Röng frétt, en Sigurður samt á flótta?

En samt hefur það frést af Sigurði Einarssyni að hann ætli að bíða með að svara heimboði sérstaks saksóknara þar til Hæstiréttur hefur úrskurðað um lögmæti gæsluvarðhalds yfir Hreiðari og Magnúsi. Þessi bið Sigurðar eftir afstöðu Hæstaréttar bendir til að hann telji sig í hættu með að fara sömu leið og þeir félagar hans úr bankanum. En sú leið er sem sagt gisting í boði sérstaks saksóknara á ríkisreknu gistiheimili fyrir austan fjall.

Ef við gefum okkur að hann vilji ekki gistingu þá er saksóknari býður honum væntanlega, þá sjálfsagt ætlar hann ekki að þiggja heimboð Ólafs og þá verður Ólafur sjálfsagt að fara með sína víkingasveit til að leita að Sigurði og sækja hann, hvar sem hann nú reynir að fela sig. Sennilega verður hann þá fluttur heim í búri eins og King Kong forðum daga í myndinni. Kannski var þessi vitlausa frétt látin "leka" til að Sigurður fái skilið að hann sleppur ekki auðveldlega þó hann hafni heimboði saksóknara.

Annars verð ég nú að fara að hæla sérstökum saksóknara dálítið þó ég sé líka oft að pönkast út í hann. Hann er á réttri leið, þó hægt fari og stundum sé klaufalega farið í málin. Það verður sjálfsagt að lokum að fyrirgefa það að mestu því maðurinn er góðgjarn og seinn að átta sig á hvílíka skúrka hann er að fást við. En vonandi er þetta að skýrast fyrir honum og þá ætti hann að spretta úr spori og fara að eignafrysta og handtaka hægri vinstri eins og sagt er.

Ég verð nú að uppfæra þessa færslu dálítið. Nú er Sigurður Einarsson búinn að setja það að skilyrði fyrir að þiggja heimboð sérstaks saksóknara, að hann verði ekki fangelsaður og settur á gistiheimili ríkisins. Hvað meinar hann með að vera að setja skilyrði af þessu tagi fyrir viðtölum? Það er bara til eitt rétt svar við þessu, það er að Ólafur karpi ekkert við Sigurð um þetta, heldur fari bara með víkingasveitina og sæki hann. Sigurður er bölvaður dóni gagnvart sínum fyrrverandi samstarfsmönnum sem sitja í gæsluvarðhaldi að setja svona skilyrði. Þessi frekja getur orðið til þess að tefja yfirheyrslur og upplýsingu málsins, sem aftur getur orðið til að hinir tveir þurfi að sæta lengingu á sínu gæsluvarðhaldi. Það verður þá Sigurði að kenna. Spurning hvernig þeir þakka honum fyrir það.


mbl.is Röng frétt um ferðir Ólafs Þórs í DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Jón Pétur, við búum við lög í þessu landi og það hefur reynslan kennt okkur að það er betra að vanda heimavinnuna áður en rokið er af stað að handtaka mann og annan.

Þess vegna finns mér ómaklegt að hnýta í "Sérstakan" þó þér og fleirum þyki hægt ganga í rannsókninni.  Trúlega flóknasta og umfangsmesta mál sem ransakað hefur verið og undanskil ég þá ekki Hafskips og Baugsmálin.

Hinu er ég sammála að það má ráða það af fréttum að tvímenningunum verði ekki sleppt fyrr en náðst hefur í Sigurð og það finnst manni rökrétt.

Landfari, 10.5.2010 kl. 22:41

2 Smámynd: Tómas Waagfjörð

Vonandi verða þeir hrunsmenn sem erlendis eru og vilja ekki koma til að taka afleiðingum handteknir af erlendum yfirvöldum þegar ekkert flug verður til Íslands í nokkra daga. Það er ekkert nema gott á föðurlandsvikara að vera tekinn í bossann í einhverju alvöru fangelsi þarna í útlandinu.

Tómas Waagfjörð, 10.5.2010 kl. 23:10

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Landfari. Við búum vissulega við lög, en það er nú stundum álitamál hvort þau er lög eða ólög. Í þessu máli hljóta það að teljast undarleg lög, ef ekki ólög, sem eru þannig lög að enginn er handtekinn, engar eignir frystar og fáir yfirheyrðir í meira en ár frá því að ljóst er að bankarnir hafa hrunið og í því hruni tapast meira en tvöfalt verðmæti Íslands skv. fasteignamati.

Kannski er ómaklegt að hnýta í "Sérstakan" eins og þú kallar hann, enda var hann búinn til "sérstaklega" með lagabreytingum til að taka á málum vegna bankahrunsins. En einmitt af því að hann er búinn til sérstaklega út af þessu hefði maður ætlað að full alvara fylgdi og ætlast mætti til að brugðist yrði við með aðgerðum áður en menn fengju tíma til að koma þýfinu undan, en ekki að beðið yrði með aðgerðir þar til öllu yrði komið undan sem hægt er. En m.v. þann tíma sem liðinn er er eflaust búið að því.

Og af því við búum við lög í landinu þá einmitt hefði sérstakur saksóknari strax á fyrsta degi í embætti getað krafist gæsluvarðhalds og frystingar eigna, þó ekki nema verið hefði vegna þess hve dýrt hrun bankanna er, vegna þess hve miklir peningar töpuðust í bönkunum undir stjórn bankastjóranna og eigenda bankanna. Það er enginn vandi að stinga í gæsluvarðhald og frysta eignir manna sem ræna af bankagjaldkera 1-2 milljónum. Með sömu lögum má eignafrysta og gæsluvarðhalda menn sem geta ekki gert skilmerkilega grein fyrir þúsundum milljarða sem hafa horfið úr bönkunum í þeirra umsjón.

En sérstakur saksóknari hefur verið alveg hreint ferlega seinn að átta sig á þessum hlutum. Þess vegna er ekki annað hægt en að gagnrýna hann, en að sama skapi er það jákvætt að hann er loksins að kveikja á perunni og átta sig á þessu núna.

Jón Pétur Líndal, 10.5.2010 kl. 23:12

4 Smámynd: Landfari

Heldur þykir mér þú fljótur að dæma Jón.

Hefur þú nokkuð spáð í umfang þeirra gagna sem þeir þurfa að fara í gegnum þó ekki væri nema til að vita hvað þeir eigi að spyrja um.

Heldurðu í alvöru að einhver dómari hefði samþykkt gæsluvarðhald yfir þeim ef Sérstakur hefði komið til dómara með slíka beiðni á þeim forsendum að  Hreiðar hafi bara orðið kjaftstopp þegar hann var spurður um milljarðana.

Það kemur væntanlega fram í bókum bankans hvert þessir milljarðar fóru en það sem er verið að rannsaka er hver á raunveruega þau fyrirtæki sem eiga  að hafa fengið þetta fé, hvaða tryggingar séu á bakvið og annað slíkt.

Það er bara þannig að sérstakur þarfa að sanna sekt en ekki þannig að Hreiðar þurfi að sanna sakleysi vegna óröktuddra fullyrðinga. 

Hefði Sérstakur fylgt þínum ráum hefði hann sennilega ónýtt málið á fyrsta degi með flumbrugangi og sakborningar sloppið á "lagatæknilegum" forsendum.

Þessi lög um kyrrsetningu eigna, eru þau ekki alveg ný, samþykkt í vor?

Landfari, 11.5.2010 kl. 11:58

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Landfari og takk fyrir athugasemdina. Það er ekkert nýtt í lögum að kyrrsetja megi eignir. Sú heimild hefur verið til lengi. En varðandi það að þessum mönnum var loksins stungið inn núna verð ég að benda á að a.m.k. eitt þeirra mála sem rannsóknin beinist að hefur legið ljóst fyrir í tæp 2 ár. Það er Al Thani málið. Það voru ekki liðnar margar vikur frá því Hreiðar og félagar tilkynntu um kaup Al Thanis á hlutabréfum í Kaupþingi og þangað til fjölmiðlar höfðu greint frá því hvernig málið var vaxið, sem sagt að Al Thani legði ekki fram krónu í þetta, heldur væri allt dæmið borgað af Kaupþingi með milligöngu Ólafs Ólafssonar. Strax nokkrum vikum eftir að þessi "viðskiptaflétta" var kynnt var sem sagt ljóst og stutt með gögnum að þetta voru ólögleg sýndarviðskipti. Síðan hefur ekkert breyst í lagaumhverfinu sem gerir þetta ólöglegt fyrst núna. Það er ekkert nema slóðaskapur yfirvalda að ekki skuli hafa verið tekið á þessu með varðhaldi og yfirheyrslum strax árið 2008. Það hefði marg borgað sig að stinga hlutaðeigandi í steininn strax þá og hafa svo frið til að rannsaka önnur mál samhliða auk þess að þurfa ekki að horfa upp á skúrkana dunda sér við að koma þýfinu undan.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 12:18

6 Smámynd: Árni Þór Björnsson

Sæll. Enn grunar mig að ekki sé allt með felldu í þessu ferli SS (sérstaks saksóknara) Landsbankamönnum er að mestu haldið utan við umræðuna. Hvernig stendur á því ? Svo hefur margoft verið stungið upp á því , að fá til liðs við rannsóknina fólk sem hefur talsverðan vana , að rekja og sundurgreina svona flókin fjármál (-amisferli) t.d. hinn ágæta W.K.Black. En það vilja menn ekki. Hvers vegna? Það hefði sennilega hraðað ferlinu nokkuð og hugsanlega hefði afraksturinn orðið meiri. En það á eftir að koma í ljós. Ég vona næsta fyrirsögn verði:    Black is Back !

Árni Þór Björnsson, 11.5.2010 kl. 12:20

7 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Árni. Ég furða mig nú stundum á þessu líka. Af hverju eru ekki fengnir fleiri reyndir og kunnáttusamir menn í rannsóknirnar? Og af hverju eru ekki fleiri teknir fyrir en Kaupþingsmenn? Eru hinir allir svo augljóslega blásaklausir, eða hvað?

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 13:09

8 Smámynd: Landfari

Er ekki m.a. verið að rannsaka hvað varð um milljarðana sem Kaupþing fékk daginn áur en þeir lokuðu. Þó að það sé nú verið að setja menn í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á Kaupþingsmálinu er ekkert sem segir að það verði ekki líka gert vegna Landsbankamálsins. Það er hinsvegar annað mál og ekki gæfulegt að rugla þeim of mikið saman.

Glitnismálið er svo það þriðja og svo framvegis. Þó að þessi mál tengist má ekki rugla þeim saman. Það er mikilvægt að skoða málin ofan í kjölinn áður en farið er af stað því eins og t.d. í þessu máli Al Thanis þá er að koma í ljós núna að það er mun umfangsmeira en í fyrstu var talið. Hefð verið rokið til á sínum tíma og menn sektaðir eða kærðir væri það mál út af borðinu núna því ekki má refsa tvisvar fyrir sama málið.

Hvaða kyrrsetnigarlög voru það sem verið að samþykkja í vor Jón?

Landfari, 11.5.2010 kl. 17:12

9 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Landfari. Það eru skv. lagasafni á vef Alþingis í gildi lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 frá 23. apríl 1990. Skv. þessum lögum hefur verið unnið í 20 ár og eignir m.a. kyrrsettar skv. þeim þegar ríkir hagsmunir hafa krafist þess.

En það sést bara enn betur nú þegar rannsóknin á Kaupþingsmönnunum er komin á skrið hvað það var arfavitlaust að bíða með að stinga þeim í steininn á sínum tíma. Nú er komið í ljóst að eftir að Seðlabankinn veitti þeim þrautavaralán héldu þeir áfram að hagnýta sér þá peninga inn í svikamylluna. Ósvífnin var algjör og brotaviljinn réð för. Ég er hræddur um að það eigi eftir að reynast dýrt spaug að dunda sér svona lengi í lagaflækjunum áður en til aðgerða kom. Ef lögin voru að þvælast fyrir mönnum átti bara að setja neyðarlög, með svipuðum ákvæðum til neyðaraðgera og í bresku hryðjuverkalögunum. Það voru sett ýmis neyðarlög á dögum hrunsins. En því miður engin til að taka á glæpamönnunum sjálfum.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 17:33

10 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Varðandi þessi lög sem þú segir að hafi verið samþykkt í vor, þá veit ég ekkert um þau, enda ekki á alþingi. Hafi eitthvað verið samþykkt varðandi kyrrsetningu þá er ekki búið að birta það á netinu ennþá.

En í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 frá 12. júní 2008 eru líka ákvæði um kyrrsetningu eigna vegna sakarkostnaðar og upptöku ávinngs af broti.

Það hefur ekkert skort lagaheimildir til að taka á þessum bankaránum, það eina sem hefur skort er framtakssemi yfirvalda.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 17:46

11 Smámynd: Landfari

Ég segi nú bara Jon minn að það er auðveldara um að tala en í að komast.

Landfari, 11.5.2010 kl. 20:49

12 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Landfari. Já, við getum sagt svo margt. Ég verð nú til dæmis að segja að mér finnst það alveg sérlega skondið að þeir Kaupþingsmenn hafa, skv. þeim gögnum sem lögð voru fyrir héraðsdóm og hæstarétt, verið svo ósvífnir að taka meira að segja 80 milljarða neyðarlán frá Seðlabankanum sem þeir fengu á hrundögunum í sept-okt 2008 og stinga þeim peningum í eigin vasa og vina sinna. Ég skil ekki hvað það er búið að taka langan tíma fyrir yfirvöld að átta sig á þessu. Bankinn var tekinn yfir af ríkinu í okt. 2008 og það er búið að taka eitt og hálft ár að sjá hvað varð um síðasta lánið úr Seðlabankanum. Eru það forsvaranleg vinnubrögð yfirvalda?

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 20:58

13 Smámynd: Landfari

Auðvitað erum við sammála um að æskilegt hefði verið að gera þetta hraðar en raunin er. Ég prísa mig nú samt sælan fyrir hana Evu því án hennar væri Sérstakur sennilega bara með ritara sér til aðstoðar.

Ég held að það hafi enginn áttað sig á því í upphafi hversu gríðarlega umsvifamikið mál þetta er fyrir utan hana.

Nú á að fjölga enn starfsmönnum við embættið og er það vel því það er deginum ljósara að það verður að skoða þetta allt ofan í kjölinn.

Þess vegna er það ekki gott mál stundum þegar tekst að koma á nauðasamningum í stað þess að láta fyrirtækin rúlla því þá eru ekki utanaðkomandi fengnir til að skoða pappíra sem í sumum tilfellum eru vafasamir.

Landfari, 11.5.2010 kl. 21:28

14 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ég er alveg sammála þér í þessu. Verstu mistökin voru að láta bankana ekki rúlla strax, þeir fóru hvort eð er alveg á hausinn. Það voru líka mistök að ríkið tók að sér að tryggja allar innistæður á bankareikningum þegar þær höfðu tapast að fullu. Það tap eitt og sér var reyndar góð ástæða til að stinga öllum helstu eigendum og stjórnendum bankanna í gæsluvarðhald sama dag og neyðarlög voru sett til að taka yfir þessar töpuðu innistæður. Þannig að þetta hefur svo sem allt legið fyrir í meginatriðum frá októberbyrjun 2008. En óneitanlega hefur bíræfni ræningjanna verið mikil og enn meiri en bölsýnustu menn létu sér detta í hug. En hitt sem allt hefur lengið legið ljóst fyrir er margföld ástæða til að stinga þessum mönnum inn fyrir löngu síðan.

Jón Pétur Líndal, 11.5.2010 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband