Hvernig við knýjum yfirvöld til að virða stjórnarskrá.
6.11.2010 | 13:19
Eitt af því sem ég vil breyta í stjórnarskránni, komist ég á stjórnlagaþing, er að setja í hana refsiákvæði við því að brjóta hana.
Því hefur verið haldið fram af málsmetandi mönnum að núverandi stjórnarskrá landsins sé nokkuð góð, aðeins þurfi að fara eftir henni. Og þá hef ég velt því fyrir mér af hverju ekki er farið eftir stjórnarskránni. Þegar hún er lesin þá er auðvelt að skilja að ekki sé farið eftir henni, það eru engin ákvæði í henni um hvað skuli gera við þá sem fara ekki eftir stjórnarskránni, brjóta þau lög. Við vitum öll að lítið er farið eftir lögum sem engar refsingar eru við brotum á. Hver hefði áhyggjur af að brjóta umferðarlögin ef engar sektir væru við því?
Stjórnarskráin er sérstök að því leyti að hún er fyrst og fremst lög fyrir löggjafann og stjórnvöld að fara eftir. Það er ekki stór hópur manna sem þarf að kunna þess lög til að fara eftir þeim, samt hefur það gengið brösulega eða allavega oft orkað tvímælis hvort farið sé eftir henni.
Ég vil því setja refsiákvæði í stjórnarskrána, burtséð frá innihaldi hennar að öðru leyti, til að tryggja það að á hverjum tíma sé farið eftir stjórnarskránni eins og hún er.
Þessi ákvæði gætu t.d. verið.
- Ævilangt bann við þingmennsku og opinberum störfum fyrir þá sem brjóta stjórnarskrána.
- Fangelsisvist eða fjársektir.
- Lög og ákvarðanir sem standast ekki stjórnarskrá sjálfkrafa ógilt þegar dómur hefur fallið um brot á stjórnarskrá.
Til að framfylgja stjórnarskránni þarf að vera auðvelt að kæra meint brot og skilvirkur dómstóll til að fjalla um þau. Ákvæði um slíkt þarf að setja í stjórnarskrána.
Fyrr en þessar breytingar verða gerðar á stjórnarskrá landsins verður hún hálf marklaust plagg, því það verður aðallega undir samvisku eða samviskuleysi stjórnmálamanna komið hvort farið er eftir henni á hverjum tíma eða ekki.
Góður andi á Þjóðfundinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.