Í tilefni af því að eitt ár er frá birtingu greiningar minnar á íslenska ráninu.

Ég stalst inn á Silfur Egils (Helgasonar) á eyjunni.is og sótti þangað pistil um Enron og íslensku útrásina sem ég sendi honum og hann var svo vinsamlegur að birta á vefsvæði sínu.

Í tilefni af því að eitt ár og einn dagur er frá því að þetta birtist og að í dag sóttu nokkrir útrásarvíkingar og stórskuldarar fyrirtæki sín úr skuldahreinsun ríkisstjórnarinnar og forkólfa fjármálalífsins á Íslandi þá ákvað ég að birta þetta hér aftur. Þetta er ágæt upprifjun. Það sem er skrifað "virðist" í þessum pistli má í dag lesa sem var eða er. Að öðru leyti er þetta ógnvekjandi satt. Og það sem verra er, á þessu ári hefur ekkert breyst, nema að aukið hefur verið við svínaríið.

03.03 2009 - 42 ummæli »
Enron, Enn Rán

Jón P. Líndal sendi þessa athyglisverðu samantekt.

— — —

Til alþingismanna.

ENRON – ENN RÁN.

Eftir að horfa á fróðlegan þátt um uppgang og fall bandaríska orkufyrirtækisins ENRON um s.l. helgi skilur maður enn síður en áður aðgerðir og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda eftir útrásar- og bankahrunið hér. Þetta segi ég nú vegna þess að ENRON hrunið og íslenska útrásar- og bankaævintýrið virðast vera náskyld fyrirbæri, nánast eins og eineggja tvíburar. Við nánari skoðun virðast eftirtalin gen líka vera þau sömu í báðum fyrirbærum.

1. ENRON fór í útrás vítt um heiminn allt til Indlands. Íslenska ævintýrið fór líka í útrás vítt um Evrópu og til fleiri landa.
2. ENRON stækkaði langtum hraðar en önnur fyrirtæki í sínu umhverfi. Íslenska ævintýrið gerði það líka.
3. Stjórnendur ENRON könnuðust ekkert við neitt óeðlilegt í starfsemi fyrirtækisins. Sama með stjórnendur íslenska ævintýrisins.
4. ENRON beitti blekkingum til að hækka gengi hlutabréfa fyrirtækisins. Íslenska ævintýrið líka.
5. ENRON hafði á sínum snærum endurskoðendur sem skrifuðu upp á allt sem lagt var fyrir þá. Svo virðist líka hafa verið hér.
6. ENRON fann upp á alls konar nýungum til að stækka spilapottinn. Íslenska ævintýrið virðist hafa gert það líka.
7. ENRON notaði fjölda gervifyrirtækja og gervigerninga til að hagræða hagnaði og afkomutölum og fela slóðir og peninga. Íslenska ævintýrið virðist hafa gert það líka.
8. ENRON hæddi , rak og rakkaði niður aðila sem leyfðu sér að hafa uppi efasemdir og óþægilegar spurningar um fjárhag fyrirtækisins. Þetta virðist nú hafa gerst hér líka.
9. ENRON stal ævisparnaði margra starfsmanna og óskyldra aðila með aðgerðum sínum. Þetta gerðist líka hér.
10. ENRON féfletti viðskiptavinina með því að neyða upp á þá margföldu verði á orku frá fyrirtækinu. Hér hafa líka verið notaðar svipaðar féflettingar í skjóli fákeppni á markaði.
11. ENRON reiknaði út framtíðarhagnað af ýmsum samningum og nýungum í rekstri fyrirtækisins og greiddi strax út til tiltekinna eigenda hagnað af þessum samningum. Þetta var víst líka gert hér.
12. Helstu eigendur og stjórnendur ENRON greiddu sér himinhá laun og bónusa þó allt væri í raun á hvínandi hausnum. Sama hér.
13. ENRON stýrði stjórnmálamönnum með því ýmist að kúga þá eða styrkja þá. Sama hér.
14. ENRON var skítsama um alla og allt nema að ná til sín öllum þeim peningum sem mögulegt var. Sama hér virðist mér.
15. Stjórnendur og eigendur ENRON lugu blákalt árum saman um það sem þeir voru að gera. Sama hér.
16. ENRON hrundi mjög skyndilega. Sama hér.

Það má halda eitthvað áfram með þessa upptalningu, en fyrir venjulegt fólk er það óþarfi, það skilur eins og 2 plús 2 eru fjórir að ENRON og íslenska banka- og útrásarævintýrið (hér eftir skammstafað ENN RÁN) eru náskyld fyrirbæri. Helsti munurinn að annað fyrirbærið er „Made in USA“, hitt er „Íslensk framleiðsla“.

Það er þó eitt sem skilur á milli. ENRON fjársvikunum lauk með hruni fyrirtækisins fyrir nokkrum árum síðan en Íslenska ENN RÁN hrundi fyrir aðeins fáum mánuðum síðan. Að ýmsu leiti virðist ENN RÁN að sama skapi vera dálítið endurbætt útgáfa af ENRON og koma hér nokkrar staðreyndir því til stuðnings.

1. Við fall ENRON voru helstu eigendur og stjórnendur handteknir og í framhaldinu leiddir fyrir rétt vegna stjórnunarhátta sinna. Í hinu endurbætta ENN RÁN hefur öllum eigendum og stjórnendum tekist að komast hjá þessum leiðindum.
2. ENRON var tiltölulega smátt í sniðum á hlutabréfamarkaði, var einungis eitt fyrirtæki af mörgum á bandarískum hlutabréfamarkaði. Hér var hið endurbætta ENN RÁN nánast allur markaðurinn.
3. ENRON skaðinn náði til aðeins nokkurra tuga milljóna manna í heimalandinu, sem telur um 300 milljónir íbúa. Hið endurbætta ENN RÁN hefur steypt heilli þjóð í fjárhagslega glötun auk tjóns hjá enn fleiri íbúum annarra landa.
4. Það datt engum í hug að vera svo vitlaus að setja meira peninga í ENRON til að endurreisa það eftir hrunið. Hér er lögð megináhersla á að endurreisa hið endurbætta ENN RÁN, að hluta að minnsta kosti, með verulegum fjárframlögum frá skattgreiðendum.
5. Eftir að ENRON hrundi fengu þeir sem helst höfðu gagnrýnt fyrirtækið og verið taldir illkvittnir úrtölumenn, uppreisn æru og viðurkenningu á að þeir höfðu eftir allt saman haft rétt fyrir sér. Hér er enn haldið áfram að kúga menn sem hafa reynt að halda aftur af hinu endurbætta ENN RÁNi.

Ég verð að óska ykkur og sérstaklega ríkisstjórninni til hamingju með þessi einstaklega jákvæðu viðhorf til ENN RÁN. Það væri gaman að vera Íslendingur í dag ef passað væri svona vel upp á hag almennings.

Reykjavík 2. mars 2009.

Jón P. Líndal.


mbl.is Nauðasamningar Bakkavarar samþykktir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband