Reyndu þá að gera eitthvað eða segðu af þér annars.

Þú virðist alveg skilja þokkalega hvað hefur gerst hér miðað við umsögn þína um rannsóknarskýrsluna. En það gerir lítið gagn núna að rífa bara kjaft út af þessu. Við vitum öll að þú ert góður í að rífa kjaft. En við bíðum enn eftir að sjá að þú getir gert eitthvað gagn fyrir þjóðina. Reyndu nú að sjá til þess að þeir sem rændu þjóðina verði settir í varðhald og málin rannsökuð almennilega. Af hverju ertu búinn að vera að hlífa þessum mönnum svona lengi? Af hverju ganga þeir allir lausir enn? Af hverju ertu að hjálpa þeim að endurreisa banka og bjarga fyrirtækjunum þeirra. Af hverju ertu að reyna að sníkja erlend lán inn í þjóðfélagið, er það til að þeir geti stolið þeim peningum líka í endurreisninni?

Dómsmálaráðherra hvatti þjóðina í gær og fyrradag til að halda ró sinni þegar skýrslan yrði opnuð. Nú er búið að því. Ég er sammála dómsmálaráðherra og hvet þjóðina til að halda ró sinni í nokkra daga svo þið getið gefið út handtökuskipanirnar í friði. Og ef þið gerið það og hefjið almennilega tiltekt í málunum vona ég að þjóðin haldi ró sinni lengur. Það er alveg hægt að halda ró í vondri aðstöðu, jafnvel eftir ótrúleg svik, vanrækslu og aumingjaskap, ef yfirvöld sýna að þau séu í raun að taka á málunum. Eina leiðin til að sýna að það sé verið að því er að handtaka meinta bankaræningja, setja þá í varðhald og rannska málin, fara svo með þau fyrir dóm og kveða upp úrskurði og ákvarða refsingar þar sem þær eiga við.

Ef ekki er gengið í þetta veit enginn hvað gerist í þessu þjóðfélagi. Það er ekki hægt að búa við svona aðgerðaleysi stjórnvalda í svona mikilvægu máli. Þið getið ekki vænst þess að fólk haldi lengi ró sinni ef þið ætlið ekki að gera neitt sjálf. Ef þið viljið fá eitthvað frá þjóðinni verðið þið að gefa eitthvað á móti.

Af hverju gerist ekkert hjá lögregluyfirvöldum, dómsmálaráðuneyti, saksóknurum, sérstökum saksóknurum og dómstólum. Geta þessir aðilar ekki hafið rannsóknir, gefið út handtökuheimildir og að öðru leyti unnið sín störf varðandi þessi bankarán? Ef eitthvað vantar uppá það ættuð þið að setja smá neyðarlög í hvelli til að þetta fólk geti farið að vinna vinnuna sína.


mbl.is „Rán var það og rán skal það heita“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef við förum ekki að fara að sjá handtökur mjög fljótlega verður allt brjálað.

Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 12.4.2010 kl. 20:03

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

SJS. Eini maðurinn sem hefur stöðu til að ganga uppréttur af stjórnmálaforingunum sem stóðu vaktina í aðdraganda hrunsins.

Og þetta er þriðja bloggið þar sem reynt er að gera lítið úr honum.

Mikið óskaplega er sannleikurinn sár fyrir aftaníossa vesalinganna sem brugðust alltaf þegar á þá reyndi.

Næst verður líklega heimtað að hann verði sóttur til saka fyrir að hafa ekki verið sami hálfvitinn og hinir.

Er það ekki bara málið?

Árni Gunnarsson, 12.4.2010 kl. 21:18

3 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Árni og takk fyrir athugasemdina. Ég er dálítið spældur yfir hvað þú ert sár yfir gagnrýni á SJS. Ég var sjálfur hæstánægður með að VG fóru í ríkisstjórn því þetta var eini flokkurinn sem ég taldi að væri það lítt tengdur spillingunni að vænta mætti skynsamlegra aðgerða frá honum. Og Steingrím þekki ég sjálfur lítillega frá fyrri tíð og hef alltaf kunnað vel við hann. En ég er að sama skapi skelfilega vonsvikinn með að hann tekur á þessum máli með nákvæmlega sama hætti og hinir stjórnmálaforingjarnir, hann gerir ekki neitt. Það get ég bara ekki skilið. En hann getur vissulega með réttu sagt að hann hafi oft og lengi varað við því hvert stefndi. Hann getur alveg gengið uppréttur þess vegna. En eins og hann mat stöðuna rétt hér áður fyrr þá metur hann hana kolvitlaust núna. Hann hefur tækifæri til að halda áfram að vera réttsýnn og taka á málum þar að auki. Það verður hann bara að gera. Á meðan það kemst ekki í gang hjá honum verð ég bara að gagnrýna hann harkalega. Menn sem hafa stöðu til að láta til sín taka nú geta ekki leyft sér að láta duga að segja að þeir hafi haft rétt fyrir sér fyrir nokkrum árum síðan.

Jón Pétur Líndal, 12.4.2010 kl. 22:49

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hverjir skipuðu í stjórnir nýju bankanna og í skilanefndir gömlu bankanna, var Steingrímur J. eitthvað viðriðinn þá vinnu?

Er það ekki dáítið langsótt að álasa Steingrími fyrir þau augljósu embættisglöp að tryggja beinlínis þegar á fyrstu dögum eftir hrun að öll rannsóknarvinna yrði torvelduð eins og mögulegt væri?

Ég játa hinsvegar að mér hefði þótt ástæða til að þegar vinstri stjórnin tók við hefði þa verið hennar fyrsta verk að gera ráðstafanir til að skipa nýtt fólk. En til þess þurfti miklar sviptingar sem ekkert ráðuneyti gat haft lagt hönd að nema dómsmálaráðuneytið.

En ég skil ekki um hvaða vinnubrögð Steingríms þú ert að tala. Þetta er dagurinn sem skýrslan birtist. Og hvað gerir átti ríkisstjórnin að gera í dag?

En ef þú ert að tala um stjórnsýsluvinnu Steingríms og verk hans eða vanburði við að taka ákvarðanir um endurreisn samfélagsins þá hafa margir verið hógværari í umræðunni þeirri en ég.

En ég vil ekki samþykkja að Steingrímur sé á neinn hátt tengdur þeirri ógnarspillingu sem við sáum og heyrðum sögur af í dag. Og í rauninni finnst mér gott að fá það staðfest að V.g. er sá eini af fjórflokknum þar sem enginn flokksmaður var nefndur í hópi þjófanna.

Mikil býsn og fádæmi er að hugsa til þess að hafa í dag upplifað vitneskju um að hér hefur verið stolið þúsundum milljarða frá þjóðinni af mönnum sem höfðu náð eða tekið sér stöðu virðingarfólks í íslensku samfélagi.

En reynast hafa verið ómerkilegir þjófar. Unnu saman í vel skipulögðum þjófagengjum! 

Árni Gunnarsson, 12.4.2010 kl. 23:26

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Steingrímur sagði stuttu áður en hann varð ráðherra að það ætti jafnvel að handataka menn og frysta eignir á meðan mál yrðu rannsökuð. Það hefur hann svikist um að láta gera á hverjum einasta degi síðan hann varð ráðherra. Það voru fleiri á sömu skoðun fyrir síðustu kosningar. En af þeim sem höfðu hæst um þessa skoðun er Steingrímur sá eini sem komst í þá aðstöðu að standa við þessar yfirlýsingar. Það hefur hann ekki gert og það er mér algjörlega óskiljanlegt. Það tel ég vera hans helstu embættisglöp.

Hann er að hjálpa þjófagenginu með því að hann lítur undan og segir það ekki sitt mál hvernig sé að endurreisn bankanna staðið. Þó er það allt á ábyrgð fjármálaráðuneytisins að því leytinu til að það hefur fyrir hönd ríkisins þurft að bakka upp endurreisnina með tugmilljarða framlögum. Þess vegna getur Steingrímur ekki litið svona undan. Hann lætur eins og honum komi t.d. ekki við hverjir taka við Högum og fá tugmilljarða afskriftir þar eins og fyrirhugað er þegar ríkið tryggir þó að bankinn fái nægt fé til að hægt sé að afskrifa þessa milljarða í Högum. Hann hefur ekki komið því til leiðar samhliða því að tryggja bönkunum endurreisnarfé úr ríkissjóði að endurreisnin sé fyrir opnum tjöldum svo menn sjái hverjir eignist bankana út á þessa ríkisaðstoð. Hann leyfir þannig glæpagenginu að eignast bankana aftur án þess að nokkur þurfi að sjá það svart á hvítu.

Þess vegna segi ég að hann sé að hjálpa þessum mönnum að endurreisa banka og bjarga fyrirtækjum sínum.

