Ég skal sjá um að öllum málum fyrir Landsdómi verði vísað frá dóminum.
13.4.2010 | 12:35
Það er nú ljóta ruglið umræðan um að kalla Landsdóm saman til að rétta yfir fv. ráðherrum. Þetta er svo fáránleg hugmynd og vitlaus að ég hugsa að ég gæti, ólöglærður og vitlaus úti í bæ, einn og hjálparlaust fengið öllum ákærum á þessa menn fyrir Landsdómi vísað frá fengi ég að taka að mér vörn þeirra eins og málið stendur núna.
Málið er nefnilega að það hefur enginn glæpur verið framinn af einum eða neinum í bönkunum og útrásinni ef litið er til útgefinna ákæra, stöðu rannsókna og handtekinna manna grunaðra um afbrot. Þess vegna er það alveg augljóst að þetta hrun stafar bara af einhverjum óviðráðanlegum ástæðum sem engan er hægt að dæma fyrir. Þetta gerðist bara, afþvíbara.
Ef það er hins vegar hægt að sýna fram á að ráðherrar og eftirlitsstofnanir hafi ekki staðið sig í stykkinu að verjast glæpsamlegu athæfi eigenda og stjórnenda bankanna þá er hægt að fara að tala um Landsdóm. En á meðan allir bankamennirnir ganga lausir og teljast saklausir hefur einfaldlega enginn glæpur verið framinn. Raunar bendir það hve ríkisstjórnin er áhyggulaus yfir hlut eigenda og stjórnenda bankanna í hruninu til að hugsanlega megi ákæra t.d. seðlabankastjóra fyrir að hafa gengið of langt í aðfinnslum við bankana frekar en hitt að hann hafi sýnt vanrækslu.
Fyrst verður sem sagt að handtaka bankaforkólfana og draga þá fyrir dóm. Það er ekki fyrr en þeir hafa verið sakfelldir sem ljóst er að afbrot hafi verið framin. Og það er ekki fyrr en ljóst er að afbrot hafi verið framin sem það hefur einhvern tilgang að kalla saman Landsdóm til að fjalla um hugsanlegan þátt eða ábyrgð ráðherra vegna þessara afbrota eða afleiðinga þeirra.
Þannig að ég endurtek bara það sem ég sagði í gær, nú þurfa handtökuskipanir að fara út í dag og á morgun á hendur bankaræningjunum. Þegar búið er að draga þá fyrir dóm má athuga með Landsdóm.
Fimmtán eiga sæti í landsdómi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.