Nýr borgarstjóri í Gnarrvík á öskudegi.

Til hamingju Reykvíkingar með nýja borgarstjórann. Ég vil leggja til að nafni borgarinnar verði á næstunni breytt í Gnarrvík. Ástæðan fyrir Reykjavíkurnafninu er hvort eð er ekki fyrir hendi lengur. Hún var sú að þegar Ingólfur, fyrsti borgarbúinn, nam hér landi ásamt konu sinni Hallveigu Fróðadóttur, og áhöfn sinni, þá steig stöðugur reykur upp úr landinu skammt frá vík nokkurri sem hann nefndi þá Reykjavík. Síðar reis borgin Reykjavík við þessa vík.

Nú eru breyttir tímar og búið að tæma heita vatnið undan borginni sem olli þessum reyk, eða gufu, og enginn reykur lengur í Reykjavík nema sá sem kemur úr púströrum og þess háttar tólum.

Þar sem Jón Gnarr er nokkurs konar landnámsmaður í stjórnmálum Reykjavíkur, með sinni skemmtilegu og nýju nálgun á málin. Þá held ég að það sé tími til kominn að huga að nafnabreytingu á borginni. Það hjálpar líka til við að þurrka endanlega út spillingarstimpilinn og leiðindin sem eru tengd nafninu Reykjavík.

Við nýtt landnám hefur alltaf í sögunni verið stokkað upp í nafnamálum. Rétt eins og þegar Ingólfur kom til Íslands og hóf hér landnám norrænna manna. Þá hrökkluðust Írarnir sem voru hér úr landi, þeir voru víst kallaðir Papar. Og fá örnefni eru til frá þeirra tíma hér. Þeir voru í raun hreinsaðir af landinu og að mestu þurrkaðir út úr Íslandssögunni.
Ef einhvern tíma er ástæða til að endurtaka þetta þá er það núna, nú þarf að hreinsa út andrúmsloft hrunsins og spillingarinnar. Hluti af þessari hreinsun og endurreisninni er að endurnýja nafn Reykjavíkur. Víða um heim er Ísland illa kynnt eftir víkingana sem komu frá Reykjavík og settu svo marga á hausinn eða stálu allavega peningunum þeirra. Kippum þessu í lag með nýju nafni á Reykjavík. Kannski er Gnarrvík ekki endilega rétta nafnið en þið skiljið hvað ég meina. Ég legg til samkeppni um nýtt nafn á borgina.

Þetta er nokkuð sem hefur oft gefist vel, t.d. þegar Búnaðarbankinn varð að KB banka, KB banki að Kaupthing, Kaupthing að nýja Kaupthing og í staðinn fyrir alla hina kom svo Arion banki. Samt allt sami bankinn. En með þessum nafnabreytingum kom alltaf nýtt og skemmtilegt yfirbragð ásamt því sem gamlar syndir eru að verulegu leyti afmáðar. Sama má gera með Reykjavík sem gæti nú orðið að Gnarrvíkurborg eða einhverri annarri góðri borg.


mbl.is Jón Gnarr verður borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband