Villandi fjölmiðlar - villuráfandi þjóð.

Ólafur Ragnar vakti víst athygli þeirra er hlustuðu á hann í morgun á Bylgjunni. Ég var ekki einn af þeim, en er búinn að sjá margar fréttir um ummæli hans í þættinum og komment lesenda sumra netmiðlana um þau.

Ég er ekki einn af þeim sem ætla að kjósa Ólaf í sumar. Hann er búinn að vera nógu lengi og aðrir frambjóðendur í boði sem virðast vel hæfir í embættið. Auk þess er kominn tími til að þjóðin fari að horfa fram á við einhvers staðar þar sem máli skiptir. Það er óþarfi að gera það sama með forsetaembættið eins og gert hefur verið með ríkisstjórnina og bankana, að vera áfram með sama gamla liðið og sömu aðferðirnar og komu landinu á hausinn.

En ummæli Ólafs þar sem hann gagnrýnir RÚV og mótframbjóðanda RÚV til forsetaembættis, Þóru Arnórsdóttur, eru mjög skiljanleg. Að mínu mati er hárrétt það sem Ólafur segir um þetta. Það skilur hver heilvita maður sem eitthvað fylgist með. Og hann verður að fá plús í kladdann fyrir það sem hann segir og gerir rétt. RÚV er í raun virk kosningamaskína fyrir frambjóðanda sem virðist enga stefnuskrá hafa aðra en þá að ætla ekki að skipta sér af neinu sem kemur frá ríkisstjórninni. Slíkur frambjóðandi er í raun að sýna kjósendum puttann fyrirfram. Slíkur frambjóðandi er að sækjast eftir embættinu sem fulltrúi ríkisstjórnar en ekki þjóðar. Samt gleypir vitlaus og villuráfandi þjóðin við þessum frambjóðanda.

Í umræðum um forsetaembættið og forsetakosningarnar 2012 er mér orðið ljóst að bæði þjóðin og fjölmiðlarnir eru á margan hátt á villigötum. Alls konar frasar og hugmyndir og innihaldslaus persónudýrkun staðfesta það. Hér eru nokkur dæmi:

Frasi 1. Forsetinn á að vera sameiningartákn þjóðarinnar.
Þetta er vitleysa, þó það sé auðvitað í góðu lagi ef hann getur samrýmt þetta starfi sínu að öðru leyti. Hlutverk forsetans er skilgreint í stjónarskrá. Í henni er hvergi minnst á neitt sameiningartákn.

Frasi 2. Ólafur Ragnar virkjaði málskotsréttinn.
Þetta er vitleysa. Hann var fyrstur til að nota hann, það er óumdeilt. En í stað þess að ræða um að hann hafi "virkjað" þennan rétt sem hefur verið virkur frá stofnun lýðveldisins væri rétt að spyrja hvort það hafi alltaf verið rétt af fyrri forsetum að líta fram hjá málskotsréttinum í mikilvægum málum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá sverja forsetar drengskaparheit að stjórnarskránni, þar með talið að 26. gr. þar sem kveðið er á um að forsetinn geti synjað lagafrumvarpi staðfestingar.

Hugmynd 1. Það þarf að taka málskotsréttinn af forsetanum eða setja þrengri reglur um hvernig hann má nota þennan rétt. Í stað þess að villast út í þessa umræðu væri nær að tala um hvernig má einfalda kosningakerfið þannig að ódýrt og skilvirkt geti verið að skjóta málum til þjóðarinnar. Við höfum stjórn og stjórnarandstöðu sem geta ekki komið sér saman um neitt, ekki einu sinni hvenær fólk fái að kjósa um hluti eins og nýja stjórnarskrá og við höfum embættismannakerfi ótal smákónga sem hafa hver sína hugmyndina um hvernig eigi að framkvæma einfaldar kosningar og gera stöðugt stórmál úr engu í þeim efnum.
Munum að málskotsrétturinn er fyrst og fremst réttur kjósenda til að afgreiða málin. Það eina sem forsetinn gerir með því að neita að skrifa undir lög er að hann leyfir þjóðinni að ákveða fyrir sig hvort hann á að skrifa undir þau eða ekki. Þetta er kallað lýðræði.

Persónudýrkunin er svo annar kapítuli með sína frasa:

Persónudýrkunarfrasi 1. Við viljum flottan forseta og börn á Bessastaði. Þetta er ótrúlega heimskulegur frasi. Eins og ég hef áður minnst á þá er hlutverk forseta skilgreint í stjórnarskrá og á Bessastaði þurfum við þann frambjóðanda sem er líklegastur til að valda því hlutverki sem stjórnarsrkáin ætlar honum. Það er líka réttur kjósenda skv. stjórnarskránni að fá að kjósa sér forseta. Þann rétt er heimskulegt af kjósendum að taka sem eitthvert grín og nota hann til að styðja við málefnalaus lýðskrumsframboð.

Persónudýrkunarfrasi 2. Ólafur stóð með þjóðinni í Iceasave, þess vegna eigum við að kjósa hann aftur núna.
Ólafur gerði fjölmargar gloríur og hefur vægast sagt verið mistækur og dýrkeyptur forseti fyrir þjóðina þegar allt er talið. Það er grunnhyggið fólk sem styður hann núna út á það að hann hafi einu sinni slampast á að gera rétt á 16 ára forsetaferli.

Persónudýrkunarfrasi 3. Þetta er kosningar milli Ólafs og Þóru.
Enn einn heimskulegi frasinn. Þetta eru nefnilega kosningar milli 8 frambjóðenda þar sem fólk ætti að vera að velja sér hæfasta einstaklinginn úr hópi frambjóðenda til að gegna forsetaembættinu. Í stað þess að líta til hæfileika og stefnumála gíra fjölmiðlar kosningarnar upp í eitthvað kapphlaup á milli þeirra frambjóðenda sem eru helst þóknanlegir stjórn og stjórnarandstöðu á Alþingi. Og villuráfandi þjóðin lætur teyma sig á asnaeyrum í þessu og gerir það sem DV og Mogginn segja í stað þess að meta sjálfstætt og rökrétt hvað frambjóðendur hafa fram að færa og hver sé vænlegastur út frá málefnum og eigin verðleikum.

Skv. stjórnarskránni getur forsetinn rofið þing. Það vantar alveg umræðu um hvort og hvernig hann ætti að nota það vald. Væri það þó þörf umræða.
Forsetinn getur líka lagt lagafrumvörp fyrir Alþingi. Það væri þarft að ræða eitthvað um þá heimild.

Ég mæli með að fólk skoði þennan vef www.forsetakosningar.is


mbl.is Forseti gagnrýnir fréttir RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú og þínir líkar eru sérkennilegt fólk. Þið viljið vísa hinu og þessu í þjóðaratkvæðagreiðslu en svo ef þjóðin vill eitthvað annað en er ykkur þóknanlegt, þá er þjóðin "villuráfandi".

Láki (IP-tala skráð) 14.5.2012 kl. 07:00

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Ég er ekkert sérkennilegur. Eða hvað er sérkennilegt við það að leyfa þjóðinni að ráða sínum málum í stað þess að láta fjölmiðla um það. En hver ert þú annars Láki? Sjálfsmynd þín virðist vera eitthvað villuráfandi, er eitthvað feimnismál hver þú ert?

Jón Pétur Líndal, 18.5.2012 kl. 10:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband