Málshöfðun út af ljótu eldhúsi en ekkert dómsmál út af þjóðargjaldþroti.
24.2.2010 | 21:59
Menn eru misvandir að virðingu sinni. Í New York er krafist skaðabóta fyrir dómstólum af Jóni Ásgeiri og konu hans fyrir að hafa sett skammarlega ljótar innréttingar í íbúð sína í virðulegu fjölbýlishúsi í borginni. Það þykir ekki við hæfi að ljótar IKEA innréttingar séu í þessu virðulega húsi, enda húsaleigan há og góður "standard" á heildarlúkkinu. Í New York er ekkert annað að gera en að fara í mál við pakk sem innréttar virðulegt húsnæði svona skammarlega.
En á Íslandi gerir ekkert til þó þetta sama fólk sé með nánast ómælanlegar upphæðir í afskriftum og gjaldþrotum á afrekaskránni eftir um 20 ára viðskiptasögu. Og þessi gjaldþrot og afskriftir kosta eflaust margra ára skattpíningu og ófarnað fyrir flesta Íslendinga, vega þungt í líklegu þjóðargjaldþroti sem framundan er. Nei, þetta er ekki ástæða til að krefjast skaðabóta. Þvert á móti er reynt að ýta að þeim tilteknum fyrirtækjum með meiri afskriftum. Það er stöðugur áróður í fjölmiðlum og fréttaskýringaþáttum fyrir því að engir aðrir en þau eða þeirra samstarfsmenn geti rekið tiltekin fyrirtæki nógu vel. Þessu er haldið fram blákalt dag eftir dag, þó viðskiptayfirlitið sýni allt annað. Bankamenn og stjórnmálamenn vega nú og meta hvernig ráðstafa skuli ýmsum fyrirtækjum inn í framtíðina. Við þetta mat er það greinilega óskhyggjan sem vegur þyngst í matinu, staðreyndir eru léttvægar.
Hér er dekrað við þetta fólk sem hefur á sínum snærum afskrifaða fjölmiðla, afskrifaðar verslanir, afskrifaða banka og fyrirgefnar syndir í stórum stíl.
Hér eru það pólitískir draumórar og óskhyggja, eða bara gamla góða spillingin sem er í fyrirrúmi. Hér er ekki við hæfi að efna til málaferla út af smámálum eins og ca. þúsund milljörðum í gjaldþrotum og afskriftum. Það er annað en í New York, þar fyrirgefst ekki einu sinni ljótt eldhús. Það er búið að höfða mál út af því.
Höfða mál gegn Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.