Frábært hvernig þetta Icesave mál hefur þróast. Mesta þróun í lýðræðismálum Evrópu í langan tíma.

Ég verð að segja að ég er ánægður með hvernig þetta Icesave mál hefur þróast, þó langur tími hafi farið í það.

Nú er þetta orðið að alvarlegri ógn fyrir fjármálakerfi heimsins og spillta stjórnmálamenn. Þetta er ógn við þessa aðila vegna þess að ef þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram er verið að taka upp beint lýðræði í þessu mikilvæga máli. Beint lýðræði er ógn við spillta stjórnmálamenn, því með beinu lýðræði er tekið fram fyrir hendurnar á þeim. Baktjaldmakk spillingaraflanna er þá ekki það eina sem ræður úrslitum mála. Og þess vegna er þetta líka ógn við fjármálakerfi heimsins. En það virðist að verulegu leyti byggja á leynd og tengslum við spillta stjórnmálamenn sem stöðugt gefa út nýjar gerðir veiðileyfa á almenning fyrir þetta fjármálakerfi.

Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur að sjálfsögðu ekkert að segja lengur fyrir Icesave deiluna í sjálfu sér. Þar hafa nú staðið yfir viðræður undanfarið um betri samning en þann sem á að kjósa um. Þess vegna segir það sig sjálft að allir sem eru ekki algjörir fábjánar eins og sumir þingmenn myndu segja, fella þann samning sem nú er kosið um. Það fer enginn heilvita maður að samþykkja mjög vondan samning þegar viðsemjandinn er búinn að lýsa því yfir að hann vilji gera við okkur samning sem er mun skárri en sá sem kjósa á um.

Þjóðaratkvæðagreiðslan getur því bara snúist um tvennt.

Annars vegar er hún mæling á því hve margir íbúar landsins eru fábjánar sem segja já við samningnum sem kosið er um og hve margir eru ekki fjábjánar og segja nei við þessum samningi. Þá kemur í ljós hvort mat ónefnds þingmanns á því hve hátt hlutfall þjóðarinnar sé fábjánar, er rétt eða ekki.

Hins vegar er þjóðaratkvæðagreiðslan staðfesting á því að stjórnmálamenn fari ekki einir með völdin í landinu. Að þjóðin eigi síðasta orðið í mikilvægum málum þegar hún krefst þess. Að hér sé gripið til beins lýðræðis, raunverulegs lýðræðis, þegar mikið liggur við. En gjörspillt fulltrúalýðræðí sé ekki eina stjórnunarformið í landinu.

Og það er þetta síðasta atriði sem nú virðist standa í Bretum. Þeim er meinilla við að einvers staðar skuli það geta gerst í vestrænu samfélagi að íbúar lands fái sjálfir að ráða einhverju sem máli skiptir. Þetta má helst ekki gerast, það gæti verið mjög slæmt fordæmi. Það gæti orðið til þess að spilltir stjórnmálamenn og bankamafíur missi þau heljartök sem þessir aðilar hafa á fjármálakerfi Evrópu og skattgreiðendum og launþegum.
Þetta gæti orðið til þess að íbúar Grikklands verði enn harðari á sínu þegar þeir mótmæla þvi að þurfa að borga fyrir bankasukkið. Þetta gæti meira að segja orðið til þess að íbúar Bretlands rísi einn daginn upp á móti sínum stjórnvöldum og setji þeim stólinn fyrir dyrnar.

Vegna þessa er það nú orðið nauðsynlegt að Icesave kosning fari fram, ekki vegna Icesave málsins, heldur vegna lýðræðisins. Þessi kosning er orðin nauðsynleg til að sýna hvar hið endanlega vald þjóða liggur. Hún er nauðsynleg til að sýna að það er hægt að svara kúgun og yfirgangi með lýðræði. Hún minnir stjórnvöld á hvaðan þau fá valdið.

Ég er nú ekki alveg frá því að eftir allt saman þá hafi Icesave reikningarnir á sínum tíma verið tær snilld, þó með öðrum hætti sé en Sigurjón Þ. Árnason átti að líkindum við þegar hann mælti þessi fleygu orð.

En þrátt fyrir þessa hrifningu mína af þróun málsins og áhrifum þess á þróun lýðræðis o.fl. þá má ekki gleyma því að eðlileg niðurstaða Icesave verður alltaf sú að Bretar verða að fá greiðslur úr þrotabúinu eða hluta þess fyrir Icesave og svo verða yfirvöld Íslands og Bretlands að sameinast um að rekja slóð peninganna, sækja þá peninga sem útrásarvíkingar og glæpamennirnir í bönkunum sólunduðu og stálu. Þetta er hin eina eðlilega niðurstaða Icesave málsins.

En það er afar ánægjuleg hliðarverkun þessa máls að það sé að stuðla að lýðræðisumbótum í Evrópu.

Ég vil sérstaklega þakka InDefense hópnum fyrir að hafa haft frumkvæði að þessari þróun málsins með undirskriftalista sínum. Og minni alla lesendur á að það eru InDefense og almenningur á Íslandi sem hafa komið málinu í þessa ánægjulegu stöðu. Það eru því miður ekki stjórnmálamennirnir, þeir hafa á flestum stigum verið til trafala og vandræða, sérstaklega þó stjórnarflokkarnir. Það er þó lán í óláni að stjórnin er svo vonlaus að hún hefur ekki einu sinni getað snúið á almenning í landinu til að koma sínu fram. Það er alveg nýtt hjá íslenskri ríkisstjórn. Þetta mál sýnir frábærlega hve mikilvægt og gagnlegt beint lýðræði getur verið og hve gallað og spillt fulltrúalýðræðið er.


mbl.is Bretar vilja ræða málin áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Að breskar skattaparadísir séu til er vitnisburður um áhuga Breta á að aðstoða önnur ríki við að ná fram rétti sínum. Þeir hafa lengi þrifist á skattsvikurum annara landa og ætla ekkert að hætta því. Þeir munu aldrei aðstoða okkur við að ná rétti okkar gagnvart þeim sem nýtt hafa breskar skattaparadísir til að hafa fé af íslenskum skattborgurum.

Ég er hinsvegar sammála þér með fulltrúalýðræðið. Það er uppspretta spillingar, gengið sér til húðarog líkist sífellt meira skipulagðri glæpastarfsemi.

Samfélög líkjast náttúrunni og starfa samkvæmt lögmálum hennar.

Stjórnsýslunni er skapaður lagarammi. Það er vaxandi tilhneiging áhrifa- hópa eða manna að nota áhrif sín til að beygja lagabókstafinn að sínum þörfum en ekki samfélagsins. Þannig fer stjórnsýslan að starfa eftir lögum og reglum sem snúast ekki lengur um að gera samfélagið skilvirkt. Því þau lúta ekki lögmálum náttúrunnar.

Samfélög þurfa að þróast eins og lífverur. Þegar sníkjudýr fara að valda eistaklingum innan stofns miklum vanda verður tegundin að bregðast við þeim.

Nú vil ég ekki líkja stjórnsýslunni við sníkjudýr, enda er það umgjörðin sem við sköpum stjórnsýslunni sem skapar vandann. Við þurfum kanski að vanda okkur meira við lagasetninguna.

Skúli Guðbjarnarson, 2.3.2010 kl. 23:15

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Skúli og takk fyrir athugasemdina. Ég er algjörlega sammála þér. Líka um að Bretar halda örugglega fast í peningana í skattaskjólunum. En það væri engu að síður hinn eðlilegi farvegur málsins að þetta sukk yrði allt rakið upp. En ég er ekki endilega að búast við að það verði tekið á þessum hluta málsins með eðlilegum hætti.

Jón Pétur Líndal, 3.3.2010 kl. 01:32

3 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Við áyyum að setja það sem ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir samstarfi við SFO og lausn icesave deilunnar að bretar veittu aðgang að upplýsingum um skattaskjól sín sem aðrir hafa ekki aðgang að, eða leggja þau niður sem slík.

Skúli Guðbjarnarson, 3.3.2010 kl. 07:12

4 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll aftur. Já, það er góð hugmynd. Og það þarf að koma í gang áróðursherferð út af þessu. Auglýsa upp þessa svindlstarfsemi þeirra. Það er mikilvægt að almenningur í öllum löndum geri sér grein fyrir því að svona starfsemi er rekin með vitund og vilja stjórnvalda. Upplýsingar eru góð leið til að ná fram betri stöðu fyrir okkur og til að veita aðhald almennt.

Jón Pétur Líndal, 3.3.2010 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband