Færsluflokkur: Bloggar
Spáir Íslandsbanki hraðri styrkingu krónunnar?
30.9.2009 | 08:04
Umræðan um að Íslandsbanki ætli að bjóða skuldurum að breyta lánum í óverðtryggð lán með 7,5% óverðtryggðum vöxtum er áhugaverð. Ástæðan fyrir þessu kjaraboði er skemmtileg, þeir segja að þetta þjóni hagsmunum bankans.
Og þá hugsar maður eins og allir hinir tala, "já, þeir eru búnir að skilja að eins og ástandið er í landinu þá geta menn bara ekki borgað meira en þetta og ætla bara að vera svona sanngjarnir, húrra fyrir Íslandsbanka."
En kannski er önnur ástæða fyrir þessu kjaraboði, kannski er bara verið að spá verðhjöðnun og styrkingu krónunnar í Íslandsbanka. Út frá svoleiðis spá væri hagstætt fyrir bankann að taka verðtryggingu af lánunum áður en verðlag fer að hjaðna og koma þeim á fasta vexti og breyta erlendum lánum í íslenskar krónur áður en gengið fer að styrkjast aftur.
Ég hef ekki meira traust á bönkunum en svo að ég freistast til að velta því fyrir mér hvað býr að baki, það væri alveg nýtt ef verið er að bjóða upp á breytingar á lánum að fyrra bragði af eintómri góðsemi við viðskiptavinina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um gengi gjaldmiðla.
29.9.2009 | 18:54
Það er nú fróðlegt að velta fyrir sér gengi gjaldmiðla.
Um þessar mundir er Bandaríkjadalur svo veikur gagnvart Evru að bandarísk fyrirtæki hafa varla efni á að kaupa tæki og tól frá Evrópu, jafnvel þó þá bæði vanti tækin og dauðlangi í þau. Hins vegar er hægt að gera ódýr viðskipti í hina áttina, þ.e. flytja út frá Bandaríkjunum til Evrópu, eða ferðast ódýrt um Bandaríkin ef þú býrð á Evrusvæðinu.
Íslenska krónan er svo veik gagnvart flestum gjaldmiðlum að það er aftur hægt eftir margra ára hlé að flytja út frá Íslandi eitthvað fleira en fisk. Um leið er krónan svo veik að Íslendingar á ferðalögum erlendis eru aðeins byrjaðir að spá í hvað þeir eru að fá fyrir gjaldeyrinn sem þeir spreða á báðar hendur. Sumir eru jafnvel farnir að versla aðeins minna af óþarfa en áður. Útlendingar sem hingað koma gera hins vegar kjarakaup í öllu sem þeir gera, liggur við að þeir fari með meira peninga úr landi í ferðalok en þegar þeir koma.
Og gengi Evru gagnvart Sterlingspundi er svo breytilegt í London að á einum og sama degi í þessari borg hleypur það frá því að vera 1 evra á móti 1 pundi og yfir í 2 evrur fyrir pundið.
Þrátt fyrir þennan mikla mun á gengi punds gagnvart evru hefur gengi pundsins lækkað svo mikið gagnvart evrunni að það þykir mörgum á evrusvæðinu orðið ódýrt að ferðast til Englands og gera það sem aldrei fyrr þó maturinn sé enn jafn óætur þar og áður. Matargæðin haldast alveg stöðug í Englandi óháð óstöðugleika gjaldmiðla.
Hver er svo niðurstaðan af þessu. Hún er einföld, evran er nú svo sterk að það er framundan aukið atvinnuleysi á evrusvæðinu en atvinnulíf landanna utan evrusvæðisins mun á sama tíma styrkjast eitthvað. Og þau lönd sem enn hafa sjálfstæðan gjaldmiðil hafa auðvitað meira svigrúm til að stjórna sinni efnahagsþróun en hin löndin sem eru bundin í myntbandalagi.
Og svo sýnir þetta ágætlega að það eru ekki til neinir stöðugir gjaldmiðlar. Að halda því fram að það sé til "stöðugur" gjaldmiðill er bara aulaleg lygi. Gengi allra gjaldmiðla sveiflast eins og flagg í vindi gagnvart öðrum gjaldmiðlum. En við gætum auðvitað kastað okkar gjaldmiðli og tekið upp annan ef við viljum frekar sveifla genginu einhvern veginn öðruvísi en það gerir í dag. En gengi okkar gjaldmiðils hættir ekkert að sveiflast samt sem áður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Merki vinstri grænna í Portúgal.
28.9.2009 | 22:19
Ég var í nokkra daga í Porto í Portúgal í síðustu viku. Það mátti sjá að kosningar voru í nánd, talsvert um auglýsingar og veggspjöld og mikil umfjöllun í sjónvarpi um þessar kosningar.
Það var áberandi að meirihluti kosningaauglýsinga var merktur flokki sem kallast CDU og er systurflokkur VG á Íslandi. CDU er upprunninn úr þremur eldri flokkum, kommúnistum, grænum og hluta af krötum. Fyrir þessar kosningar var þetta þriðji stærsti flokkur Portúgal. Þó ég sé ekkert sérstaklega vinstri sinnaður fær þessi flokkur sérstaka aðdáun mína fyrir það að hann notar hamar og sigð í merki sínu og þarna er ekkert verið að fela kommúnismann. Kannski vita þeir ekki kommarnir í Portúgal að það sé hægt að tala um norrænt velferðarkerfi til að beina athygli frá kommúnisma eða að þeir hafa ekki fengið Alþjóða gjaldeyrissjóðinn eins og hjálparstofnun upp í hendurnar til að vingast við til að geta þóst vera kapítalismar. Enda voru vinstri grænir í Portúgal bara með um 7,6% atkvæða í kosningunum 2005. Ég hef ekki gáð hvernig þessar kosningar fóru í Portúgal núna, held þeir hafi byrjað að telja atkvæði í gær, en það skiptir líka litlu, það lá vel á öllum þarna, veðrið gott og bankar á hverju götuhorni. Sennilega enginn jarðvegur fyrir pólistískar breytingar í því landi.
Hér á Íslandi eru vinstri grænir bæði heppnari og klárari, hafa norrænt velferðarkerfi að tala um og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn að vingast við og svo er það náttúrulega "bónus" vinningur að hinn vinstri flokkurinn er svo vitlaus að voða fáir geta kosið hann nema afneita því á eftir. Og svo náttúrulega tókst eftir bankahrunið að böðlast í gegn um kosningar áður en fólkið skildi að VG á Íslandi er ekkert skárri eða öðruvísi flokkur en hinir þrír í fjórflokkakerfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stærsta bankarán Íslandssögunnar sagði Jón Ásgeir fyrir ári síðan.
28.9.2009 | 20:43
Já, þetta sagði víst Jón Ásgeir Jóhannesson fyrir ári síðan. Einhvern veginn vissi hann alveg að hér hafði verið framið bankarán. Af hverju er nú ekki búið að spyrja hann betur út úr um þetta. Hann vissi greinilega að bankinn var tómur. Hann var sjálfur alllengi búinn að vera viðriðinn stjórn og eignarhald bankans. Mér skilst að með þessum tilvitnuðu orðum hans í fyrra hafi hann verið að gefa í skyn að það að taka bankann af honum hafi verið bankaránið sem hann talaði um en það er löngu komið í ljós að bankinn var galtómur eins og brotinn sparigrís og innihaldið úr bankanum/sparigrísnum horfið. Það hlýtur Jón Ásgeir að hafa vitað.
Og þá er nú stóra spurningin. Af hverju er ekki búið að taka á hans þætti í þessu bankaráni sem hann talaði um?? Maðurinn sama sem játaði á sig þáttöku í stærsta bankaráni Íslandsssögunnar sama dag og síðustu krónurnar hurfu úr bankanum og samt fattar löggan ekki að spyrja hann nánar um þetta. Hvað er eiginlega að hér??
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað hafa Íslendingar gert Spánverjum í sjávarútvegsmálum?
28.9.2009 | 18:32
Þetta er nú kannski ekki merkileg spurning, en svarið við henni má sjá á upplýstum vegg í sjóminjasafninu í Vigo á Spáni, stærstu löndunarhöfn í Evrópu.
Og hvað skyldi svarið vera? Jú, svarið er að í þriðja þorskastríði Íslendinga og Englendinga, sem Íslendingar unnu eins og við vitum, þá var komið á nokkurs konar eignarhaldi á úthöfunum, 200 mílna lögsögu. Og þar með er það Íslendingum að kenna að Spánverjar hafa ekki lengur ótakmarkaðan aðgang að heimshöfunum til fiskveiða að eigin geðþótta. Eigendur úthafanna hafa að sjálfsögðu fært út sína landhelgi hver fyrir sig og rekið Spánverja burt. Og vandamál Spánverja er að þeir eiga ekki lögsögu yfir neinum fiskimiðum sem verulegu máli skipta. Smá blettir á Atlantshafinu, norðan og sunnan Portúgals tilheyra Spáni, sem og hafsvæðið austan við Spán, en það er því miður bara Miðjarðarhafið sem er ekki sérstklega gjöfult fiskihaf.
Og skv. því sem fram kemur á sjóminjasafninu í Vigo þá er það þannig að þær fiskveiðar sem gerðu Spán að mestu fiskveiðiþjóð Evrópu voru einkum stundaðar á eftirtöldum hafsvæðum:
Vestur af Sahara í Afríku.
Vestur af Suður Afríku.
Austur af Argentínu.
Á Nýfundnalandsmiðum.
Á Reykjaneshrygg.
Austur af Boston í Bandaríkjunum.
Vestur af Írlandi.
Spánverjar hafa því aldrei byggt sínar fiskveiðar á eigin fiskistofnum eða fiskimiðum við eigin strendur, heldur á því að fara og moka upp fiski langt að heiman. En Íslendingar bundu enda á þetta með því að vinna þriðja þorskastríðið við Englendinga og nú er það bara spurning hvort það er ekki það gáfulegasta sem við getum gert að ganga í Evrópusambandið og leyfa Spánverjum að fara að ráðskast með fiskveiðar í íslenskri lögsögu. Það er okkur að kenna að þeir fá ekki lengur að veiða eins og þeim sýnist á öllum sínum gömlu fiskimiðum. Það er okkur að kenna að Spánski flotinn er ekki lengur ráðandi á Atlantshafinu, heimskautanna á milli. En flotinn er enn til og liggur bundinn við bryggju og bíður færis. Hvað skyldu Spánverjar vera að hugsa í þessum málum núna? Er það brilljant hugmynd hjá Samfylkingunni að ganga í ESB og skála við Spánverja um samstarf í fiskveiðimálum? Ég held varla, enda hefur enginn sýnt fram á að nokkurn tíma hafi komið góð hugmynd eða góð lausn á einhverju frá Samfylkingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Icesave og afturfararríkisstjórn IMF-AGS
28.9.2009 | 02:15
Ég hlustaði á Silfur Egils áðan og spjall hans við Guðmund Franklín Jónsson. Þarna tókst Agli að ná viðtali við enn einn manninn sem greinilega skilur ágætlega hvað er í gangi í þessu landi hér.
Það er líka alveg víst að það verður ekkert gert með hans ráð og ábendingar frekar en annarra sem hafa haft eitthvað gagnlegt til málanna að leggja, enda engin ástæða til því hér hefur verið tekin ákvörðun um að stefna í aðra átt, afturábak en ekki áfram.
Og við Íslendingar eigum ekkert að vera að kvarta. Við kusum okkur þing og ríkisstjórn sem hafði um skamma hríð starfað hér fyrir IMF-AGS og hafði það að markmiði að gera það áfram eftir kosningar. Þjóðinni var gerð ágæt grein fyrir þessu fyrir síðustu kosningar og hún kaus þessa leið. Því er það eina rétta leiðin að klára það 15-20 ára afturfararprógramm sem þjóðin hefur kosið sér.
Þess vegna er það mín skoðun að ríkisstjórnarflokkarnir eigi að taka upphaflegan Icesave samning aftur til atkvæðagreiðslu og samþykkja hann undanbragðalaust án allra fyrirvara eins og þeir hafa lofað IMF-AGS svo lýðveldið Ísland geti nú þegar hafið sína löngu afturför inn í framtíðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndlíkingaraumingjar.
28.9.2009 | 01:54
Nú er það líklega næsta verkefni kommúnista á Íslandi að koma einhverjum myndlíkingaraumingja í ritstjórastólinn á Morgunblaðinu. Davíð er kominn þangað og alls staðar þar sem hann hefur starfað hafa kommúnistarnir komið fljótlega á eftir með góða myndlíkingarauminga.
Ingibjörg Sólrún í borgarstjórastól Reykjavíkur o.fl, Dagur B. Eggertsson í sama starf, Jóhanna Sigurðardóttir í forsætisráðuneyti, Össur Skarphéðinsson í utanríkisráðuneyti, Már Guðmundsson í Seðlabankann. Allt eru þetta glögg dæmi um myndlíkingaraumingja sem hafa tyllt sér í stólana á eftir Davíð, fólk sem á auðvelt með að myndgera vandamál, líkja þeim við bruna, skipbrot, slökkvistarf o.s.frv.
En það er ekki hægt að gefa þessu fólki betra heiti en að vera myndlíkingaraumingjar, því miður. Þau hafa ekki getu til að leysa nokkurn hlut, það sanna þau á hverjum degi. Það eina sem þau eiga sameiginlegt fyrir utan það að vera myndlíkingaraumingjar er að hafa komist til umtalsverðra valda á Íslandi. Það hlýtur þá að þýða að við Íslendingar séum myndlíkingaraumingjadýrkendur, þ.e. við aðhyllumst mjög vinstri sinnaða myndlíkingaraumingjastefnu.
Skv. framkvæmd þessarar pólitísku stefnu felst hún í því að gera fullt af engu nema að tala um vandamál en láta þau um leið reka á reiðanum og vona að þau leysist eða hverfi þannig af sjálfu sér. Svo er þetta skreytt dálítið með blautum draumförum um ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað finnst útlendingum um Ísland núna?
18.9.2009 | 18:20
Ég er búinn að hitta margt fólk frá ýmsum löndum hér á Spáni undanfarið. Ég hitti Indverja sem hafði mikinn áhuga á að ræða þjóðmálin þegar hann fann út að ég væri frá Íslandi. "Oh, you are from Iceland! You must trow out the president" Þetta var það fyrsta sem hann sagði, orðrétt eftir honum haft. Eftir smá umræður var það ljóst að honum fannst ekki sæma í nútímaríki að þjóðhöfðingi sæti eins og aldrei hefðu verið betri tímar, á tímum þegar efnahagslífið hefur hrunið til grunna að stórum hluta. Til að sýna að við Íslendingar viljum ekki hafa þetta svona á að byrja tiltektina efst í valdapýramídanum og þar sem Ólafur Ragnar hefur kynnt sig sem toppstykki íslenska valdapýramýdans og valdamesta mann landsins á ferðum sínum um Indland finnst Indverjum það algjört lágmark að Íslendingar skipti um þetta toppstykki sem er greinilega handónýtt. Ég gat auðvitað ekki annað en verið sammála manninum. Annars var hann ótrúlega vel upplýstur um hvað hér hefur gerst undanfarið, bankahrunið sjálft, fall krónunnar og gjaldeyrishöft og spillingu. Það er greinilega ekki hægt að fela ósómann á þessari upplýsingaöld.
Ég hitti líka í gær nokkra kínverja sem ætluðu að heimsækja Ísland í nóvember s.l. en hættu við og fóru eitthvað annað. Þeir vissu lika talsvert um okkar mál og klúður. Það að þeir hættu við íslandsferð í fyrra þýðir ekki að þeir ætli aldrei til Íslands, þvert á móti þá eru þeir að hugsa um að koma í heimsókn í vetur, en þótti ástandið bara of ótryggt síðasta vetur til að standa í heimsóknum.
Auk þessara tveggja hef ég spjallað við fólk frá Kanada, USA, Bretlandi, Skotland, Norðurlöndunum, Hollandi og Spáni auðvitað. Yfirleitt sýnir þetta fólk samúð og vorkunn nema Norðmenn sem hlæja auðvitað dáldið að okkur og stríða manni líka á þessu. Það veit ótrúlega mikið um Íslenska efnahagsundrahrunið. Og það er alveg ljóst að við vinnum aldrei neitt traust í útlöndum með einhverjum vaxtaákvörðunum og svoleiðis bulli. Það sem allir spyrja um eða ræða á einhvern hátt er hvort það fari ekki fullt af bankamönnum og stjórnmálamönnum í steininn. Þetta er greinilega það sem þarf til að vinna traust erlendis aftur, enda skiljanlegt, það treystir okkur enginn framar ef við erum ekki menn til að gera upp klúðrið með þeim hætti að umheimurinn sjái að við höfum einhver lög í landinu til að fara eftir um þessi mál, og beitum þeim, líka þegar það kemur einhverjum illa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er núna staddur í Vigo á Spáni sem er stærsta verstöð þess lands. Í dag labbaði ég niður á höfn til að skoða hvernig Spánverjar eru útbúnir til fiskveiða. Hafnarsvæðið er að stórum hluta nýlega upp byggt, búið að gera mikla umferðargötu fyrir framan gömlu fiskvinnsluhúsin og byggja upp mikla fiskihöfn á fyllingum fyrir neðan gamla hafnarsvæðið. Þarna eru frystihús og fiskvinnsluhús í tugatali á hafnarsvæðinu og á þeim hluta þess sem ég fór um voru a.m.k. 58 skuttogarar sem lágu bundir við bryggju á þessum góðviðrisdegi auk fjölda smærri skipa og báta. Það var samt heilmikið líf við höfnina. Smærri bátar á leið út og að koma inn með afla. Einnig var eitthvað smáhveli í höfninni að elta makríl sem synti þar um í litlum torfum.
