ekki veit ég hvort það er hluti af háskólanámi hans. Hann er algjörlega á móti því að samstaða náist um nýja stjórnarskrá nema hún verði eftir höfði Frjálshyggjufélagsins og geti hann ekki komið stefnumálum þess félags fram á stjórnarlagaþingi þykir honum skárra en ekkert að reyna að rýra gildi þingsins með því að gefa því ímynd ósamstöðu.
Þetta er maður sem telur sig þess umkominn að segja kjósendum að þeir eigi ekki að kjósa einhverja aðra frambjóðendur. Það fór nú hrollur um mig þegar ég var búinn að kynna mér frambjóðandann og ég get ekki annað en leyft lesendum að deila með mér skrifum þessa manns sem vill semja nýja stjórnarskrá fyrir Ísland og hafa hana stutta og einfalda með algjöru tjáningarfrelsi og banni við samhjálp.
Ég er svo sem ekki að segja að einhverjar tilteknar skoðanir eigi ekki rétt á sér á stjórnlagaþingi, en hvet menn til að kynna sér frambjóðandann vel og fullvissa sig um að þeir séu sammála honum áður en þeir greiða honum atkvæði sitt.
Almannatryggingar leið út úr kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er yndisleg færsla.
Geir Ágústsson, 19.11.2010 kl. 08:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.