#6791 - Þessi þrjú í þjóðstjórn.
16.11.2010 | 03:24
Þjóðþekkt kona hefur verið dugleg í mörg ár að miðla af vitneskju sinni um aðferðir og uppgang nokkurra þekktra útrásarvíkinga, fyrirætlanir þeirra og aðferðir við stórkostlegt svindl og glæpastarfsemi. Lengi vel hristi alþjóð bara hausinn yfir þessari konu og fannst hún vera að bulla, það trúði henni varla nokkur maður, þessari kexrugluðu kerlingu eins og hún var oft kölluð. Þeir sem hún sagði sannleikann um rökkuðu hana niður þannig að stundum mátti halda að hún væri á leið fyrir aftökusveit. Svo kom í ljós að hún hafði rétt fyrir sér, enda góð og guðhrædd kona. Nú er hún búin að skrifa góða glæpasögu um þetta allt saman sem verður sjálfsagt víðlesin á Íslandi um jólin.
Frægasti forsætisráðherra Íslands á síðari tímum lenti upp á kanti við frægustu bisnissmenn Íslandssögunnar eftir að hann einkavæddi íslensku bankana og bisnissmennirnir keyptu þá. Þegar hann áttaði sig á að þessir bisnissmenn voru bara glæpamenn en litlir bisnissmenn fór hann að gagnrýna þá. Þeir svöruðu með tilboði um mútur. Í stuttu máli þá snérist þessi ágreiningur upp í stórpólitíska þrætu þar sem flestir stjórnmálamenn tóku afstöðu með glæpamönnunum og á móti forsætisráðherranum. Hann var kallaður kexruglaður eins og konan sem að ofan er nefnd. Nú er smám saman að koma í ljós sú staðreynd að þetta var eini stjórnmálamaðurinn sem skildi hvað var í gangi. Hinir voru greinilega villtir í einhverri pólitískri þoku sem bófarnir höfðu keypt yfir þá. Hér má sjá góðan kafla um þetta allt saman úr bók ráðherra í hrunstjórninni.
Svo er það maðurinn sem margir kalla jólasveininn. Það er öllum uppsigað við hann. Hvað kenna Íslendingar börnum sínum, að jólasveinninn sé vondur? Ég held varla, en samt virðast margir trúa því að þessi jólasveinn sé vondur og vitlaust. Hann er búinn að hamra á því síðan á síðustu öld að íslensk stjórnmál séu gjörspillt. Hann vill að stjórnmálamenn vinni vinnuna sína, hann vill að forsetinn geri gagn fyrir þjóðina en sé ekki bara eins og stytta á brúðkaupstertu. Hann vill að þjóðin fái sjálf að taka ákvarðanir um mál. Hann vill alvöru lýðræði á Íslandi. Hann vill að Ísland sé öðrum þjóðum til fyrirmyndar í friðarmálum. Hann vill að bófarnir úr útrásinni og bankahruninu séu látnir axla ábyrgð á því en ekki þjóðin. Hann vill að ríkisstofnanir eins og RÚV sýni hlutleysi í stað þess að trana fram ákveðum skoðunum og fólki eins og áróðursstöðvar glæpamannanna. Þessi maður þykir kexruglaður og fær stöðugt að heyra það. Hann hættir samt ekki, er alveg ódrepandi við þetta áhugamál sitt, að koma viti fyrir Íslendinga. Kannski er það að takast núna. Núna er hann áhugaverðasti frambjóðandinn til stjórnlagaþings á vef DV að meta lesenda.
Þessi þrjú, Jónína Ben, Davíð Oddsson og Ástþór Magnússon eiga það öll sameiginlegt að hafa bein í nefinu. Þau hafa sýnt það að þau vita sínu viti. Þau hafa ekki látið undan þrýstingi glæpamanna. Þau hafa öll reynt að koma vitinu fyrir ráðamenn. Þau bera hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Þau þyrftu að taka við stjórn landsins í stað aumingjanna sem mynda nú ríkisstjórn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.