Þó skýrslan hafi verið að birtast í dag þá er fátt nýtt í henni. Hún er bara eins og púsluspil sem er búið að raða saman. Mjög margir hafa séð heildarmyndina í meginatriðum, þar á meðal bæði ég og Steingrímur að ég tel, þó öllu púsluspilinu hafi ekki verið raðað svona vel saman áður. En við erum nú þegar frá hruni og fram á þennan dag búin að sjá um 4-500 púsl sem á stendur, svik, prettir, þjófnaður, misnotkun o.fl. í þeim dúr. Það er búið að vera undantekning frá hruni að ekki hafi komið fram upplýsingar um a.m.k. eitt nýtt ótrúlegt mál úr þessu bankakerfi okkar og útrásinni á hverjum einasta degi frá bankahruni. Þannig höfum við séð þessa heildarmynd þó nokkra þætti hafi vantað í hana. Þetta var strax orðið greinilegt munstur áður en Steingrímur varð ráðherra og hann hafði alveg rétt fyrir sér þegar hann sagði fyrst að það kæmi til álita að setja menn í varðhald og frysta eignir. Að sama skapi hefur hann haft rangt fyrir sér á hverjum degi sem hefur liðið frá því hann varð ráðherra og hóf að gera ekki neitt með þessa gömlu staðhæfingu sína.

Hér að neðan er t.d. linkur á það sem fram kom á fundi með Steingrími strax 2008. Sá Steingrímur var maðurinn sem ég vildi sjá í ríkisstjórn. Hann vildi t.d. bæta í neyðarlögin ákvæði til að tryggja að strax væri hægt að frysta eignir auðmanna á meðan mál bíða rannsóknar. Af hverju er hann ekki enn búinn að gera þetta strax? Allar þessar eignir sem hann ætlaði að ná þá, eru komnar langt í burtu núna.

http://www.austurglugginn.is/index.php/20081118873/Landid/Ymislegt/Steingrimur_segir_thjodina_ekki_rada_vid_skuldbindingar_vegna_IMF_og_Icesave

Ég er alveg sammála þér um þá skoðun sem þú hefur á þessu fólki sem þú kallar þjófagengi og ræningja. Þetta erum við í raun búin að vita nokkuð lengi núna þó erfitt hafi verið að trúa því að svona margir hafi verið svona spilltir grísir eins og raun ber vitni. En nú höfum við það svart á hvítu að þessi útrásar og bankastarfsemi var svo ótrúleg svikamylla að þeir sem hafa verið neikvæðastir hafa ekki einu sinni verið nógu neikvæðir til að lýsa þessu rétt.

En ég er ferlega spældur yfir því að Steingrímur stendur aldrei við stóru orðin. Hann sagði síðast í dag "Rán var það og rán skal það heita". Nú fullyrðir hann sem rétt er að þetta hafi verið rán. Getur hann sem fjármálaráðherra þjóðarinnar sitjandi með sveittan skallann við að taka á sig skuldbindingar út af þessu ráni, látið hjá líða að stinga ræningjunum inn og frysta þær eignir sem enn finnast? Verður hann ekki að láta taka á þessum mönnum og reyna að fá eitthvað upp í skaðann? Eða er hann bara að rífa kjaft einu sinni enn?

Jón Pétur Líndal, 13.4.2010 kl. 01:17

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Æi, það er auðvitað allt of mikið til í þessu hjá þér. Það er bara andskotans þöggun og ræfildómur orðin landplága á Íslandi.

Það átti að taka til óspilltra málanna og hreinsa allt draslið út úr þessum skúringadeildum gömlu bankanna.

Líklega erástandið bara svo slæmt að eina leiðin til að smíða hér nýtt umhverfi með siðrænum leikreglum er að skipta út öllum pólitíkum með reynslu.

Reynsla= yfirhylming- spilling, samsekt.

Síðan kjarkleysið og verkkvíðinn sem kallast eitthvað annað.

Árni Gunnarsson, 13.4.2010 kl. 09:18

7 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Árni. Já, ég óttast nefnilega að það sé allt of mikið til í þessu. Því er nú fjandans verr. Við í Lýðræðishreyfingunni vorum nú með hugmyndir um beint lýðræði. Það var hugsað til þess að þjóðin geti haldið mönnum á tánum og bókstaflega fjarstýrt stjórnmálamönnum þegar þeir reyna alltaf af gera eitthvað annað en þeir ætluðu fyrir kosningar. Og þegar þeir finna alltaf afsökun fyrir því að gera annað en það sem rétt er á hverjum tíma.

Ég veit alveg að beint lýðræði er ekki fullkomin aðferð við að stjórna þjóðfélagi frekar en aðrar aðferðir. En í núverandi stöðu er þetta allavega það skásta sem ég sé í stöðunni.

Jón Pétur Líndal, 13.4.2010 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband