Það er bráðnauðsynlegt að Besti flokkurinn fái hreinan meirihluta í Reykjavík. 8 menn er algjört lágmark. Með 6 eða 7 menn verður bara til einhver samsteypustjórn sem ekkert vit verður í og kannski ekki einu sinni Besti flokkurinn með í þeim meirihluta. Þannig fær nýtt framboð alls ekki að njóta sín að fullu nema það fái hreinan meirihluta í kosningunum. Með hreinan meirihluta Besta flokksins verður hægt að taka upp nýtt og skemmtilegra stjórnarfar.
Þeir sem vilja sjá einhverjar breytingar í pólitíkinni verða að vera duglegir að mæta á kjörstaði á laugardaginn og kjósa X-Æ, Besta flokkinn í Borgarstjórn.
Þó sumir telji það vonlaust að kjósa grínframboð og finnist að nú sé tími til kominn að ljúka gríninu þá finnst mér það alls ekki. Ef þetta er í raun grínframboð, hvað gerir það þá til? Þetta er ekkert skemmdarverkaframboð, það er ekki eins og markmiðið sé að rústa borginni komist Besti flokkurinn til valda. Og með þykkt lag af embættismönnum hjá borginni verður heldur engu rústað af óvitaskap. Það eina sem getur gert þetta grín grátt, er ef framboðið er ekkert grín. Því þá gæti það í versta falli farið svo að Besti flokkurinn taki upp starfshætti og siðferði fjórflokkanna. En það er þá ekkert verra en núverandi ástand.
Það er því útilokað að kjósendur fari sér að voða eða tapi á því að kjósa Besta flokkinn. Þeir einu sem geta tapað á góðu gengi Besta flokksins eru hinir flokkarnir og frambjóðendur þeirra. Ef illa tekst til breytir það í versta falli engu frá því sem nú er, en ef vel tekst til gætum við séð nýjar leiðir og ferska vinda í ráðhúsi Reykjavíkur um næstu helgi.
Reykvíkingar hafa nú einstætt tækifæri til að umbylta stjórnmálum í landinu. Nú er hægt að sýna í verki að valdið sé hjá fólkinu, ekki flokkunum. Þið getið sýnt stjórnmálamönnum að þeir verði að sinna sínum störfum af ábyrgð, annars sé þeim skipt út, jafnvel öllum flokkum í einu!! Þið megið alls ekki láta þetta tækifæri fara forgörðum. Ef þið kjósið ekki Besta flokkinn verður árið 2010 ár hins glataða tækifæris í Reykjavík. Látið ekki hræðsluáróður hafa áhrif á ykkur. Nýtið tækifærið sem þið hafið nú til gagngerra breytinga og uppstokkunar. Takið til í Ráðhúsinu!!
Mikið forskot Besta flokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.