Í beinu framhaldi af fiskihöfninni er langt svæði þéttskipað skipasmíðastöðvum. Það er víst heilmikil stálframleiðsla á Spáni og þeir hafa vit á að smíða eitthvað úr því sjálfir eins og t.d. skip. Annað en við Íslendingar sem græðum alveg nóg á að flytja álið út óunnið. Það er takmarkaður aðgangur um skipasmíðasvæðið í öryggisskyni þannig að ég fór ekki þangað inn en það var allavega verið að smíða stór skip í tugatali þarna.
Það er strax ljóst af þessari stuttu heimsókn á höfnina í Vigo að það er mikill hagur af því fyrir Spán að Ísland gangi í ESB svo Spánverjar geti nýtt ónotaðan skipaflota sinn betur. Þeir hafa greinilega afkastagetu á við allan íslenska togaraflotann í ónotuðum skipum sem bíða aðgangs að nýjum fiskimiðum. Og miðað við atvinnuleysið hér á Spáni sem er víst það mesta í Evrópu, ætti ekki að verða erfitt að fá menn í áhafnir á þessa togara.
Svo er allt til alls hér á hafnarsvæðinu til að smíða ný skip og laga gömul ef þarf, enda hagsýni að nýta heimafengið stálið í skipsskrokka þegar færi gefst á því.
Maður hefur oft heyrt ýmsar tröllasögur um togaraflota Spánverja sem geti ryksugað upp allan fisk af Íslandsmiðum fái þeir aðgang að fiskimiðum okkar. Nú þarf ég ekki lengur að hlusta á þetta sem tröllasögur, búinn að fara niður á höfn og telja sjálfur og taka myndir af öllu saman. Og allur þessi floti bara í fyrstu höfn sem ég skoða hér. Það eru nokkrar hafnir í viðbót hér í Galiciu og örugglega fleiri togarar þar.
Nú þarf fólk á Íslandi bara að styðja sína ríkisstjórn í að koma okkur í ESB, svo við þurfum ekki sjálf að senda menn á sjó í framtíðinni og standa í slori og slabbi við að verka fisk. Látum Spánverja um þetta, þeir geta það alveg.
Við getum örugglega fengið endalaus lán hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til að lifa af í skiptum fyrir ESB aðild. Þessi lán ættu allavega að duga okkur eitthvað fram yfir inngöngu. Með því að samþykkja ESB aðild getum við alveg losnað við slor og ýldulykt í framtíðinni og endurreist góðæri í nokkur ár í viðbót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vitleysingar við stjórn.
9.9.2009 | 12:59
Það er búið að vera fróðlegt að hlutsta á Gunnar Tómasson og Joseph Stiglitz og heyra þeirra álit á efnahagsmálum á Íslandi. Í stuttu máli virðast þeir alveg sammála um að það er aðalvandi okkar að stjórnmálamennirnir eru vitleysingar. Þetta er svo sem auðvelt að skilja þegar horft er til baka og sagan skoðuð. Stöðugt fall krónunnar, samningar um orkusölu undir kostnaðarverði, dekur við bankana þar sem allt er látið eftir þeim sem þeir hafa beðið um, kvótakerfið og útbrunnir stjórnmálamenn sem fara um stjórnkerfið eins og krabbamein eru allt stórmál sem varða þessa sögu og skýra það eflaust að menn segja það bara afdráttarlaust að hér stjórni vitleysingar.
Og nú eru sömu vitleysingarnir að semja um aðild okkar að ESB. Það yrði merkilegt ef Össur og félagar fara nú að brjóta upp gamla hefð og semja af viti um ESB. Nei, ég á ekki von að svo verði. Því miður skiptir það engu máli hvort við getum haft gagn af að ganga í ESB eða ekki. Það eina sem er klárt í samningaviðræðum okkar við ESB er að það eru vitleysingar sem eru að semja þar fyrir okkar hönd og samningurinn mun verða eftir því.
Sorry félagar, við erum enn á sömu braut og áður. Næsta hrun hér verður sjálfsagt kennt við ESB. Við erum enn að kjósa yfir okkur sömu flokkana og sama fólkið og hefur rutt öllu um koll hér á undanförnum árum. Það eina sem hefur breyst er að nú hafa vitleysingarnir stuðning af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, því sívinsæla framfarafélagi heimsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)