Hún er furðuleg pólitíkin á Íslandi. Það sést best á Icesave. Ef saga þess máls er rakin í fljótheitum þá er hún nokkurn veginn svona.
1. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur einkavæða bankana, gefa þá í raun til útvalinna vina flokkanna.
2. Útrásarkapparnir, vinir flokkanna, sem fengu bankana án þess að borga krónu fyrir þá leita leiða til að búa til peningamaskínur úr þessum bönkum.
3. Reikningar eins og Icesave eru settir í gang ásamt ýmsum öðrum vafasömum gerningum til að raka saman fé.
4. Svikamillan hrynur með bönkunum 2008 og hagkerfinu í heild að verulegu leyti.
5. Sett eru hryðjuverkalög á Landsbankann af Bretum og þeir ásamt Hollendingum gera kröfur um fullar endurgreiðslur með vöxtum og kostnaði vegna Icesave reikninganna, þrátt fyrir að EB reglur veiti þeim engan rétt til að gera þessar kröfur.
5. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar afsalar sér völdum þegar Ingibjörg Sólrún telur að gott tækifæri gefist til vinstri stjórnar.
6. Ný vinstristjórn Samfylkingar og VG fær Icesave málið til að leysa það og finnur út með samninganefnd sinni að eina lausnin á því sé að setja lög sem fullnægi öllum kröfum Breta og Hollendinga, þó engar reglur geri slíka allsherjaruppgjöf nauðsynlega. Stjórnin vill ekkert hrófla við vinum hinna flokkanna sem fengu bankana. Þeir eru stikkfrí. Kannski eru þeir líka miklir vinir núverandi stjórnarflokka.
7. Stjórnarandstaðan maldar í móinn gagnvart þessari lausn þegar hún er lögð fyrir Alþingi og kemur fram breytingum á lögunum sem forða stórslysi í efnahag landsins.
8. Bretar og Hollendingar eru ekki sáttir við þessar breytingar sem gerðar eru á lögunum um Icesave ábyrgðina og vilja ekki semja á þeim grundvelli.
9. Ríkisstjórnin situr heima og semur ný lög keimlík þeim sem fyrst voru lögð fyrir Alþingi, sem miða að því að fullnægja kröfum Breta og Hollendinga. Nú eru lögin samþykkt á Alþingi þrátt fyrir mótþróa stjórnarandstöðunnar.
10. Vinstrimaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands fær undirskriftalista frá tugum þúsunda Íslendinga sem styðja ekki nýja lausn stjórnvalda á þessu máli. Ólafur ákveður að taka frekar mark á þessu skynsama fólki en ríkisstjórninni og meirihluta alþingismanna og vísar afgreiðslu málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að samþykkja þau möglunarlaust eins og hann hefur næstum því alltaf gert hingað til.
11. Ríkisstjórnin stefnir á að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu svo það verði fellt þar, frekar en að draga frumvarpið til baka og henda því strax án þeirrar fyrirhafnar og kostnaðar sem fylgir þjóðaratkvæðagreiðslunni.
12. Ríkisstjórnin og helstu málsvarar hennar þrasa yfir þjóðinni um að það beri að samþykkja Icesave greiðslur og ábyrgðir því fyrri ríkisstjórn hafi unnið að svipaðri niðurstöðu í málinu og ekki megi hvika frá stefnu fyrri stjórnar í málinu. Þetta eru helstu rök stjórnarinnar fyrir hennar stefnu í málinu.
13. Ásamt þessu fjasa fjármálaráðherra og fleiri um að verið sé að moka flórinn eftir framsókn og nýfrjálshyggjuna og þess vegna sé allt eins ómögulegt og það er. Mörgum öðrum finnst að stjórnin sé frekar að skíta í flórin en að moka hann.
14. Núverandi stjórnarandstaða sem á sínum tíma ýtti öllu klúðrinu úr vör með einkavæðingu bankanna stendur sig betur en stjórnin og reynir að hysja upp um sig og bjarga því sem bjargað verður með því að mótmæla og verjast ólöglegum og óréttmætum fjárkröfum vegna Icesave og hliðstæðra reikninga.
15. Nú er svo komið að ríkisstjórnin hefur ekki bara gefist upp fyrir Bretum og Hollendingum með því að fallast margsinnis að óþörfu á allar þeirra kröfur, heldur hefur hún líka gefist upp fyrir stjórnarandstöðunni með því að fallast á þeirra kröfur um hvernig verjast skuli kröfum Breta og Hollendinga. Þess vegna er nú verið að skipa nýja faglega samninganefnd sem hefur fengið skynsamleg samningsmarkmið að vinna út frá.
16. Nú er pólitíska staðan því þannig að skuggastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur fengið sínu framgegnt, tekið völdin í þessu máli. Það er gott því ráðleysi ríkisstjórnarinnar var algert. En til hvers höfum við þessa ríkisstjórn, til hvers getum við þá notað hana? Það er spurning sem erfitt er að svara.
Í stuttu máli þá hefur ríkisstjórnin gefist upp fyrir öllum í þessu máli.
Útrásarvíkingunum sem fengu bankana án þess að borga fyrir þá og stofnuðu síðan Icesave reikninga. Bretum og Hollendingum sem vilja fá fulla greiðslu frá Íslendingum vegna Icesave. Stjórnarandstöðunni sem felldi fyrstu Icesave lögin. Almenningi og InDefence sem tóku lögum nr. 2 ekki þegjandi. Forsetanum sem samþykkti ekki heldur lög nr. 2 um Icesave. Stjórnarandstöðunni sem fær nú að ráða næstu aðgerðum í þessu máli. Og að síðustu virðast þeir hafa gefist upp fyrir flórnum sem enn er ómokaður en orðinn yfirfullur af eigin skít stjórnarinnar.
Makalaust innlegg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er sama hver er í stjórn fjórflokkana allt gerspillt og vanhæft einkavinavæðingin í algleymingi bankarnir varðir og þjófarnir að koma til baka með hreinsun sjálfskuldarábyggð niðurfellingu á skuldum og halda stöðunum með ofurlaun. Þetta gengur ekki það er ekkert annað í stöðunni en stríð gegn ofurvaldinu og spillingunni!
Sigurður Haraldsson, 12.2.2010 kl. 01:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.