Skora á ykkur að fjölmenna til Reykjavíkur og banka uppá hjá Steingrími og Jóhönnu.
13.3.2010 | 00:18
Ég legg til að Vestur Húnvetningar og Strandamenn heimsæki höfuðborgina og banki upp á hjá Steingrími og Jóhönnu og komi þeim til að aðhafast gegn þessum gangsterum sem féflettu sparisjóðina og stofnfjáreigendur. Það er svo sem ekki það að Vestur Húnvetningar og Strandamenn séu skuldugri en aðrir Íslendingar þó einhverjir séu að barma sér sérstaklega fyrir þeirra hönd. Það er annað hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu sem skuldar 20-100 milljónir vegna þess að forsendur bankanna hafa brugðist. En það sem sker sig úr hjá Vestur Húnvetningum er að skuldir þeirra eru ekki vegna fasteignakaupa. Þeir voru ekki svo vitlausir að láta plata sig í þeim, enda engin hefð fyrir gróða af fasteignaviðskiptum á því svæði í manna minnum. Nei, skuldir þeirra eru vegna bankakaupa, þeir voru svo vitlausir að taka kúlulán til að kaupa hlutabréf. Það er auðvitað skömminni skárra að hafa einhverja fasteign, sem má allavega nota sem kamar, á móti skuldum heldur en bara nokkur blöð af klósettpappír, þó það standi "Hlutabréf" á honum.
En í meginatriðum er vandamálið það sama. Útrásarvíkingar og bankaforkólfar plötuðu landsmenn upp úr skónum. Í Vestur Húnavatnssýslu og á Ströndum var ekki hægt að gera það með fasteignabólu, þannig að þar var beitt bankabólu til að féfletta fólk.
Og eftirleikurinn er líka sá sami. Þessar skuldir hafa allar verið færðar inn í Kaupþing og hina bankana fyrir 35-50% af nafnvirði. Samt þarf að borga þær að fullu til baka og með fullum verðbótum og vöxtum á nafnverð. Það svarar til þess að bankarnir séu að fá ca. 40-60% ársávöxtun á þessar kröfur og að auki höfuðstólinn tví- eða þrígreiddan m.v. yfirtökuverð lánanna. Góður bisniss það.
Það væri gaman að Strandamenn og Húnvetningar og aðrir landsmenn bönkuðu uppá hjá ríkisstjórninni og í bönkunum og ræddu þetta í heild sinni við þetta lið sem ræður ferðinni í þessu hjá okkur. Ekki ætla ég að vorkenna þeim þó þau fái ekki vinnufrið til fleiri óhæfuverka.
Húnvetningar í skuldafeni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mammon bankaði uppá hjá þessu fólki með gylliboð. Hlutabréf sem áttu bara að hækka og hækka, og fólkið gleypti við þessu, en áttaði sig ekki á að þetta voru nokkurskonar keðjubréf. Þegar einn kippti að sér höndum, hrundi allt.
Var það ekki fólkið sjálft sem keypti þessi bréf'
hefði það verið að væla ef það hefði grætt?
Verða menn ekki að taka afleiðingum gjörða sinna?
Græðgin er slæmur félagi.
Sveinn Elías Hansson, 13.3.2010 kl. 01:25
Sæll. Jú, þetta er alveg rétt hjá þér, græðgin varð þeim að falli. En samt eru þetta nú tiltölulega trúgjarnir og saklausir sveitamenn líka. Það var auðvelt að plata þá. Fyrir vikið fer héraðið að stórum hluta til einhverra lánardrottna sem fáir vita hverjir eru, upp í skuldirnar. En ég vil nú hvetja þá til að rísa upp og mótmæla því að gangsterarnir sem plötuðu þá sleppi billega frá þessu meðan sveitamennirnir missa allt sitt eða þurfa að bæta enn í þrældóminn til að þrauka áfram. Ég er hræddur um að þeir sitji skömmustulegir heima yfir eigin hálfvitagangi. Það er óþarfi að útrásarliðið græði líka á því.
Jón Pétur Líndal, 13.3.2010 kl. 01:33
Auðvitað eiga þessir aðilar að verja sig ekki sitja heima með volæði.
Sigurður Haraldsson, 15.3.2010 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.