Skömm að Íslendingar komist ekki með tærnar þar sem Bretar hafa hælana í þessum málum.

Það voru út af fyrir sig góðar fréttar að þessi glæpamafía var handtekin í dag. Ekki er ég að meina að ég vilji vera vondur við þessa gangstera sem voru handteknir og færðir til yfirheyrslu, en þeir hafa svo sannarlega unnið til þessa með svindli sínu og svínaríi til margra ára.

Það er hins vegar neyðarlegt að á Íslandi er ennþá upplausnarástand meðal stjórnvalda og saksóknara sem ekkert frumkvæði sýna ennþá gagnvart glæpasamtökum sem hafa vaðið hér uppi um árabil og settu landið á hausinn með skipulögðum glæpum. Upplausin hér er svo algjör að þrátt fyrir að allir sjái hvað gerst hefur gera stjórnvöld ekkert til að hindra að glæpastarfsemin haldi áfram. Almenningur er rændur sem aldrei fyrr í viðskiptum sínum við fjármálastofnanir. Verðlaus lánasöfn bankanna eru innheimt af fullum þunga án nokkurra sýnilegra afslátta til annarra en sérstakra útrásargæðing og skila bönkunum aftur metgróða þrátt fyrir að hafa vælt út neyðaraðstoð ríkisins við þá fyrir nokkrum árum með beinni fjárhagsaðstoð til endurreisnar. Gömul uppgreidd lán á almenning eru nú endurreiknuð og endurvakin og aftur farið að innheimta þau eins og allnokkur dæmi eru víst um! Eingreiðslur og ofurlaun eru komin aftur til stjórnenda bankanna. Stjórnmálmenn stinga hausnum í sandinn, fjármálaráðherra er ævinlega hissa á öllu sem gerist og telur skattlagningu hina endanlegu lausn allra mála. Ríkisforstjórar hlusta ekkert á forsætisráðherra um hömlur á launagreiðslur þeirra og skammta sér sjálfir ofurlaun frá ríkissjóði á meðan þeir auka vinnuálag og lækka laun starfsmanna sinna.

Óhætt er að segja að stjórnvöld eru alveg úti á þekju í öllu sem máli skiptir. Pólitíska spillingin tryggir ágætlega að engar róttækar breytingar á stjórnarfari koma frá Alþingi. Á Íslandi eru forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar jafn vitlausir og Gaddafi þegar hann segir að óánægðir landsmenn séu bara hryðjuverkamenn og útsendarar Al Qaida. Hér segja landsfeðurnir að allt sé í góðum gír og Ísland á blússandi ferð upp úr öldudalnum þó allar hagtölur, vaxandi mínus ríkissjóðs, atvinnuleysi, skattpíning, eldsneytisverð og ósnertanlegar glæpaklíkur sýni að veruleikinn er annar.

Það hlýtur hver maður með hálfa meðalgreind eða meira að sjá að ef ekki verður veruleg hugarfarsbreyting á Íslandi þá á landið sér engrar viðreisnar von.

Það sem hér þarf að laga er í raun ekki svo flókið.
1. Stjórnmálamenn þurfa að fara að vinna fyrir kjósendur, taka almannahag fram yfir eigin hag og sérhagsmuni.
2. Það þarf að koma lögum yfir glæpaklíkur, bankaræningjar af öllum gerðum meðtaldir. Þannig þarf að gera menn jafna fyrir lögum, óháð efnahag og stöðu.
3. Það þarf að ballansera atvinnulífið með þvi að hætta að sortera út öll verst reknu fyrirtæki landsins og láta ríkissjóð bjarga þeim með einum eða öðrum hætti til að þau geti drepið niður öll skynsamlega rekin fyrirtæki. Gildir þá einu hvort við tölum um fjármálafyrirtæki eða önnur.
4. Það þarf að setja skýrar reglur um fjármálaviðskipti svo lánþegar afsali sér ekki fjárræði sínu til banka í hvert sinn sem þeir eiga viðskipti við hann eins og nú er í raun. Gengistrygging, verðtrygging, breytilegir vextir, veð og allsherjarveð fyrir annan samningsaðilann og engar tryggingar fyrir hinn getur ekki gengið upp ef viðskiptin eiga að vera sanngjörn.
5. Það þarf að setja nýja stjórnarskrá fyrir landið þar sem settur er ákveðinn rammi um lágmarksréttindi landsmanna sem verður ekki rutt úr vegi með mismunandi skammtímaáherslum stjórnmálamanna. Í stjórnarskrá þarf líka að tryggja þjóðinni að hún marki raunverulega stefnu um sín mál og eigi síðasta orðið í öllum mikilvægum málum.
6. Það þarf að setja eina reglu um frelsi og forsjá einstaklinga og fyrirtækja almennt. Hún er sú að frelsið og forsjáin skaði ekki almannahag. Það hefur reynst dýrkeypt að hafa hömlulítið frelsi að leiðarljósi í viðskiptum og rekstri, á sama hátt og það hefur reynst illa að stjórna öllu. Næst ætti að reyna að stilla þetta af út frá almennum hagsmunum. Það eru þeir hagsmunir sem koma flestum best.
7. Það þarf að setja lög í landinu, sambærileg við hryðjuverklögin í Bretlandi og víðar, sem gera stjórnvöldum kleyft að taka almennilega á neyðarástandi sem getur komið upp vegna skipulagðrar glæpastarfsemi í landinu og annarra illviðráðanlegra ástæðna.
8. Það þarf að grafa undan pólitískri spillingu með því að setja hámarkstíma á þingsetu einstaklinga og tengja líftíma ríkisstjórna við kosningaloforð með reglulegum samanburði á kosningaloforðum og efndum.
9. Það verður að tryggja heimildir til þungra refsinga við stjórnarskrárbrotum.
10. Það verður að koma á gagnsæi í stjórnkerfinu öllu svo almenningur geti verið upplýstur á hverjum tíma um hvað er að gerast í þjóðfélaginu.

Nú vantar okkur bara að bíða eftir að ástandið í landinu versni heilmikið ennþá svo fólk fari að knýja fram breytingar.


mbl.is Handtökur spilltu veislunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband