Langbest að fara bara í nauðasamning strax.
11.3.2010 | 13:18
Ég er ánægður með þessa afstöðu Hollendingsins. Ég er á móti lánum frá AGS og ég vil ekki ganga í ESB.
Við verðum að vinna okkur út úr vandanum án þess að taka ný lán, það er eina mögulega leiðin í stöðunni. Ef það þýðir að við getum ekki borgað það sem við skuldum núna þá þarf bara að semja um það strax, hvort sem það verða afskriftir eða greiðsluaðlögun eins og ríkisstjórnin kallar það. Ef við getum ekki borgað það sem við skuldum núna þá getum við enn síður borgað af nýjum lánum frá AGS. Þannig að þau leysa engan vanda. Og með því að fást bara við það sem við skuldum núna án þess að taka ný lán til að borga þau gömlu þá stillum við líka núverandi lánardrottnum upp við vegg þannig að þeir verða bara að sættast á það sem hægt er að ráða við og þýðir ekki að prútta um eitthvað annað. Hvað er að því?
Ef þetta þýðir að gengið fellur, þá er það líka gott, því það styrkir samkeppnisstöðu atvinnulífsins, eykur gjaldeyristekjur og dregur úr atvinnuleysi.
Og það er enginn hagur í því fyrir lánardrottnana að gengið falli, því þá vita þeir að það verður erfiðara að fá lánin endurgreidd, þegar þau hækka vegna gengisbreytinga. Þannig að þeim verður umhugað um að gengið verði stöðugt.
Ef þetta þýðir að ríkisstjórnin falli, þá er það gott því engin leið virðist vera að losna við hana.
Ég get því ekki séð að það sé neitt að óttast, nema óttann sjálfan og aumingjaskap ráðamanna þjóðarinnar.
Og þessi ESB löngun sumra, grasið er grænna í ESB hugsunin, er óskiljanlegt bull. Ég kannast við fullt af útlendingum frá Póllandi, Lettlandi og Litháen sem vilja miklu fremur vera hér í því ástandi sem er hér núna en að flytja aftur heim til föðurlandsins. Samt eru öll þessi lönd í ESB. Og mér finnst undarlega mikið af þeim Íslendingum sem hafa flutt til ESB landa hafa ákveðið að búa þar einungis um skamman tíma og koma svo hingað aftur. Einhverra hluta vegna gerist þetta aftur og aftur. Og ekki er það veðurblíðan sem dregur fólk til landsins aftur. Það er eitthvað annað. Þannig að ég skil ekki þessa ESB stefnu. Enda koma aldrei nein haldbær rök fyrir inngöngu í ESB. Þar hefur í flestum löndum verið viðvarandi atvinnuleysi sem er miklu hærra en hér í kreppunni þegar það er verra en nokkru sinni. Þar er matarreikningurinn hærra hlutfall af tekjum íbúa flestra landanna en hér. Þar er löng hefð fyrir mikilli misskiptingu auðs, sem er tiltölulega nýtt hér, þar standa öll lönd í stríðsrekstri ein eða með öðrum sem hefur ekki þekkst hér um árhundruð þar til við gengum í Nató og fengum hér herstöð. Nú er hún aflögð. ESB hefur ryksugað og eyðlagt flest sín fiskimið. Það vilja þeir gera hér líka. Hvað höfum við í þetta samband að gera. Þetta nýja SÍS sem gín yfir öllu.
Ég er því ánægður með að Hollendingar vilja halda okkur í fjarlægð. Fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott. Óafvitandi eru þeir að gera okkur mikinn greiða sem við munum seint geta þakkað þeim, standi þeir við yfirlýsingarnar.
Hyggjast beita sér gegn samvinnunni við AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.