Mannkynið er í þróun, nema á vissum stöðum á Íslandi.

Opin umræða um Icesave skilar árangri segir Ögmundur. Það er alveg rétt hjá honum.
En svo hefði ekki endilega verið væru stjórnvöld starfi sínu vaxin. Þá þyrfti ekki opna og almenna umræðu til að sjá fram á við.

Hér virðist stjórnvöld alveg skorta tvennt sem öllu skiptir núna.

Eitt er yfirsýn. Af því að stjórnvöld hafa ekki yfirsýn og skilning á því sem er að gerast og hvernig það snertir fólk í landinu núna og hvaða þýðingu þetta hrun hefur fyrir framtíðina þá eru þau jafnvel ekki einu sinni að vinna í þeim málum sem mestu skipta, eða gera tóma vitleysu í því sem þau vinna að. Þar má nefna að það þarf að gjörbreyta regluverki fjármálakerfisins, það er lítið eða ekkert gert í því, en ómældum fjárhæðum sóað í að endurreisa gamla bankakerfið. Rétt eins og þau haldi að þau gætu fengið dauða belju til að mjólka ef þau troða hana út af heyi.
Þau skilja ekkert í Icesave, þess vegna var gamla samninganefndin bara að bulla eitthvað og sú nýja hefur ekki enn fengið markvissa stefnu að fara eftir.
Það er ekkert gert til að endurheimta fé sem eigendur og stjórnendur bankanna létu hverfa úr bönkunum. Það er fádæma skortur á yfirsýn að hafa ekki enn fattað að þetta geti skipt miklu máli.
Svo er það lánasýkin í Steingrími og Jóhönnu sem endanlega gefur þeim falleinkunn varðandi yfirsýnina. Að stjórnvöld skuli enn trúa, eftir allt sem á undan er gengið að hægt sé að leysa málin með nýjum lánum, er kostulegt. Ég er svo sem búinn að tala um þetta í heilt ár, að það þýði ekki að taka ný lán hjá AGS eða öðrum. Því ef ekki er hægt að borga gömlu lánin, þá er ekkert frekar hægt að borga ný lán. Nú síðast í dag kom greindur maður fram í Silfri Egils og fór vel í gegn um þetta. En svo mikill er skortur forystumanna okkar á yfirsýn yfir málefnin sem þau eru að fást við að þau skilja þetta ekki ennþá.

Annað sem stjórnina skortir algerlega er frumkvæði.
Þegar allt okkar efnahagskerfi hefur hrunið til grunna er augljóst að eitthvað mikið hefur verið að. Samt er notuð gríðarleg orka og peningar í að endurreisa þetta hrunda kerfi í lítt breyttri mynd, án þess að nokkuð frumkvæði sé í þá átt að hanna nýjar undirstöður undir bankana. En frumkvæði að slíku hlýtur að þurfa að koma frá stjórnvöldum áður en þau geta fallist á ómæld útgjöld í að gera aðra tilraun með bankakerfið. Þar hefur bara verið hamrað á að endurvekja traust. Það er alveg gagnslaust ef sömu aðilar hafa ekkert frumkvæði að því að styrkja regluverkið, eftirlitið og umgjörðina í heild. Og menn þurfa að hafa þor til að hafa frumkvæði að allt annarri útfærslu á bankakerfi en almennt tíðkast í heiminum í dag. Þá er ekkert hugað að hagræðingu, samruna og bankaþörfum þjóðarinnar. Þarna skortir allt frumkvæði.

Sama er með Icesave. Okkar menn hafa ekkert frumkvæði þar. Í því máli hefur bara verið reynt að þóknast Hollendingum og Bretum með því að troða upp á þjóðina þeirra kröfum. Það hefur ekkert verið gert til að koma inn í samningana því sem er mikilvægast, að þjóðirnar standi saman að því að endurheimta féð sem tapaðist. Að sækja það til þeirra sem tóku að sér að geyma það og ávaxta. Þarna vantar allt frumkvæði.

Það er eins með það sem að almenningi snýr. Hann er bara látinn bíða og bíða eftir að einhverjum detti eitthvað annað í hug en að láta fólk bíða. En það vantar allt frumkvæði og því dettur engum í stjórnarráðinu neitt í hug annað en að láta almenning bíða áfram. Og þeim dettur heldur ekki í hug að gera neitt með þær tillögur sem almenningur og aðilar úti í bæ eru að setja fram. Þess vegna eykst atvinnuleysi, skuldir rjúka upp, greiðslugetan og viljinn minnkar, ástandið versnar. Þarna vantar allt frumkvæði yfirvalda.

Það er eins og stjórnvöld hér séu hrædd við að skera sig úr, hrædd við frumkvæði og nýjar leiðir út úr óvenjulegum vandamálum. Það er líka eins og þau skorti skilning og yfirsýn. Það er eins og þróun mannsins hafi stöðvast í stjórnarráði Íslands.


mbl.is Umræða um Icesave skilað árangri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband