#6791 - Kreppan er bönkunum að kenna, nema í I-1 ríkinu?

Leiðtogar G20 ríkjanna vísa ábyrgðinni á kreppunni á fjármálastofnanir fyrst og fremst. Þær kunnu ekki að fóta sig í því frelsi sem þær hafa fengið til að höndla með fé.

Þess vegna á nú að herða reglurnar aftur, auka eftirlitið, minnka frelsið, passa betur upp á bankamenn.

Á Íslandi erum við ekki í hópi G20 ríkjanna. Miðað við aðgerðir stjórnvalda hér eftir kreppu er ekki að sjá að íslensk stjórnvöld kenni bönkunum um kreppuna. Hér er dekrað við bankana, skattborgarnir og skuldarar gerðir að þrælum bankanna. Hér má ekki láta fjármálakerfið bera skellinn af eigin mistökum. Hér er alltaf spurt þegar krafist er sanngjarnra viðskiptahátta fyrir skuldara, hver eigi að borga fyrir það? Menn vilja auðvitað ekki að ríkið borgi leiðréttingu skulda, menn vilja ekki að skattgreiðendur borgi leiðréttingu skulda og svo er fámennur hópur sem vill alls ekki að bankarnir leiðrétti skuldirnar. Það þykir sumum vitlausast af öllu að þeir sem sendu skuldurum reikning fyrir 50-150% álagi á skuldirnar, dragi þann reikning til baka. Þó er það auðvitað það eina sem vit er í. Það er í anda þess sem leiðtogar G20 ríkjanna telja rétt. En við erum bara í öðrum hóp en G20, við erum í I-1 hópnum, eina landið í þeim hóp. Þess vegna gildir allt annað um kreppuna hér.

Vilja menn sjá í stjórnarskrá sterkari ákvæði um eignarrétt einstaklinga? Viljum við að stjórnarskráin komi í veg fyrir að fjármálastofnanir geti sent almenningi reikning fyrir upptöku alls eigin fjár í heimilum sínum:

Þeir sem hafa tillögur um þetta mega koma með þær á:
www.austurvollur.is/lindal
www.almannathing.is


mbl.is Styðja hertar fjármálareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Vilja menn sjá í stjórnarskrá sterkari ákvæði um eignarrétt einstaklinga?"

Mér finnst mikilvægt að það verði skýrt í stjórnarskránni hvort eignarréttarákvæði, sem er í mannréttindakafla núverandi stjórnarskrár, eigi einnig að ná til fyrirtækja. Enn fremur hvort skuli að öllu öðru jöfnu vera rétthærra, fólkið eða fyrirtækin. Þegar fyrirtæki eru eingöngu rekin með hagnað hluthafa að leiðarljósi eru virðing þeirra fyrir mannréttindum annara augljóslega ekki númer eitt, og þá væri að sjálfsögðu eðlilegast að það virki jafnt í báðar áttir. Það er ekki mögulegt að bæði halda og sleppa, og sé það reynt mun það alltaf hafa misjafnar afleiðingar í för með sér.

"Viljum við að stjórnarskráin komi í veg fyrir að fjármálastofnanir geti sent almenningi reikning fyrir upptöku alls eigin fjár í heimilum sínum."

Að sjálfsögðu viljum við koma í veg fyrir það. Ég myndi leggja til ákvæði sem kveður skýrt á um að ríkisábyrgð á einkarekstri sé alfarið bönnuð. Einnig myndi ég vilja sjá eitthvað sem tryggir að ef ég fæ lánað eitt hús þurfi ég ekki að endurgreiða tvö, heldur aðeins það eina sem ég fékk lánað, ásamt hóflegri þóknun til lánveitandans í formi vaxta eða annars endurgjalds. Helst þannig að sett séu skýr mörk fyrir því hversu hátt það endurgjald megi vera til að koma í veg fyrir okur í formi vaxta og stökkbreyttra verðbreytingaráhrifa.

Loks myndi ég vilja að allur vafi væri tekin af um að almennt sé aðeins heimilt að hafa uppi fjárkröfur í löglegri mynt (t.d. íslenskri krónu) eða ef um endurgreiðslu láns sé að ræða, í sömu mynt og lánið var greitt út. Í dag höfum við tvo gjaldmiðla í hagkerfinu, annars vegar krónur og hinsvegar verðtryggðar krónur sem eru á allt öðru og síbreytilegu (hækkandi) gengi. Samkvæmt skilgreiningu hugtaksins lögeyrir eiga fjárkröfur í öðrum mynteiningum almennt að vera óheimilar, en hingað til hefur ekki verið farið eftir því. Enn fremur ætti að vera óheimilt að veita neytendalán í öðrum gjaldmiðli en lögeyrinum til að koma í veg fyrir að skapist gengismunur á tekjum fólks annars vegar og útgjöldum þess hinsvegar. Með þessu móti væri skotið styrkari stoðum undir efnahagslegan stöðugleika, réttindi vinnandi fólks, og friðhelgi heimilanna.

Ég þakka fyrir tækifærið til að leggja in þessar ábendingar, Jón Pétur. Mér líst vel á málflutning þinn almennt og það kemur sterklega til greina að ég kjósi þig á stjórnlagaþingið. 

Guðmundur Ásgeirsson, 12.11.2010 kl. 14:53

2 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll Guðmundur og takk fyrir pistilinn og hólið. Maður verður eiginlega bara hrærður að fá svona jákvæð komment. Það er betra en ég er vanur. En ég ætla samt ekkert að hvetja þig til að fara að vera neikvæður út í mig.

Það er greinilegt á þínum skrifum að við erum alveg á sömu línu í þessu máli sem við erum að skrifast á um hérna. Ég hef stundum lesið þín skrif, og þú greinilega mín. Það er lítið sem ber á milli okkar í þessu.

En varðandi þetta þá er samt eitt atriði sem þú nefnir ekki sem ég hef stundum velt fyrir mér og bloggað um. Það er hvort vit væri í að tengja saman lánshlutfall vegna fasteignakaupa og veðhlutfall.

Við vitum að það hefur lengi tíðkast að til tryggingar húsnæðisláni er eignin sem lánið er tekið út á, veðsett að fullu til tryggingar láninu og kostnaði sem af því kann að leiða. Ef lánshlutfallið er hátt þá hefur jafnvel verið beðið um viðbótarveð, ef skuldarinn er ekki metinn þeim mun betri.

Svo fara menn að greiða af lánum sínum og ef allt gengur eftir áætlun koma fá vandamál upp og kerfið virkar, svona fræðilega séð.

En veruleikinn er oft annar en lagt er upp með. Algilt er á síðari árum að áætlanir bankanna um mánaðarlegar endurgreiðslur standast ekki, verðbólguspár þeirra standast ekki, spár þeirra um gengisþróun standast ekki, spár þeirra um launaþróun standast ekki. Spár bankanna standast yfirleitt ekki.

Nú er yfirstandandi skeið þar sem almenningur er kominn í óviðráðanlega stöðu. Spár bankann hafa ekki staðist og skuldarar fá allan reikninginn fyrir frávikunum. Þetta hefur leitt það af sér að bankarnir segjast ekki lengur þurfa fullt veð fyrir fasteignaskuldum. Þeir eru alveg til í að taka bara veð fyrir um 91% af skuldunum. Þeim finnst nú allt í lagi að menn skuldi þeim ca. 110% af verðmæti eignanna sem tryggja skuldirnar. Þetta að vísu kemur til eftir að þeir hafa hækkað skuldirnar svo mikið að það er sama hvort menn tóku lán upp á 50% af kaupverði eða 90%, þeir eru í öllum tilvikum búnir að hirða allt eigið framlag húsnæðiskaupandans áður en þeir bjóða honum að halda áfram að skulda meira en sem nemur veðinu.

Úr því að bankarnir líta svo á í dag að þeir þurfi ekki fullar tryggingar fyrir skuldunum finnst mér rétt að nota tækifærið til að setja einhverjar reglur sem samræma lánshlutfall og veðhlutfall. Að þegar lánað er fyrir 50% í húsnæðiskaupum, fái bankinn á móti tryggingu sem nemur 50% af verðmæti eignarinnar á hverjum tíma. Þetta á í sjálfu sér ekki að vera slæmt fyrir bankann, um leið og farið er að greiða af láninu lækkar skuldin á móti veðinu og bankinn fær umframtryggingu í mismuninum á 50% láni og 50% skuld sem er farin að lækka vegna afborgana. En bankinn missir auðvitað réttinn til að hirða 50% eigið framlag húseigandans og að hirða svo af honum alla eignina líka.

Þetta tryggir líka að það er hagur bankans að fá sem allra mest fyrir eignina á nauðungarsölu fari svo illa að viðskiptin endi á þann hátt. En hvert sem verðið á uppboði yrði fengi þó húseigandinn alltaf helming söluverðmætisins í sinn vasa, því hann á þann hluta hússins.

Og það besta við þetta er að með þessu er ýtt undir að bankarnir sýni ábyrgð í fasteignalánum. Þeir eiga þá ekki lengur með húð og hári þá sem skrifa undir lánasamninga við þá, það þýðir þá ekkert fyrir bankana að sýna kúnnanum alls konar spár um verðbólgu og greiðsluplön sem ekkert er að marka. Það kemur þeim sjálfum jafn illa og kúnnanum.

Þetta er nú langur pistill hjá mér um lítið mál. En þetta er það sem ég vil byggja undir í stjórnarskránni auk þess sem þú ert að skrifa um hér að ofan, hvernig sem það verður svo nákvæmlega útfært og orðað.

Jón Pétur Líndal, 12.11.2010 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband