Standard & Poor's - Leikvöllur fyrir hagfræðinga?

Lánshæfismatið hjá skuldugum ríkjum verður ekki lagað ef leitað er utanaðkomandi aðstoðar til að koma málum í lag. En það kemst þá væntanlega í lag ef notaðar eru skattahækkanir og niðurskurður eða sala opinberra eigna. Þetta telst ekki til utanaðkomandi aðstoðar.

Það er alveg nýtt að matsfyrirtækin séu farin að skipta sér af því með beinum hætti og hótunum hvaða aðferðir eru notaðar til að koma hlutum í lag. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að stjórnmálamenn ráða engu í heiminum í dag. Nú eru það fjármálaöflin sem öllu ráða, þau eru farin að stjórna ríkjum með harðri hendi ef þetta gengur eftir.

Það er alveg ljóst að ef vestræn ríki ætla nú að fara að þjóna fjármálaöflunum af svo miklum krafti að atvinnuleysi stóraukist og dregið verði úr þjónustu og lífsgæðum íbúanna svo um munar, ásamt aukinni skattpíningu, allt til að setja fé í vasa nokkurra fjármálamanna, þá verður allt vitlaust. Það styttist í að ráðist verði inn í fjármálafyrirtæki og önnur alþjóðafyrirtæki og þau lögð í rúst. Það hefur nefnilega alveg gleymst að þessi félög hafa öll fengið auð sinn frá almenningi, með einkavæðingu á ríkisrekstri, aðgangi að auðlindum, ríkisábyrgðum á taprekstri, alls kyns verndaraðgerðum og fleiru sem stjórnmálamenn kosnir af almenningi hafa verið auðkeyptir til að gera fyrir þessi fyrirtæki. Í stutti máli hefur arðvænlegur rekstur verið einkavæddur, en taprekstur ríkisvæddur. Það er því ekkert til sem heitir að almenningur skuldi þessum fyrirtækjum eitthvað, eða að menn sætti sig við að gerast einhverjir nútíma þrælar á verri kjörum en þeir hafa haft undanfarin ár. Stjórnmálalífið hefur lengi dansað við undirspil fjármálaaflanna. Almenningur mun að lokum sjá til þess að þessir aðilar axli sjálfir ábyrgðina af því balli.

Ég held að besta leiðin út úr vandanum sé að ríkissjóðir vestrænna landa og almenningur í þessum löndum gera það sem er eðlileg afleiðing af of miklum lántökum, borgi það sem hægt er, hinu tapa einfaldlega lánveitendur. Það er lang einfaldast og best að þetta gerist strax, því þetta mun gerast hvort eða er. Að draga þetta á langinn eykur bara ólgu og magnar vandann, rétt eins og er að gerast hérlendis. Stjórnmálamenn virðast þó ekki skilja þetta, enda tekst þeim að skammta sjálfum sér sæmileg laun ennþá, svo þeir eru persónulega stikkfrí frá kreppunni.

Næst besta leiðin er einfaldlega að prenta meiri peninga og verðfella skuldirnar með óðaverðbólgu svo hægt verði að greiða þær. En þá má að sjálfsögu ekki taka upp verðtryggingar, því þá gerir verðbólgan ekkert gagn.

Það eru líka framundan tvær allt annars konar leiðir út úr þessum vanda sem verða farnar ef stjórnmálamenn reynast alveg gagnslausir.

Önnur er beint lýðræði eins og Lýðræðishreyfingin hefur haft á stefnuskrá sinni. Þetta er friðsamleg leið til að koma aftur á lýðræði í lýðræðisríkjum heimsins. Með beinu lýðræði kæmust efnahagsmálin aftur í góða jarðtengingu í flestum ríkjum og viti yrði komið fyrir spillta og vitlausa stjórnmálamenn.

Hin leiðin, sem sjálfsagt verður ofaná víða, er stríðsátök og byltingar. Sú leið verður farin þegar nógu margir íbúar vestrænna ríkja hafa farið nógu illa út úr ráðum matsfyrirtækja og stjórnvalda. Þetta er augljóst í því ljósi að í öllum ríkjum eru herir eða öryggissveitir eða allavega einhverjir málaliðar. Þegar þetta fólk hefur fengið nóg, tekur það völdin af sínum ríkisstjórnum og fjármálaöflunum.

En Standard & Poor's meta stöðuna greinilega kolvitlaust, þó þetta sé matsfyrirtæki. Matið virðist byggt á óskhyggju einni. Minnir á krakka að leika sér. Kannski er þetta leikvöllur fyrir einhverja hagfræðinga.


mbl.is S&P varar skuldsett ríki við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú bara gömul heimilishagfræði sem þeir eru að benda mönnum á.

Ef þú eyðir meira en þú aflar og ert kominn í greiðsluþrot þá kemur það ekki fjármálunum í lag að taka meiri lán.

Þetta er atriði sem við Íslendingar eigum sérstaklega erfitt með að skilja. Við virðumst ekki gera ráð fyrir að lán séu eitthvað sem þarf að greiða til baka. Við teljum það reyndar merki um mannvonsku að krefja okkur um slíkt.

Georg (IP-tala skráð) 26.2.2010 kl. 07:52

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Georg. Þap er alveg rétt hjá þér að það þýðir ekkert að taka meiri lán. En málið er líka það að það þýðir heldur ekkert að ríkissjóðir séu að setja sig á hausinn með að yfirtaka vanda fjármálakerfisins eins og gert hefur verið undanfarið. Þess vegna er það eina rétta í stöðunni að borga einfaldlega ekki allt saman. Íslenska ríkið átti t.d. aldrei að setja krónu í að endurreisa bankana eða yfirleitt að koma nálægt því að bjarga þessum útrásargemlimngum og fyrirtækjum þeirra. Það er nefnilega líka gömul heimilishagfræði að þú átt ekki að ábyrgjast lán fyrir aðra ef þú átt ekki peninga til að borga þau þegar þau falla í gjalddaga. Og þú átt heldur ekki að lofa peningum annarra í eitthvað sem þig langar sjálfan til að gera.

Og það er líka gömul heimilishagfræði að þú getur ekki sem lánveitandi kúgað peninga út úr þriðja aðila ef sá sem þú lánaðir peninga getur ekki greitt þá til baka. Það er bara þitt prívat klúður ef þú lánar einhverjum peninga sem feilreiknar sínar áætlanir og getur ekki endurgreitt, eða ef þú metur tryggingar sem hann setur vitlaust, þannig að þær duga þér ekki til fullrar endurgreiðslu á láninu.

En allri þessari gömlu heimilishagfræði hefur verið kastað út í horn af stjórnvöldum og bankamönnum. Og S&P tekur einmitt þátt í því þegar þeir heimta að almenningur taki á sig skuldir fjármálafyrirtækja og fleiri slíkra aðila í stórum stíl. S&P vill að almenningur í hverju landi borgi fyrir glannaskap í fjármálakerfinu. Það er sko engin gömul heimilishagfræði í því.

Jón Pétur Líndal, 26.2.2010 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband