Vantar að ná í ránsfenginn svo hægt sé að greiða hærri laun, og hagræðingu alls staðar.
7.9.2010 | 22:06
Það þarf að hagræða í þjóðfélaginu. Það eru allt of margar afætur, of fá störf sem skapa verðmæti, of stórt ríkisapparat, of margir skólar í hlutfalli við störf fyrir menntafólk, of mörg símafyrirtæki m.v. stærð markaðarins, of margir bankar m.v. stærð markaðarins, of mörg tryggingafélög m.v. stærð markaðarins, of skuldug fyrirtæki alls staðar o.s.frv. endalaust. Þjóðfélagið er óhagkvæmt, ekki bara vegna þess hve landið er stórt og fámennt, heldur fyrst og fremst vegna þess hve illa við spilum úr, skipuleggjum okkur. Líka vegna þess að það er ekki alþingi eða almenningur sem stjórnar landinu, heldur fámennir þrýstihópar, flokkar eða hvað þær heita klíkurnar sem eru svo mikilvægar á hverjum tíma að allt snýst um þær. Þegar vel gengur eru það "flokkarnir" sem menn styðja, hvaða þvælu sem þeir bera á borð fyrir kjósendur, þegar illa gengur þá "verður að bjarga fyrirtækjum sem er ekki hægt að láta fara á hausinn" eins og það er kallað þegar þarf að ríkisvæða tapið af því að láta nokkra einstaklinga ræna einkafyrirtæki sín. Og svona má áfram telja.
Og þó þjóðin sé orðin gríðarlega vel menntuð þá er nú ekki nógu menntuð til að taka á öllu því sem er upp talið hér að ofan. Það er búið að mennta úr mönnum allar hugsjónir og skynsemi. Menntunin er seld almenningi sem leið til að ota sínum tota, komast upp um nokkra launaflokka og fá skrifborð, that´s all. Eins og afraksturinn er í menntakerfinu í dag held ég að hvergi sé eins miklum peningum illa varið í íslenskum ríkisrekstri og í menntakerfinu. Ekki er að furða þó íslenskt menntakerfi sé ekki mjög hátt skrifað í öðrum löndum.
Þetta allt veldur því að vöruverð er of hátt m.v. laun og fyrirtæki eiga samt erfitt með að greiða almennileg laun. Vöruverð og húsnæðisverð er þó lágt á Íslandi samanborið við flest önnur lönd í dag. Launin líka.
En það sem er þó alverst í dag er að við höfum leyft fámennum hópi manna að ræna þjóðina nánast öllum verðmætum í útrásinni sem endaði með bankahruni. Á meðan við gerum ekkert í því, tökum ekki á því máli, reynum að koma glæpamönnum bak við lás og slá eða endurheimta horfið fé er varla von að hitt allt lagist eða launin hækki.
Hér er allt í djúpum skít sem snýr að stjórnmálamönnum. Sama á við um verkalýðshreyfinguna. Þetta lið gerir ekkert í því að ná eigum þjóðarinnar til baka, hvort sem þeim var stolið úr lífeyrisjóðum eða bönkum eða í gegn um ríkissjóð eða með öðrum hætti. Það segja bara allir, þetta er ekki mitt mál. Það er einhver annar sem ber ábyrgð á þessu. Og meðan allir segja þetta og glæponarnir ganga allir lausir er ekkert hægt að hækka nein laun þó þess þurfi. Því það er látið gott heita að búið sé að ræna öllu sem nota átti til að greiða launin. Þetta er alveg eins og í villta vestrinu í gamla daga þegar lestarræningjar rændu lestirnar sem fluttu peninga til greiðslu launa. Nema á Íslandi er ekkert gert í að handsama ræningjana og ná í ránsfenginn. Þess vegna verður ekkert hægt að greiða hærri laun, sama um hvað verður samið, sama hve þurfandi fólk er, sama hvað sanngjarnt er.
Fólk vill sjá launin hækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.