Ný stefna FL group felldi bankann með Lárus Welding í bankastjórastóli.
Þá er það komið fram. Af hverju ganga þeir allir lausir þessir? Hvað er búið að setja mikið almannfé í að bjarga innistæðum í þessum banka og endurreisa hann. Af hverju ganga þeir allir lausir sem bera ábyrgð á þessu.
Fjárhagstjónið af falli Glitnis og annarra fyrirtækja sem Jón Ásgeir tengist er talið álíka mikið og tjónið í Chile af völdum jarðskálftans um daginn, upp á 8,8 á Richter. Það er kannski erfitt að hemja þau náttúrufyrirbæri sem valda jarðskálftum, þó eru gerðar ákveðnar ráðstafnir á þekktum jarðskjálftasvæðum, fólk fær leiðbeiningar um hvernig það skuli bregðast við þegar skjálftar verða og það er sett upp einhver áætlun um hvernig brugðist er við skjálfta. Reglur um mannvirkjagerð taka mið af að mannvirki geti staðist skjálfta af tiltekinni stærðargráðu o.s.frv. Og eftir skjálfta er brugðist við og reynt að veita öfluga aðstoð og hjálpa þeim sem verða fyrir tjóni í jarðskjálfta.
En hér er tjón þessara örfáu manna sem sagt eins og eftir þennan risaskjálfta í Chile. En það er engu reynt að bjarga nema þeim sem ollu tjóninu. Hér er allt gert öfugt við það sem eðlilegt væri. Efnahagsskemmdarvargarnir ganga lausir, þeim er hjálpað á lappirnar aftur á meðan aðrir eru látnir bíða atvinnulausir og jafnvel sveltandi. Hér virðist vera talið sjálfsagt að auka enn á tjónið með óskiljanlegum aðgerðum ríkisstjórnarinar.
Og í dag nær hálfvitahátturinn á vissan hátt nýjum hæðum. Nú er þjóðin eins og Rómverjar forðum í hringleikahúsinu. Kolrugluð ríkisstjórnin varin í stúku sinni er búin að ákveða að sleppa ljónunum upp á áhorfendapallana og leyfa þeim að éta þjóðina sem horfir á leikana. En þjóðin sagði ríkisstjórninni að hún vildi ekki fá ljónin upp á pallana til að éta sig. Til að leysa deiluna var ákveðið að þjóðin skyldi kjósa um hvort ljónin mættu koma og éta hana. Og í dag fara þessar kosningar fram. Auðvitað segir þjóðin nei, við viljum ekki láta ljónin éta okkur. En það leysir ekki allan vanda. Eitursnákar og kyrkislöngur og krókódílar og reiðir fílar og háhyrningar eru úti um allt á pöllunum. Þeir eru búnir að éta marga og eyðileggja margt. En ríkisstjórnin lætur eins og þetta séu saklaus gæludýr og fóðrar kvikindin úr lófa sér með almenningi á pöllunum. Hún skilur greinilega ekki að þessi kvikindi eiga eftir að éta ríkisstjórnina og þjóðina með húð og hári ef heldur fram sem horfir.
Ríkisstjórnin minnir reyndar helst á uppvakninga eða vampírur sem þola hvorki silfur né krossa. Forystumenn hennar ætla allavega ekki að mæta á kjörstað til að setja kross á atkvæðaseðil í dag. Það er eins og í því felist einhvern óhugnaður fyrir þau. Þau sjást líka lítið í Silfri Egils en eru mikið gagnrýnd þar. Silfrið virðist stundum vera önnur ógn við þau. Og það eru greinilega einhver myrk öfl sem stjórna þessari ríkisstjórn. Því hún hefur margsinnis haft hamskipti og skoðanasnúning á hinum ýmsu ófarnaðarmálum.
Þetta mál sem kosið er um í dag er síðasta sönnun þess. Steingrímur vildi áður en hann komst í ríkisstjórn koma öllum rándýrunum í búr svo hægt væri að verja þjóðina fyrir þeim. Hann ætlaði ekki að láta þjóðinni blæða meira út af þessum rándýrum en þá var orðið. Þegar hann komst svo í ríkisstjórn passaði hann að öll rándýrin fengju að ganga laus og héldu áfram að murka lífið úr þjóðinni. Hann er náttúruverndarmaður og það kemur rándýrunum til góða. Hann hefur verið duglegur að veita þeim aðstoð á allan hátt svo þau geti brýnt tennur og klær og haldið til veiða á ný. Þegar að Icesave uppgjöri kom í þinginu var það forgangsatriði hjá Steingrími að málið gengi hratt í gegn, no matter what, eins og sagt er. Engu skiptu skuldaklyfjarnar sem frumvörpum hans um þetta mál fylgdu. Það var bara sagt, við getum alveg borgað 100% af landsframleiðslu, svo var sagt við getum alveg borgað 140% af landsframleiðslu, svo var sagt við getum alveg borgað 200% og 300% og jafnvel hátt í 400%. Alltaf treysti Steingrímur sér til að bæta meiri skuldum á þjóðina. Á sama tíma er hann að hækka skuldir ríkisins um milljarð á hverjum vinnudegi, bara út af hallrekstri á ríkissjóði.
Þetta er allt svo mikill fáránleiki.
Og undanfarna daga hafa vampírurnar unnið ötullega að því að telja sjálfum sér og þjóðinni trú um að vampíruríkisstjórnin skaðist ekki þó þjóðin berji á henni í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og reki hana til baka í bili með krossmörkum sínum á kjörseðlana. Ástandið er að verða eins og barátta á milli góðs og ills, milli rándýranna og vampýruríkisstjórnarinnar annars vegar og almennings hins vegar.
Það hefur aldrei áður í íslensku stjórnarfari verið gripið til eins öflugra mótmæla við nokkra ríkisstjórn í landinu eins og í dag, þegar þjóðin mætir á kjörstaði til að fella lög sem ríkisstjórnin lagði fram og stjórnarflokkarnir samþykktu á þingi. Hvernig er hægt að lýsa vantrausti betur á nokkra ríkisstjórn? Allar ríkisstjórnir á Íslandi sem hafa fallið hingað til áður en að reglubundnum kjördegi var komið, féllu af minni ástæðum en þessi stjórn hefur núna til að viðurkenna ósigra sína og mistök. Auðvitað á ríkisstjórnin að skakklappast til Bessastaða í fyrramálið og tilkynna afsögn sína. Og svo á að kjósa aftur í maí, þá eru hvort eð er almennar kosningar í landinu og hægt um vik og hentugt að nota það tækifæri til að reyna einu sinni enn að finna eitthvað brúklegt fólk á Alþingi.
Ný stefna felldi Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.