Lánskjaravísitalan er sjálfvirkur verðhækkanaspírall.

Er það ekki alveg frábært kerfi sem við búum við hér á Íslandi?
Við erum með neysluvísitölu til verðtryggingar lána sem er búin að hækka gríðarlega undanfarið vegna skattahækkana, erlendra verðhækkana og gengisbreytinga. Nú hafa erlend lán Orkuveitunnar hækkað svo mikið að veitan þarf að hækka gjaldskrána um hátt í 30% til að skrimta næsta bókhaldsár. Þessi verðhækkun fer út í verðlagið og hækkar vísitöluna og þar með lánin sem eru bundin henni. Orkuveitan er ekki eina fyrirtækið sem þarf að hækka gjaldskrár upp úr öllu valdi til að skrimta næstu misserin, fjöldi fyrirtækja og sveitarfélaga eru í þessari stöðu. Það þýðir að fljótlega þurfa ýmsir aðrir að hækka sínar gjaldskrár til að eiga fyrir þessum vísitöluhækkunum lána og svo gengur þetta svona sitt á hvað um ókomna tíð á meðan þessi vísitala verður notuð, að hún verður sjálfvirkur verðhækkana- og verðbólguhvati á allt í þessu landi - nema launin.

Í gamla daga var alltaf talað um víxlhækkanir launa og verðlags. Þá var samið um launahækkanir sem fóru út í verðlagið sem varð til þess að aftur þurfti að semja um hærri laun. Þannig gekk þetta árum saman. En með lánskjaravísitölunni er þetta óþarfi, nú hækkar allt sjálfvirkt - nema launin. Það þarf ekki lengur að semja um neitt, því allt gengur nú sjálfvirkt fyrir sig, nema verkalýðshreyfingin sem tók sjálfa sig úr sambandi þegar VG og Samfylking tóku við landsstjórninni.

En almenningur bíður spenntur eftir að lánskjaravísitalan verði aflögð. Fyrr en hún hefur verið aflögð næst enginn stöðugleiki í efnahagslíf þessa lands.

Annað dæmi um okkar frábæra land er sú hugmynd sem var til umræðu í fréttum í dag, að lækka aðflutningsgjöld á nýjum bílum og kaupa upp gamla bíla 10 ára og eldri til að bílgreinarnar fái innspýtingu í sína starfsemi.

Ég á nú eftir að sjá að fólk sem í dag ekur um á 100-300 þús. kr. bílum hlaupi upp til handa og fóta að kaupa 3-4 milljóna bíla, jafnvel þó einhver afsláttur verði veittur af aðflutningsjöldum af þeim og gamli bíllinn keyptur eða tekinn upp í!

Fyrir utan það fáránlega rugl að ætla að búa til eitthvað eyðsluprógramm í kring um viðskipti með bíla hjá gjaldþrota þjóð sem býr við óstjórn í ríkisfjármálum og hagstjórn, þá má ekki gleyma því að það er örugglega ekki verð nýrra bíla sem veldur því að neytendur láta það eiga sig að kaupa þá. Það er miklu frekar siðferði þeirra sem lána fyrir nýjum bílum sem fólk er búið að fá nóg af. Þegar menn kaupa bíl á láni sem fljótlega tvöfaldast, bíllinn svo hirtur af því og verðfelldur niður í partasöluprís fyrir að þvo hann og yfirfara eins og fjölmörg dæmi eru víst um núna, þá verða bílakaup ekki lengur freistandi.

Þarna þarf auðvitað að taka á ruglinu í fjármálakerfinu sem enn á að fá að mergsjúga almenning. Það má ekkert hrófla við þessu kerfi sem er sem krabbamein á þjóðinni.

Þess í stað á að reyna að koma fólki út í óráðsíuviðskipti í bílakaupum á nýjan leik. Það er nýjasta bjargræðið!
Fólk er sem betur fer ekki svo vitlaust að gleypa við þessu, það þarf að bíða eftir næstu kynslóð til þess.


mbl.is Hækkun OR hægir á hjöðnun verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GAZZI11

Ég segi mig hér með úr vístölunni

GAZZI11, 30.8.2010 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband